16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í D-deild Alþingistíðinda. (3760)

94. mál, leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við það, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði hér áðan. Það er rétt hjá þessum hv. þm., að hann hefur verið furðurólegur það sem af er þingi: Þetta er gæflyndur maður og lætur sér slíkt sæma. Það fer vel á því. En hann hefur tekið sig á nú í restina.

Hann sagði hér að, að sínu mati væri 10—15% af byggingarþörfinni nægjanlegt í verkamannabústaðakerfið. Það er sem sé að hans mati nægjanlegt fyrir 1.000 manna bæ að byggja 11/2 íbúð á ári fyrir verkafólk. Þetta er kannske stefna Sjálfstfl. í húsnæðismálum. (Gripið fram í.) Já, og hvað þá þar fyrir neðan? Ég er alveg undrandi á jafngreindarlegum manni í útliti og þessi hv. þm. er, að hann skuli láta sér það sæma að segja hér á Alþ., að hann skilji ekki það, sem ég var að tala um. Hann segir, að verkamannabústaðakerfið sé nú eins og það hafi verið frá upphafi. Þetta er alls ekki rétt. Þetta veit þessi hv. þm., að er rangt. Áður var kerfið þannig, áður en viðreisnin breytti því, að það var borgað til helminga af ríki og bæjar— eða sveitarfélögum, en það var hægt að fá umframlán til að fjármagna þörfina, eins og hún var á hverjum tíma. Það var það, sem viðreisnarstjórnin bremsaði. Og það er þröskuldurinn, sem hin smærri sveitarfélög eiga nú við að búa. Það er því alveg ástæðulaust hjá þessum hv. þm., eins og hann gerði í sinni ræðu og undirstrikaði það hér áðan, að vera að vegsama á nokkurn hátt þessa breytingu viðreisnarinnar á verkamannabústaðakerfinu.