24.02.1972
Sameinað þing: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (3732)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs vegna þess, að mér finnst ástæða til þess að ræða þetta ofurlítið meira og skýra, hvað vakir fyrir okkur flm. og hvað að baki þessari till. býr.

Við höfum rekið okkur a það á undanförnum áratugum. að svo að segja í hvert skipti, sem unnt hefur verið að hleypa nýju fjöri í atvinnulif einstakra byggðarlaga úti um land, hefur vöxtur þeirra stöðvazt á því, að í þessum byggðarlögum er ekkert leiguhúsnæði að fá. Aftur á móti er ævinlega hægt að fá leiguhúsnæði hér við Faxaflóa, a.m.k. hér í Reykjavík. Þetta er alveg hiklaust ein stærsta ástæðan fyrir því, hversu erfiðlega gengur að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Og það þarf ekki að ímynda sér, að hægt sé að valda nokkrum straumhvörfum í því efni, öðruvísi en menn eigi kost á því að fá leiguhúsnæði í þessum smærri byggðarlögum úti á landi, þar sem atvinna er nóg og fólksskortur er.

Ég vil, að hver einasti hv. þm. spyrji sjálfan sig að því og svari því með sjálfum sér eða í heyranda hljóði, ef honum sýnist: Hefur hann trú á því, að það byggðarlag geti vaxið eðlilega, ég sagði eðlilega, þar sem óhugsandi er að fá nokkra kompu af íbúðarhúsnæði leigða? Er það hugsanlegt? Er það hugsanlegt, að slík byggðarlög geti dregið til sín vinnuafl á móts við önnur, þar sem ævinlega er hægt að fá leiguhúsnæði með atvinnunni?

Þetta er ekki verbúðamál það er alger misskilningur. Okkur eru ekki neinar verbúðir í huga eða fólk, sem ætlar sér að vinna hluta úr ári. Þetta er algerlega óskylt því. Þetta er eingöngu spursmálið um, hvort það á að búa þessi byggðarlög þannig, að þau njóti sín, að þau geti fengið til sín það fólk, sem vill eiga þar heima. Ef það á að vera áfram þannig, að enginn geti setzt að í sjávarþorpi annar en sá, sem er tilbúinn að byggja yfir sig strax, geta menn afskrifað allt tal um aukið jafnvægi í byggð landsins, algerlega. •

Hér í Reykjavík byggja margir einstaklingar, og ég er manna mestur talsmaður þess, að einstaklingar eigi sitt eigið húsnæði, og hef alla tíð verið. En ég trúi því ekki, að menn sjái ekki staðreyndir af þessu tagi, ef það er bent á þær. Ég trúi því ekki, að menn sjái það ekki, að þarna er vandamál, sem þarf að leysa, og ekkert verbúðamál eða neitt slíkt. Hér er aðeins um það að tefla, að þessi byggðarlög færist í það horf, að þau séu samkeppnisfær. Hér í Reykjavík er byggt einstaklingshúsnæði mjög mikið. Hér er allur megin þorri þeirra manna, sem fá húsnæðislán og lífeyrissjóðslán til viðbótar. Þar að auki er Reykjavíkurborg svo öflug, að hún byggir leiguhúsnæði í stórum stíl. Hún byggir fjöldann allan af smáíbúðum, sem hún leigir út. En hvað er byggt af hliðstæðu húsnæði í þessum byggðarlögum úti á landi, sem við höfum viljað láta vaxa eðlilega og áttu að hafa skilyrði til jafns við höfuðborgina í þessu máli? Það er ekki byggð ein einasta leiguíbúð í þeim flestum af þeirri einföldu ástæðu, að þessi sveitarfélög hafa hreinlega ekkert bolmagn til þess. Þó að þau vildu fara að eins og Reykjavík og byggja leiguíbúðir og létta þannig á, þá hafa þau ekkert bolmagn til þess. Frá mínu sjónarmiði séð er hér um eitt allra stærsta atriði í byggða þróunar málum að ræða, eins og hv. flm. og frsm. og fleiri ræðumenn hafa bent á. Það er sem sagt spursmálið um, hvort það á að reyna að koma þessu þannig fyrir, að menn geti valið á milli staða svona nokkurn veginn eins og þeim fellur bezt. Komist í það horf, að ef ung hjón ætla að setjast að á einhverjum stað, þá geti þau fengið leiguhúsnæði, þangað til þau eru búin að prófa, hvort þeim líkar að vera í því plássi og hvort þau hafa bolmagn til þess að byggja yfir sig, þegar fram líða stundir. Annars vegar er byggðarlag, sem svona stendur á um, hins vegar byggðarlag, þar sem er kannske alveg jafnmikil atvinna og þau vilja alveg eins vera í, en þau komast hvergi inn, af því að þar er ekkert leiguhúsnæði að fá. Þau hafa ekki bolmagn til þess að byggja strax. Það ætti ekki að þurfa að halda langa ræðu til þess, að menn skildu, að þarna er vandamál, sem verður að horfast í augu við og verður að reyna að finna lausn á.

Lausnin á þessu er líklega aðeins ein hugsanleg, og hún er sú að styðja þau sveitarfélög, sem þarna eiga hlut að máli, styðja þau með sérstökum framlögum umfram það, sem íbúðalánakerfið hefur yfir að ráða, til þess að koma upp leiguhúsnæði. Ég er mikill stuðningsmaður þess, að menn búi í eigin húsnæði og álít það þjóðhagslega mjög þýðingarmikið, eins og hér var bent á áðan, og því finnst mér, að það ætti að leysa þennan vanda með því, að menn gætu fengið litlar, en góðar íbúðir, sem henta vel fyrir menn til þess að byrja í þeim, en sem menn samt sem áður sækjast eftir að fara úr, þegar fram líða stundir, börnum fjölgar og fjölskyldan stækkar, og menn noti þetta eins og þrep eða stökkpall. Geti verið í þeim á meðan menn eru að finna, hvort þeim líkar að vera á þessum stað. Vilja menn festa sig til frambúðar? Hafa menn ráð á því að ráðast í eigin íbúðarbyggingu, sem maður vonar, að yrði og þörfin mundi knýja á, ef þarna væru litlar, en góðar íbúðir. Þessar íbúðir mættu sveitarfélögin ekki selja. Þau yrðu að eiga þær áfram til þess að geta svo tekið næstu umsækjendur inn jafnóðum og þær losnuðu.

Ef menn fella sig ekki við þessa lausn, þá verða menn að benda á einhverja aðra lausn á þessum vanda, því að vill nokkur neita því, að hér er um stórfellt vandamál að ræða? Það þýðir ekkert að segja það við okkur, sem áratugum saman höfum starfað fyrir þau byggðarlög, sem hér eiga hlut að máli, að svo sé ekki. Við vitum, að hér er um gífurlegt vandamál að ræða. Við vitum, að það er svo stórfellt, að byggðarlögin taka aldrei eðlilegum vexti nema hægt sé að hjálpa til að leysa þetta að einhverju verulegu leyti. Þetta er náttúrlega líka það stórt mál, að það þýðir ekki að vera að tala um, að þetta sé eitthvað, sem menn eigi að sinna, þegar búið er að sinna öllu öðru og eitthvert afgangsfé sé til, til þess að láta í þetta. Sá hugsunarháttur er þannig, að menn þurfa alvarlega að endurskoða hann. Hér er nefnilega um það alvarlegt mál að ræða, að það er spurning, hvort það þarf ekki að skipa þessum framkvæmdum í einhvers konar forgangsflokk ásamt öðru, sem menn vilja gera til þess að stuðla að eðlilegri byggð í landinu.

Nú erum við að stækka landhelgina. Við vitum það, að landhelgina verðum við að nýta með því að auka sjávarútveginn, efla hann, og þá verður að hafa skipakostinn víðs vegar um landið á ströndinni, í mörgum byggðarlögum. Og eins og hér var bent á áðan, þá er nú þegar verið að gera undirbúning að því að stækka frystihús og kaupa skip og báta til þess að nýta landhelgina. Okkur ber beint skylda til þess að nýta hana, þegar við höfum fengið hana til afnota, og þá verðum við, eins og raunar kom hér fram áðan, að horfast í augu við, að einhvers staðar verður fólkið að búa, sem á að starfa að þessu, og það verður varanlegur skortur á fólki í þessum byggðarlögum, ef ekki verða fundnar leiðir til þess að leysa þennan þátt íbúðamálsins.

Ég er ekki að tala um að klípa neitt af öðrum lánum í íbúðalánakerfinu. Ég býst við, að það veiti ekki af öllu því, sem í því kerfi er af peningum. Ég tel, að það verði að brjótast í því að útvega aukafé, sem varið væri í þessu skyni til þess að efla sveitarfélögin á þessa lund, þau sem standa það höllum fæti, að þau geta ekki lagt í íbúðabyggingar eins og t.d. Reykjavík getur gert.

Það er ráðgert, að á vegum Byggðasjóðs eigi að gera áætlanir um uppbyggingu einstakra byggðarlaga, og það þarf enginn að halda, að íbúðabyggingar verði ekki að koma inn í slíkar áætlanir. Þetta er sem sé partur af því máli. Þá er spurningin: Er hægt að treysta því, að þær íbúðir komi fyrir einstaklingsframtak einvörðungu? Það er ekki hugsanlegt. Það verður að koma þarna til eitthvert framtak sveitarfélaganna, ég vil segja, eitthvað hliðstætt því, sem núna á sér stað í Reykjavík og hefur lengi átt sér stað, þar sem borgin hefur tekið þátt í lausn íbúðamálsins. Ég þekki ekki skýrslur um, í hversu stórum stíl það hefur verið, en ég veit, að það er æði mikið og hefur munað vel um það.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég vildi aðeins segja þessi örfáu orð til þess að taka þarna í spottann með mínum félögum, sem hafa verið að benda á, að þarna er um mikið vandamál að ræða, sem þarf að leysa sérstaklega. Ég held, að það væri ekkert athugavert við það, þó að stjórn Byggðasjóðs yrði höfð með í ráðum um það, hvernig svona fjármagni yrði varið og þá með tilliti til þess, hvernig ástatt er með vinnuafl og atvinnulíf í einstökum byggðarlögum.

Ég vil mjög eindregið skora á hæstv. ríkisstj. að taka þetta mál föstum tökum í sambandi við byggðamálin og uppbyggingu atvinnulífsins, en ég vil enn einu sinni segja, að þetta, sem ég er að segja hér, á ekkert skylt við það, að ég hafi yfirgefið þá stefnu, að bezt sé, að menn eigi eigið húsnæði, en þetta verður áreiðanlega að koma með inn í dæmið.