17.05.1972
Neðri deild: 82. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í D-deild Alþingistíðinda. (3716)

146. mál, lágmarksmöskvastærð þorskfiskneta

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Sjútvn. fékk þetta mál til meðferðar nokkuð snemma í vetur. Hún sendi það ýmsum aðilum til umsagnar og ræddi það á nokkrum fundum. Umsagnir bárust um málið frá Fiskifélagi Íslands, Hafrannsóknastofnuninni og Sjómannasambandi Íslands, og eru niðurstöður þessara aðila allra jákvæðar. Í umsögn Fiskifélagsins kemur þó fram, að þeir leggja það til að möskvastærð verði leyfð nokkuð önnur og minni fyrir Norðurlandi en gert er ráð fyrir í frv.

N. skilaði áliti á þskj. 549, en einstakir nm. áskildu sér þar rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma. Síðar kom í ljós, að nokkuð skiptar skoðanir voru um einstök atriði till. og þá helzt í sambandi við bann gegn bolfiskveiði í nót og einnig þetta atriði, sem fram kom hjá fiskifræðingum, að möskvastærð þyrfti að vera önnur fyrir Norðurlandi en talið var, að hún þyrfti að vera annars staðar á landinu. Til þess að komast fram hjá ágreiningi um málið, sem auðvitað mundi verða til þess að hætta væri á, að það næði ekki fram að ganga á þessu þingi, þá höfum við tveir þm. leyft okkur að flytja brtt. nú við þessa umr., sem prentuð er á þskj. 876 og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Neðri deild Alþingis ályktar að skora á ríkisstj. að ákveða með reglugerð, að lágmarksmöskvastærð þorskfiskneta skuli frá 1. jan. 1973 eigi minni vera en sjö þumlungar. Þó skulu á svæðinu frá Horni austur um að Digranesi leyfðar veiðar með þorskfisknetum með minni möskvastærð, en þó eigi minni en 5'/2 þumlung.“

Þessi till. er flutt til þess að sníða úr till. þau atriði, sem við sáum fram á, að ágreiningi mundu valda, og við vonum, að till. þannig breytt, nái fram að ganga og um hana þurfi ekki að verða hér skiptar skoðanir.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta mál lengri framsögu, en vænti þess, að hv. d. geti orðið sammála um afgreiðslu málsins á þann veg, sem lagt er til á þskj. 876.