24.02.1972
Sameinað þing: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (3727)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég tel mér nauðsyn á því að tjá mig hér í sambandi við þetta mál, sem ég tel eitt af stærri vandamálum margra byggðarlaga í landinu, alveg sérstaklega hvað viðkemur hinum ýmsu útgerðarþorpum og bæjum. Þar er þetta brennandi mál. Húsnæðismálalöggjöf okkar er þannig uppbyggð, að hún gerir hvergi ráð fyrir að leysa þennan vanda. En ég fullyrði, að þetta er eitt af því, sem stendur í vegi fyrir eðlilegri fólksfjölgun, sem er brýnasta forsenda þess, að uppbygging í mörgum sjávarþorpum geti verið eðlileg. Þið, hv. þm., kannizt sjálfsagt við það, að yfir þjóðina dynja auglýsingar um, að það vanti fólk á þennan og hinn staðinn í nauðsynlegustu framleiðslugreinum. Útgerðarmenn og forstöðumenn fiskvinnslustöðva víðs vegar um landið eru alveg í vandræðum með sína starfsemi, sem er þó undirstaða byggðarinnar á viðkomandi stöðum. Og það, sem er fyrst og fremst vandamál víða í þessum sjávarþorpum, er einmitt það, að ekki er hægt að útvega húsnæði fyrir það fólk, sem vildi koma í þessa starfsemi. Það er ekki heldur hægt að ætlast til þess, að ungt fólk, sem vill stunda atvinnu á þessum stöðum. byrji á því að leggja í milljónafjárfestingu, byggi hús eða kaupi hús, til þess að geta stundað þessa atvinnu. Og það er öruggt mál, að það er ofviða viðkomandi sveitarfélögum að leysa úr þessu vandamáli nema hið opinbera komi til. Ég held, að það sé þess vegna mjög tímabært að hugsa í alvöru um þetta mál, og þess vegna fagna ég þessari till., sem hér er til umr., því að það er tómt mál að tala um eflingu byggðar um landið, ef einmitt svona veigamiklir þættir eru ekki teknir inn í dæmið.

Með lögunum um Húsnæðismálastofnun ríkisins var vissuleg stigið stórt og merkt skref í sambandi við húsnæðismál þjóðarinnar, og hefur sú löggjöf vissuleg lyft grettistökum. En hún er gölluð, t.d. hvað viðkemur verkamannabústöðum. Verkamannabústaðalögin eru ein nauðsynlegasta löggjöf, sem fram hefur verið sett í þessum málum, því að hún miðar að því að hjálpa þeim. sem minnsta hafa möguleikana til að koma yfir sig húsnæði. En í framkvæmd eru núgildandi lög þannig, að þessir staðir, sem við erum einmitt að tala um núna, hafa litla eða mjög litla möguleika til þess að notfæra sér löggjöfina, þannig að, að gagni komi.

Ég get sagt ykkur litið dæmi úr mínu byggðarlagi. Við kusum stjórn fyrir Byggingarfélag verkamanna. Við létum auglýsa eftir umsóknum fólks, sem vildi nota sér þá löggjöf. Eftir hálfs mánaðar umsóknarfrest var eftirspurn orðin svo mikil, að það þurfti að byggja 18 íbúðir. En þó að sveitarfélagið hafi samþykkt að leggja fram hámark þeirrar upphæðar, sem löggjöfin gerir ráð fyrir, 400 kr. á hvern íbúa, sem gerir í þessu tilfelli 400 þús. kr., þá nægir það aðeins til að byggja sex íbúðir á fjórum árum. Ég held, að það væri mjög verðugt verkefni að gera breytingu á þessari löggjöf, þannig að hún gæti komið að meiri notum einmitt fyrir þessa staði víðs vegar um landið.

Ég hygg. að margir séu sammála mér í því, að hin svo kallaða Breiðholtsáætlun taki of mikið af hinu almenna fjármagni, sem er veitt til byggingarframkvæmda, þannig að hlutur landsbyggðarinnar verði of rýr. Ég er ekki að halda því fram. að byggingaráætlunin í Breiðholti sé ekki nauðsyn fyrir vöxt og viðgang Reykjavíkur, en ég tel, að það þurfi einmitt í þessu sambandi að huga vel að því, að það eru fleiri staðir úti um landið, sem þurfa á opinberri aðstoð að halda á þessu sviði og það er nauðsyn. Ég tel þess vegna, að eina lausnin á því vandamáli, sem ég minntist á í upphafi, sé að styrkja aðstöðu sjávarþorpa og byggða víðs vegar um landið. Það er einmitt sú lausn, sem þessi till. fer inn á, að gera sveitarfélögunum kleift að byggja leiguhúsnæði. sem þau geta boðið því fólki, sem vill koma á þessa staði og verður að koma á þessa staði, ef byggðin á að haldast. Og ég teldi eðlilegt í þessu sambandi að veita í þessu skyni lán til sveitarfélaganna, sem þyrfti að vera allt að 90% af byggingarkostnaði slíkra bygginga. En ég legg áherzlu á það, og það var nú eiginlega tilgangur minn með því að fara hingað í ræðustól, að þetta verður að gerast mjög fljótt. Það verður að gerast mjög fljótt, ef ekki á illa að fara í uppbyggingu á þessum stöðum, sem ég minntist á áðan, sem hafa lagt allt sitt í að byggja upp atvinnulífið. Ekki sízt nú, þegar hið opinhera er að stuðla að því með því að dreifa stórvirkum tækjum eins og skuttogurum og öðru slíku til þessara byggðarlaga, þá er útilokað annað en þessi þróun fari jafnhliða fram. Og ég vil varpa fram þeirri spurningu, hvort Byggðasjóður, sem nú er orðinn að veruleika, hvort þarna sé ekki verkefni fyrir hann?

Herra forseti. Ég hef haldið mína jómfrúræðu hér á hinu hv. Alþingi í allt öðru máli en ég hafði ákveðið. En þetta mál, sem hér er á dagskrá, er mér svo ofarlega í huga sem sveitarstjórnarmanni í ört vaxandi sjávarþorpi, þar sem þetta er brennandi vandamál að ég taldi mér skylt að undirstrika mikilvægi málsins. Og ég vil treysta á hæstv. ríkisstj. og sérstaklega hæstv. félmrh. að vinna ötullega að því að leysa þetta vandamál, leysa þetta vandamál byggðanna úti um landið á raunhæfan hátt.