14.02.1972
Neðri deild: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í D-deild Alþingistíðinda. (3711)

146. mál, lágmarksmöskvastærð þorskfiskneta

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð í sambandi við þessa þáltill. Ég hef nú því miður ekki getað fylgzt með umr. um hana sem skyldi, en ég vildi láta þess getið í sambandi við þessa till., að það er nokkuð síðan rn. skipaði nefnd manna til þess að fjalla um meginefni þessarar till., en sú nefnd hefur það verkefni að endurskoða reglugerðir, sem í gildi eru varðandi fiskveiðar og þá einnig um meðferð á fiski, og henni hefur verið falið sérstaklega að gera till. um þetta atriði, hvort rétt sé að setja reglugerð um lágmarksmöskvastærð á þorskanetum. Það er rétt, að það er mjög margt, sem bendir til þess, að nauðsynlegt sé orðið að gera það, því að það hefur borið talsvert á því nú síðari árin, að möskvastærðin hafi farið minnkandi og þannig sé sótt meira og meira með þorskanetunum í smærri fisk. En aðalatriði málsins er sem sagt það, að nú starfar nefnd, sem í eru fiskifræðingar og útgerðarmenn og sjómenn, einmitt að því að gera till. um þetta atriði í fullu samræmi við þá samþykkt, sem gerð var á síðasta aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna um þetta efni.

Hins vegar þar sem fjallað er í þessari till. um þorskveiðar í nót, þar er aftur komið inn á nokkuð annað atriði, sem er, eins og nú háttar hjá okkur, að vísu ekki mjög umfangsmikið, en þó fer veiði fram á nokkrum stöðum á landinu á þennan hátt. Það er alveg sjálfsagt, að fram fari frekari athugun en gerð hefur verið einnig á því atriði. En það er rétt að gera sér alveg grein fyrir því, að þarna er auðvitað um tvö alveg aðskilin vandamál að ræða, það sem snertir möskvastærðina í þorskanetum, og svo aftur þá veiði, sem á sér stað núna með þorskanót.

Ég vildi sem sagt, að það kæmi hér fram í sambandi við þessar umr., að ég tel sjálfsagt, að till. gangi til nefndar, sem kynni sér það, hvernig ástatt er með málið. Það er sem sagt nú í höndum sérstakrar nefndar, sem hefur haft það með höndum nú um nokkurt skeið að gera till. varðandi þetta mál til rn.