24.02.1972
Sameinað þing: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í D-deild Alþingistíðinda. (3726)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Allshn. hefur m.a. haft til meðferðar till. til þál. um byggingu leiguhúsnæðis á vegum sveitarfélaga. Þessi till. er á þskj. 107 og er hér til umr. Till. þessi er þess efnis, að lýst sé yfir því af hálfu Alþingis, að gera beri hið fyrsta ráðstafanir til þess að bæta úr þeim alvarlega skorti á leiguhúsnæði, sem ríkjandi sé í flestum þorpum og kaupstöðum víðs vegar um land. Í því skyni verði í fyrra lagi látin fara fram könnun á þörf fyrir leiguhúsnæði í sveitarfélögum um landið, og í öðru lagi verði lagt fyrir Alþ. frv. til l. um útvegun fjármagns og útlán þess til sveitarfélaga, þannig að þeim sé gert fjárhagslega kleift að byggja og reka leiguhúsnæði, þar sem þess kann að vera þörf. Þetta er aðalefni tillgr.

Það er alkunna, að víðs vegar um land í þorpum og kaupstöðum, ekki sízt þar sem útgerð og fiskiðnaður eru höfuðatvinnugreinar, hefur ríkt og ríkir tilfinnanlegur og sums staðar mjög alvarlegur skortur á leiguhúsnæði fyrir aðkomustarfsfólk. Heimamenn einir hafa hvergi nærri tök á oft og tíðum að anna þeim störfum, sem fiskisókn ásamt tilheyrandi landvinnu kallar á. Þannig hefur skortur á vinnuafli tafið eðlilega þróun í þessum greinum í slíkum sjávarplássum og komið að öðru leyti í veg fyrir nauðsynlega stækkun byggðarlagsins og eflingu þess í flestu tilliti, svo að ekki sé nú rætt um þá þjóðhagslegu þýðingu, sem það kynni að hafa, ef hægt væri að bæta hér úr.

Á mörgum þessara staða eru góð afkomuskilyrði fyrir ungt fólk t.d., sem gjarnan vildi hefja þar störf og þá til langtíma, ef fyrsta kastið væri til staðar hentugt íbúðarhúsnæði fyrir slíkt fólk. Það er ekki hægt að krefjast þess, enda ekki eðlilegt, að ungt fólk, þegar það kemur á slíkan stað, láti það verða sitt fyrsta verk að leggja í að byggja íbúðarhús, eigið íbúðarhús. Þetta er alkunna og nægilega vitað. En þetta ástand, sem hefur skapazt af þessum skorti á húsnæði, hefur valdið alvarlegum örðugleikum í þeirri viðleitni að efla sjávarútveg og fiskiðnað, svo sem að er stefnt og þjóðarnauðsyn krefur. Og önnur byggðarlög, þar sem öðrum atvinnuvegum eða atvinnugreinum er til að dreifa, stórlíða fyrir skort á mannafla, m.a. fyrir þessa sök.

Nú er það svo, að í núgildandi lögum okkar eru engin ákvæði, sem heimila lánveitingar svo rúmar til sveitarfélaga, að þeim sé auðið að koma sér upp og eiga leiguhúsnæði af þessu tagi. Það verður því að telja fyllilega tímabært, að Alþ. láti þetta mikilsverða nauðsynjamál til sín taka og eigi verði látið sitja við orðin tóm.

Allshn. leitaði umsagna tveggja aðila um þetta mál, annars vegar Húsnæðismálastofnunar ríkisins og hins vegar Sambands ísl. sveitarfélaga. Hafa báðir þessir aðilar í svari sínu lagt áherzlu á, að málið fengi góðan framgang hér á þingi. Samband ísl. sveitarfélaga tekur fram. að það mæli með till., en bætir því við, að enda verði svo litið á framkvæmd á efni till. sem hún sé þáttur í að færa út byggðastefnuna.

Það þarf að sjálfsögðu ekki að fara í grafgötur um það, að efni þessarar till. er einmitt inni á þessu efni, þ.e. að halda uppi byggðajafnvægi. Og í raun og veru mætti kannske segja, að það væri að nokkru leyti og kannske verulegu leyti verkefni hinnar nýju stofnunar, Framkvæmdastofnunar ríkisins, að hafa slíkt mál sem þetta með höndum og veita úrlausnir í því og sérstaklega þá sú deild innan þessarar stofunnar, sem nefnist Byggðasjóður. Það atriði er að sjálfsögðu mjög til athugunar, þegar þessu máli er velt fyrir sér.

Húsnæðismálastofnunin hvetur mjög til þeirrar könnunar, sem lagt er til, að fram fari, og segir, að niðurstöður slíkrar könnunar geti orðið sérlega mikilvægur grundvöllur að löggjöf á þessum sviðum og auðvitað er það alveg hárrétt hjá Húsnæðismálastofnuninni. En slík könnun þarf að fara fram hið allra fyrsta. Það má í raun og veru engan tíma missa úr þessu til að bæta úr í þessu efni.

Í grg. fyrir till. kemur réttilega fram, að eins og húsnæðismálalánum háttar, er alveg auðsætt, að byggingarsjóður hefur ekki fjárhagslega möguleika eins og er að veita íbúðalán í ríkara mæli, en nú er til smíði á slíkum leiguíbúðum, sem hér ræðir um. Þá þarf byggingarsjóðurinn að sjálfsögðu og óhjákvæmilega að fá nýja tekjustofna og stóraukið fjármagn, ekki aðeins í þessu skyni heldur og almennt til þess að halda uppi þessari lánastarfsemi, auka hana og efla á alla lund. Ég sagði, að það vantaði stórfé í byggingarsjóðinn til þess m.a. að koma til aðstoðar í þessu efni. Það mun að sjálfsögðu rétt vera, og vantar þó fé til hinna venjubundnu útlána, að ég hygg. En mér er ekki fullkunnugt um, eins og er, hvernig hagur byggingarsjóðs er og hverjar áætlanir hann hefur á prjónunum á þessu ári, 1972. En að sjálfsögðu væri það nauðsynlegt fyrir okkur þm. að fá upplýsingar um það, því að það er ekki um að villast, að þessi málefni, húsnæðismálefni okkar, eru meðal hinna stærri, sem eru í framkvæmd í þjóðfélaginu á hverjum tíma og brenna mjög á fjölda manna.

Í grg. fyrir till. er m.a. bent á Atvinnuleysistryggingasjóð, að hans verkefni séu mjög náskyld eflingu atvinnulífs víðs vegar um land. Og það mætti kannske vera á sínum stað, að þessi sjóður gæti hlaupið undir bagga einmitt í þessu sérstaka skyni, og það er að sjálfsögðu til athugunar.

Þetta mál, þessi till, og efni hennar er sjálfsagt orðið nægilega ljóst, a.m.k. í meginatriðum. og ég mun ekki hafa mörg fleiri orð þar um, en allshn. mælir eindregið með samþykkt till., en með vissri breytingu, og er brtt. getið í nál. Nefndinni þótti rétt, að í tillgr. kæmi skýrt fram, að væntanleg útvegun fjármagns í þessu sérstaka skyni skerði í engu lánsfé eða öflun lánsfjár til byggingar eigin íbúðarhúsnæðis.

Og að lokum vil ég leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa hér brtt., sem er í nál.:

„Við 2. tölul. tillgr. bætist: Skal þess gætt, að þessi sérstaka fjármagnsútvegun dragi ekki úr öflun lánsfjár til byggingar eigin íbúðarhúsnæðis.“