24.02.1972
Sameinað þing: 41. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í D-deild Alþingistíðinda. (3735)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá atriði. Ég verð nú að segja það eins og er, að ég er ekki alveg sáttur við hæstv. félmrh. í sambandi við túlkun hans á þessu máli. Ég held, að það fari ekkert á milli mála, að sá skilningur, sem þar kom fram, sé of þröngur að því er varðar það, að byggja þurfi leiguhúsnæði fyrir fólk, sem kemur á vertíð eða í einhverju sérstöku atvinnu tilfelli hverju sinni. Ég legg þann skilning í þetta mál í heild, einmitt þann skilning, sem ég þóttist greina í framsöguræðu flm., að hér sé átt við það að gera mögulegt að fjölga íbúum þeirra byggðarlaga, sem hafa hvað mesta atvinnuuppbyggingu, en vantar fólk. Þessi skýring var undirstrikuð þannig, og við vitum það, að það er fjöldi fólks í þessu landi, sem vill gjarnan fara þangað sem atvinna er mikil, en treystir sér ekki til þess að leggja strax í fjárfestingu í sambandi við íbúðarhúsabyggingu eða kaup á húsum, meðan það er að átta sig á því, hvernig aðstaða er á staðnum. Og ég vil enn fremur benda á það, að í hverju byggðarlagi, ekki sízt úti um landið, er fjöldi fólks, sem hefur aldrei efni á því að eignast eigið húsnæði miðað við byggingu á nýjum húsum. Og því skyldi ekki vera rétt að stuðla að því, að viðkomandi sveitarfélög geti stutt þetta fólk? Við höfum hér ákvæði í húsnæðislöggjöfinni í sambandi við heilsuspillandi húsnæði. Það er ágætt ákvæði, en hins vegar eru velflest sveitarfélög þannig sett, þau smærri, að þau geta tæplega notað sér þetta ákvæði að neinu gagni.

Í sambandi við það, sem síðasti ræðumaður sagði hér áðan um heimild Húsnæðismálastofnunar til að lána til byggingar leiguhúsnæðis, sem mun vera í 8. gr. laganna, tel ég, að það sé augljóst mál, að það ákvæði fullnægi ekki því, sem þessi litlu sveitarfélög geta staðið undir. Ég hef kannað það lítillega, og það er alveg öruggt mál, að eins og það er túlkað í löggjöfinni, þá nær það ekki þeim tilgangi, sem að er stefnt.

Ég vil segja ykkur hér lítið dæmi til stuðnings þessu máli. Það er t.d. 1.000 manna kauptún, sem þarf að fá kennara. Ég veit um nýtt dæmi, þar sem viðkomandi staður þurfti að taka á móti þrennum ungum hjónum til þess að annast kennslu við skólann. Sveitarfélagið átti ekkert húsnæði til þess að láta þetta fólk í, og þetta fólk hafði heldur enga möguleika til þess að kaupa húsnæði, þó að það hefði verið til, vegna þess að þetta fólk kom beint út úr Kennaraskólanum. Hefði ekki verið eðlilegt, að sveitarfélagið hefði haft yfir að ráða leiguhúsnæði til þess að láta þetta fólk í? Í þessu tilfelli var þetta leyst þannig, að góðir borgarar í byggðarlaginu rýmdu svo sitt eigið húsnæði, að þeir gátu haft þetta fólk inni í sinni eigin íbúð, aðeins þetta eina skipti. Sumt af þessu fólki vildi setjast að á þessum stað, ef það hefði húsnæði, en það hefur það ekki. Þetta er kannske óskýrt fram sett, en þó varðar þetta einn þátt þessa máls. Og þess vegna get ég ekki fellt mig við það, að félmrh. skuli segja hér, að þetta sé minna vandamál heldur en blasir við okkur, sem þurfum daglega að glíma við þetta.

Ég vil taka undir það með honum, að ég álit, að það hafi verið slys, þegar hafnalögunum var breytt 1958, að heimildin um þátttöku ríkisins í byggingu verbúða skyldi vera strikuð út. Verbúðabyggingar voru vissuleg nauðsynlegar og eru enn til að styrkja útgerðina á þessum stöðum. Og ég kannast ekki við það, að þau fáu sveitarfélög í landinu, sem nýttu ríkisstyrks til þess að byggja verbúðir, hafi misnotað þessi hús. Ég kann sögu úr mínu nágrenni, þar sem hluti af þessu húsnæði er notað að sumri til, þegar útgerð er minni í viðkomandi sveitarfélagi, þannig að ekki þarf að nota það fyrir aðkomusjómenn, þá er það notað til þess að taka á móti ferðafólki, veita nauðsynlega þjónustu í sambandi við gesti og gangandi, þar sem ekki er hótel. Það er ekki misnotkun.

Ég kann ekki við, að það sé talað í þessu máli þannig, að verið sé að gera upp á milli manna í landinu, ef þetta mál er leyst á þann veg, sem hér hefur komið fram. Ég held einmitt þvert á móti, að það þjóni þeim tilgangi að styrkja stöðu landsins í heild, atvinnulega og fjárhagslega séð, ef hægt er að styrkja þá staði úti um landið, sem eru ein styrkasta stoðin í framleiðslu þessarar þjóðar. Þangað vill fólkið fara, en eins og ástandið er víða, er ekki hægt að taka á móti því, bæði hvað varðar framleiðsluþáttinn og eins þjónustuþættina ekki síður. Þess vegna legg ég áherzlu á það enn á ný, að ég tel mjög brýnt, og ég treysti hæstv. ráðh. til þess að stuðla að því, að þau byggðarlög, sem þannig stendur á hjá, fái viðhlítandi lausn til þess að setja þetta mál í það horf, sem nauðsyn ber til.