24.02.1972
Sameinað þing: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í D-deild Alþingistíðinda. (3729)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið frá því, sem orðið er, en í tilefni af orðum hv. frsm. allshn. í málinu, nokkrum setningum hans, þá vildi ég, að fram kæmi sjónarmið mitt í þessu máli.

Ég fagna framkomu þessarar till. og því, að eining hefur náðst um málið í allshn., og er þó ekki fyrir það að synja, að öllum þeim, sem haft hafa afskipti af húsnæðismálum hér undanfarna áratugi, hefur verið ljós nauðsyn þess, að til móts við sveitarfélögin yrði gengið í sambandi við fjárútveganir eða lán til byggingar leiguhúsnæðis. Þetta hefur öllum, sem minnstu kynni hafa haft af þessum málum, verið ljóst um áratugaskeið, en það hefur þótt lykta dálítið af því, að verið væri kannske að blekkja einstaklinga og sveitarfélög að tala um lán til þessara framkvæmda á sama tíma sem Húsnæðismálastofnunin hefur ekki til hlítar getað gegnt þeim störfum. sem henni er lögboðið að gera samkv. gildandi lögum. Það er því alveg augljóst, að með þeirri endurskoðun, sem till. þessi gerir ráð fyrir, er nauðsyn á, að þeirri stofnun, sem lána á í þessu skyni, verði veittir nýir tekjustofnar, eins og n. reyndar undirstrikar með brtt. sinni.

Það er alveg augljóst, að mikil þörf er á, að þessi vandi sé leystur, en ég hygg, að það sé rangt, þó að það kunni að geta falizt innan þess lagaramma, sem Byggðasjóði er settur í Framkvæmdastofnun ríkisins, að hann hafi með framkvæmd slíkra ákvæða að gera, sem ályktunin gerir ráð fyrir, að gerð verði, þ.e. að lánað sé út í nýjum lánaflokki til leiguhúsnæðis. Það hefur verið einróma álit allra stjórnmálaflokka hér á undanförnum áratugum, að opinber afskipti af húsnæðismálum bæri að setja að sem mestu undir einn hatt, og lagasetning undanfarins tímabils hefur bent í þá átt, að einróma vilji væri fyrir því á þingi, að svo yrði gert. Hlutverk Byggðasjóðs í þessu tilfelli yrði því að mínu viti það eitt að aðstoða við fjárútvegunina til þessara hluta, en sjálf framkvæmdin yrði eðlilega á vegum þeirrar stofnunar, sem í dag eru falin öll opinber afskipti af húsnæðismálum.

Í sambandi við þá könnun, sem þáltill. þessi gerir ráð fyrir, að fram fari, þá vil ég geta þess, að mér er kunnugt um það, að Húsnæðismálastofnunin er einmitt að fara af stað með aðra könnun, sem vel gæti verið samferða þessari, könnun á því, hve mikið heilsuspillandi húsnæði er fyrir hendi í landinu í dag í kaupstöðum og kauptúnum, m.a. til þess að gera sér ljósan þann vanda, sem felst í því að endurbyggja það húsnæði og koma því í heilsusamlegt horf að mati viðkomandi heilbrigðisyfirvalda. Ég hygg, að slík könnun sem hér um ræðir gæti vel átt heima með hinni athuguninni á heilsuspillandi húsnæði og að sveitarfélögunum yrði gert að leggja fram skýrslu sína þar að lútandi um þörfina í báðum þessum tilfellum.

En ástæðan til þess, að ég stóð upp, er fyrst og fremst sú, að ég vil undirstrika það, að óeðlilegt væri að fara með þessa framkvæmd út fyrir starfssvið Húsnæðismálastofnunarinnar, sem samkv. lögum er ætlað að hafa öll opinber afskipti af húsnæðismálum og þeirri lánastarfsemi, sem þar fer fram. Væri farið að velja einhverja aðra stofnun til þess að hafa á hendi þá fyrirgreiðslu, sem af þessari þáltill. kynni að leiða, væri það í andstöðu við þann hugsunarhátt, sem á Alþ. hefur ríkt um þessi mál á undanförnum áratugum.

Og svo í öðru lagi. Það væri a.m.k. ekki í sparnaðarátt að setja upp nýtt „apparat“ í húsnæðismálum eða nýja stofnun, sem væri að sinna mjög hliðstæðum verkefnum þeim, sem Húsnæðismálastofnuninni er í dag falið samkv. gildandi lögum að gera.

Ég vil að lokum undirstrika það, að þó að í bylgjum hafi gengið og misjafnlega vel hafi miðað í áttina að uppfylla þær skyldur, sem Húsnæðismálastofnunin hefur á hendi í dag, þá hefur aldrei tekizt svo, að hægt væri að hreinsa þar öll borð og eyða upp öllum biðröðum, sem þar hafa verið eftir þeim lánum, sem Húsnæðismálastofnuninni er skylt í dag að annast, og þess vegna er grundvallarnauðsyn á því, að um leið og gengið er til móts við þær óskir, sem í þál. felast, kæmu þar til nýir tekjustofnar til að annast það verkefni. Það mun sjálfsagt vera þörf á nýjum tekjustofnum til Húsnæðismálastofnunarinnar til að sinna þeim skyldum, sem hún hefur á herðum í dag, hvað þá ef henni yrði falið þetta nýja verkefni, sem fyrir fram er vitað, að er mjög stórt og hlýtur að krefjast mikilla fjármuna, eigi að sinna því að einhverju leyti, sem áreiðanlega er til ætlazt með flutningi þessarar tillögu.

Ég ítreka það svo, að ég fagna því mjög, að till. er komin fram, en ég tel af fyrri kynnum mínum af þessum málum. að nauðsynlegt sé að gera sér jafnframt ljóst, að vandinn er hér eftir sem hingað til sá fyrst og fremst að útvega fjármagn til þessara hluta.