18.12.1971
Efri deild: 34. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

126. mál, almannatryggingar

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson): Herra forseti. Því miður hef ég ekki þá vitneskju, að ég geti svarað þeirri spurningu, sem hv. þm. Auður Auðuns var að bera fram.

En ég kvaddi mér hljóðs aftur vegna þess, að ég gleymdi að svara fsp., sem hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson beindi til mín, þ.e. hvað átt væri við með almennri verkamannavinnu. Þarna er átt við lægsta taxta Dagsbrúnar, þann taxta, sem áður var hinn almenni fiskvinnslutaxti. Það var dálítið vandamál, hvernig ætti að orða þetta, og við bárum þetta undir Verkamannasambandið, og það túlkaði það á þennan hátt, að þetta orðalag mundi jafngilda þessum taxta.

Í þessu sambandi skal ég mjög gjarnan viðurkenna það, sem kom fram í ræðu hv. þm., að hækkun samkv. þessum taxta er ögn lægri en hún hefði verið samkv. fiskvinnslutaxtanum. Þarna munar, eins og hv. þm. sagði, um 3%. Hækkunin samkv. frv. verður rúmlega 10%, en hefði orðið rúmlega 13% samkv. þessum almenna fiskvinnslutaxta. Þarna er ekki um ýkja háa fjárhæð að ræða, hvað peninga snertir. Heildarupphæðin, sem áætluð er vegna þessarar skyldu til hækkunar á árinu, hefur verið áætluð 240 millj., þannig að þessi munur er innan við 10 millj., svo að það er ekki um mikla upphæð að ræða. Meginröksemd mín er hin, sem ég gerði grein fyrir áðan, að mér finnst ekki hægt að leggja þann bagga á jafn viðkvæman hóp eins og fólk í fiskvinnu, að það sé látið semja um almannatryggingar ásamt almennum samningum sínum.