18.12.1971
Efri deild: 34. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

126. mál, almannatryggingar

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Tryggingalöggjöfin í heild felur í sér afar víðtæk ákvæði, svo að þetta mál gæti í sjálfu sér verið tilefni til mikilla umr. En það er alls ekki ætlun mín að tala hér almennt um tryggingalöggjöfina, og það er ekki ætlun mín að tefja afgreiðslu þessa máls, þótt ég hafi kvatt mér hljóðs í því skyni að segja fáein orð um það þskj., sem hér er til afgreiðslu.

Það er einn liður í ákvæðum til bráðabirgða, sem ég vildi leyfa mér að vekja athygli á með nokkrum orðum. Þetta ákvæði er svo hljóðandi:

„Iðgjöld hinna tryggðu til sjúkratrygginga skv. 2. mgr. 48. gr. laganna.

Sérstakt framlag sveitarsjóða til sjúkratrygginga skv. 3. mgr. 49. gr. laganna skal árið 1972 vera 9.77% af tilföllnum gjöldum sjúkrasamlags, þ. á m. hlut í gjöldum héraðssamlags árið 1972. Skal hvert sveitarfélag greiða sjúkrasamlagi með jöfnum greiðslum á árinu 2.125 kr. fyrir hvern samlagsmann gegn uppgjöri að árinu loknu.“

Þetta ákvæði lýtur aðeins að framkvæmd mála á árinu 1972, enda virðist mér, að með þeirri skipulagsbreytingu, sem nú er gerð á fjárhagsgrundvelli sjúkrasamlaga, sé nokkuð tvísýnt um það, hvort þau til frambúðar starfi á sama hátt og verið hefur, og til þess bendir að nokkru ákvæði í II. lið á þskj., þar sem kveðið er svo á, að hvert sjúkrasamlag skuli gert upp nákvæmlega miðað við 1. jan. 1972. En um framtíðarskipan sjúkrasamlaga í heild verður ekki fjallað í sambandi við þetta mál, og það bíður síðari tíma. En fjárhagsgrundvöllur sjúkrasamlaganna hefur verið þannig, að Tryggingastofnunin ákveður iðgjöld í hverju sjúkrasamlagi, að fengnum tillögum sjúkrasamlagsstjórnar. Iðgjaldsákvörðun er háð staðfestingu ráðh. Iðgjöld skulu ákveðin með það fyrir augum, að heildartekjur sjúkrasamlags nægi til að standa straum af skuldbindingum þess. Á móti iðgjöldum, sem ákveðin eru í hverju sjúkrasamlagi, hefur ríkissjóður síðan greitt hlutfallslega, og eins og lögin eru nú, þá nemur það 250% greiddra sjúkrasamlagsiðgjalda samlagsmanna, og hlutaðeigandi sveitarfélag hefur siðan greitt 85% iðgjaldanna, eða fjárhæð, sem nemur 85% af heildariðgjöldunum. Ákvörðun Tryggingastofnunarinnar um iðgjaldahæð í hverju sjúkrasamlagi, sem tekin er að fengnum tillögum sjúkrasamlagsstjórnar, er því sá grundvöllur, sem fjárhagsöflun til sjúkrasamlagsins byggist nú á, þar sem hinir aðilarnir greiða tiltekin framlög á móti, fjárhæð í tilteknu hlutfalli við iðgjöldin. Þetta hefur í framkvæmd þróazt þannig, að sjúkrasamlagstjórnir, sem eiga heima í hverju sveitarfélagi, þar sem sjúkrasamlag starfar, gera sér grein fyrir fjárþörfum sjúkrasamlagsins og senda tillögur sínar um fjárhæð iðgjalda til Tryggingastofnunar ríkisins. Ég hygg, að ég megi fullyrða, að Tryggingastofnunin hafi aldrei hamlað gegn því eða ráðh., að hækkuð væru iðgjöld til sjúkrasamlaganna, þvert á móti hygg ég, að það hafi verið sjónarmið þeirra, að fjárhagur sjúkrasamlaganna ætti að vera vel tryggður. Þótt framkvæmdin hafi verið með þessum hætti, þá er það augljóst, að þarfir sjúkrasamlaganna hafa reynzt misjafnar, og af því hefur leitt, að iðgjöld í sjúkrasamlögum hafa verið allmismunandi.

Ég hef hér í höndum rit Tryggingastofnunar ríkisins, Félagsmál, og í þessu riti er listi um iðgjöld sjúkrasamlaga nokkuð víða af landinu, eins og þeim hefur verið breytt og þau ákveðin á árinu 1971. Þessi listi tekur að vísu ekki til allra sjúkrasamlaganna í landinu, vegna þess að á árinu 1971 mun ekki hafa verið um verulegar breytingar að ræða á iðgjöldum í sumum sjúkrasamlögunum, en mér telst svo til við lauslega athugun, að þessi listi nái yfir 55 sjúkrasamlög, og þessi listi eða grg. sýnir, að hæsta iðgjald hjá þessum 55 sjúkrasamlögum hefur á árinu 1971 verið 4 020 kr., í Kópavogi, en lægsta iðgjald á þessu ári, að mér virðist við lauslega athugun, hefur verið 2 160 kr., í sjúkrasamlagi Raufarhafnarhrepps, og síðan eru fjárhæðirnar misjafnar, sveiflast nokkuð til þarna á milli, en mjög mörg sjúkrasamlög hafa verið með iðgjöld á þessu ári um 3 000 kr. og þar fyrir neðan. Reykjavík er að sönnu ekki á þessum lista, að mér sýnist, hins vegar er Akureyri hér, og iðgjald þar er 3 300 krónur, og þetta er nokkuð eftirtektarvert með tvo stærstu kaupstaðina, þegar Reykjavíkurborg er tekin frá, Akureyri og Kópavog, hvaða munur er þar á iðgjaldi til sjúkrasamlags, þ.e. hvernig þau málefni hafa þróazt í þessum kaupstöðum, þótt ég telji víst, að réttindi sem samlagsmenn njóta í þessum tveimur stóru kaupstöðum, séu svipuð eða hin sömu.

Nú er hér með þessum till. breytt fjárhagsgrundvelli sjúkrasamlaganna, þar sem iðgjöld einstaklinga eiga að falla niður, og þá er ekki óeðlilegt að spyrja: Hvernig verður fjárhagsgrundvöllur sjúkrasamlaganna lagður í framkvæmd á árinu 1972? Mér skilst, að það geti komið til greina, að sjúkrasamlagsstjórnir, sem vitanlega starfa áfram, sendi tillögur sínar til Tryggingastofnunar ríkisins, um það, hver iðgjöld á árinu 1972 hefðu þurft að vera, til þess að fjárhagur samlagsins sé tryggður, miðað við þær hækkanir, sem í vændum eru, og síðan verði ákveðin iðgjöld til hvers sjúkrasamlags með tilliti til þessara tillagna.

Hitt gæti e.t.v. komið til greina, — það er aðeins hugmynd, sem ég varpa fram, — að það muni ekki verða gert ráð fyrir því, að sjúkrasamlögin safni sjóðum á árinu 1972. Ef svo ætti að vera, virðist ástæðulaust að gera þau upp miðað við næstu áramót, heldur að þau geti innt af hendi þann kostnað eða þær kvaðir, sem á þau falla, og þá mætti hugsa sér, að sveitarfélög og ríkissjóður greiddu eftir á mánaðarlega upp í þær þarfir, sem sjúkrasamlagið hefur fyrir tekjur, en þetta er nú, má segja, hugmynd um framkvæmdaatriði, sem ekki snertir þetta þskj. beinlínis, þótt ég hafi haft orð á þessu.

Nú má gera ráð fyrir, að það verði einhver hækkun á kostnaði, sem sjúkrasamlög eiga að standa undir á árinu 1972, frá því, sem verið hefur á þessu ári, og í heild verður kostnaður Tryggingastofnunar ríkisins miklum mun meiri en á þessu ári, en það stafar að verulegu leyti af stórauknum bótum og þannig útfærslu í tryggingakerfinu, en þau réttindi, sem sjúkrasamlögin eiga að veita á árinu 1972, munu ekki breytast mikið frá því, sem verið hefur að undanförnu, þannig að það er eðlileg ályktun, að hækkun til þeirra þurfi ekki að vera eins mikil og til almannatrygginganna í heild.

Þá kem ég aftur að orðalagi í bráðabirgðaákvæðunum, sem ég las í upphafi máls míns, þar sem segir, að sérstakt framlag sveitarsjóða til sjúkratrygginga skuli árið 1972 vera 9.77% af tilföllnum gjöldum sjúkrasamlags, þ. á m. hlut í gjöldum héraðssamlags árið 1972. Nú er starfsemi sjúkrasamlaganna þannig, að reikningar eða fjárhæðir eru greiddar eftir á samkv. reikningum, sem sjúkrasamlagsstjórnirnar fá í hendur, og ég skil þetta orðalag þannig, að þegar talað er „af tilföllnum gjöldum sjúkrasamlags“, þá sé þar með átt við þann kostnað, sem kominn er fram samkv. reikningum, sem sjúkrasamlagsstjórnir hafa fengið í hendur, og þar sem þessi kostnaður er greiddur eftir á, þá virðist mér, að það nægi, að sjúkrasamlagið geri kröfu til þess, að sveitarsjóður greiði jafnóðum, þ.e. mánaðarlega eftir á, 9.77% eða segjum 10% af þeim kostnaði, sem sjúkrasamlagið hefur orðið fyrir á tilteknu tímabili, og síðan greiði ríkið hitt, til þess að reikningar sjúkrasamlagsins séu gerðir upp. Ég tel þetta varhugavert, og ég vildi mælast til þess, að n. athugaði þennan málsl., sem ég skal nú lesa, og ég tel vel farið, að hæstv. ráðh. hlustar á þessi orð:

„Skal hvert sveitarfélag“ — þ.e.a.s. hvert einasta sveitarfélag — „greiða sjúkrasamlagi með jöfnum greiðslum á árinu 2 125 kr. fyrir hvern samlagsmann gegn uppgjöri að árinu loknu.“

Ég bendi aftur á það, að á þessu ári hafa iðgjöld margra sjúkrasamlaga, samkv. opinberri, óvéfengjanlegri heimild verið 3 000 kr. og þar fyrir neðan, og ef miðað væri við, við skulum segja, 3 000 kr. iðgjald, það hefði þurft að vera það á árinu 1972, og sveitarsjóður á að greiða 9.77% eða 10% af hlutfalli við það, þá er þessi skattheimta til sjúkrasamlagsins 2 125 kr. fyrir hvern samlagsmann langt umfram þarfir hjá mörgum þeirra. Ég sé satt að segja ekki, — þar sem ekki mun vera miðað við það, að sjúkrasamlögin fari að safna sjóðum, enda finnst mér þá, að hlutur ríkisins ætti að hækka að sama skapi, — að það sé nein ástæða til að vera að gera þetta skilyrðislaust, og þess vegna vil ég mælast til þess, að þessi málsl. verði skoðaður, áður en málið fer út úr d., annaðhvort á þann veg að sleppa þessu ákvæði um skilyrðislausar greiðslur sveitarsjóðs, sem nema 2 125 kr. fyrir hvern samlagsmann, og láta bara hlutfallstöluna gilda, eða á þann veg, að þetta sé ekki gert skilyrðislaust, heldur sé þetta hámark, það megi vera allt að þessu, en í reynd verði þetta miðað við þarfir sjúkrasamlags í hverju sveitarfélagi.