18.04.1972
Sameinað þing: 58. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í D-deild Alþingistíðinda. (3777)

245. mál, björgunarmál

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 3. þm. Austf. að flytja till. til þál. um björgunarmál. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa samstarfsnefnd fulltrúa hinna ýmsu hjálparsveita og björgunaraðila í landinu til að vinna að skipulagningu björgunarmála. Í nefndinni verði fulltrúar frá þessum aðilum: Almannavörnum, flugbjörgunarsveitum, Flugmálastjórn, Landhelgisgæzlu, Landssambandi hjálparsveita skáta, lögregluyfirvöldum og Slysavarnafélagi Íslands. Dómsmrh. skipar formann nefndarinnar.“

Efni þessarar till. er í samræmi við niðurstöðu ráðstefnu, sem nýlega var haldin um björgunarmál og boðað var til að frumkvæði Landssambands hjálparsveita skáta, sem um langan aldur hafa lagt mikið starf fram við björgunarmál á landinu. Það eru fleiri aðilar, sem það hafa gert og enn lengur. Það má nefna fyrst og fremst Slysavarnafélag Íslands, sem áratugum saman hefur unnið ómetanlegt starf fyrir þjóð sína á þessu sviði. Þá hafa flugbjörgunarsveitir lagt fram mikilsverðan skerf sjálfboðaliða og þjálfaðra manna. Nú eru ýmsir opinberir aðilar, sem starfa að þessum sömu málum einnig, þ.e. þeir aðilar, sem ég taldi upp og greindir eru í texta þáltill. Að sumu leyti vinna þeir að svipuðum verkefnum. Verkefni þessara aðila, áhugamanna samtakanna annars vegar og opinberra aðila, sem að þessum málum starfa lögum samkv. og eðli sínu samkv., snertast oft. Það er mjög mikil nauðsyn og hagkvæmnis atriði, að þess sé gætt, að önnur höndin viti, hvað hin er að gera, ef svo má að orði kveða, að einn aðili sé ekki, án þess að annar viti, að vinna að verkefnum, sem e.t.v. væri hægt að koma enn betur fyrir með samstarfi þessara aðila.

Nú er það ljóst og öllum kunnugt, að þessir aðilar starfa mjög vel saman, þegar til björgunaraðgerða kemur, og hefur oft á það reynt. Í því sambandi vil ég benda þeirri nefnd á, sem fær málið til meðferðar, að þarna er eitt atriði vantalið og mér hefur verið bent á það af forráðamönnum ráðstefnunnar um björgunarmál, en það er, að inn í þessa nefnd, ef till. verður samþ., væri tekinn fulltrúi einnig frá Landssímanum. sem annast alla fjarskiptaþjónustu, sem mjög er mikilvæg í sambandi við þær björgunaraðgerðir, sem fara fram hverju sinni. Ég vek athygli á, að orðalag till. er þetta: „Í nefndinni verði fulltrúar frá þessum aðilum“, en það er vitanlega ekki að okkar mati tæmandi upptalning. Það er að sjálfsögðu ljóst, að ef mönnum sýnist svo, þá gætu þarna aðrir aðilar komið til greina, því að alltaf er líka hugsanlegt, að fleiri áhugamannasamtök snúi sér að þeim verkefnum, sem þessir aðilar hafa nú haft með höndum.

Fyrir mér vakti fyrst og fremst þetta. Ég hef oft hugleitt nauðsynina á, að betra skipulag komist á samstarf milli áhugamannasamtaka annars vegar og hinna opinberu aðila hins vegar, til þess að sú þjónusta, sem völ er á í björgunarmálum, nýtist sem bezt. Vitanlega er sama nauðsyn á, að góð samvinna og þekking innbyrðis á verkefnum þessara aðila hvers hjá öðrum sé einnig fyrir hendi. Það er samdóma álit allra þeirra, sem ég hef hér talið, að nauðsyn beri til að skipa einhvers konar samstarfsnefnd og eðlilegt sé, að einhver aðili, sem stendur fyrir utan þessa hópa, hafi frumkvæði um að kalla þá nefnd saman og stjórna henni, og það er till. okkar flm., að það heyri undir dómsmrn. og dómsmrh. skipi formann nefndarinnar. Eins og er, þá heyra þeir aðilar, sem núna vinna að björgunarmálum. undir þrjú rn., raunar fjögur, en okkur þykir eðlilegt, að þarna verði eitt rn., sem hefur á hendi eins konar samhæfingu milli þessara aðila.

Það er engan veginn óþarft að leggja til, að þetta starf verði betur samhæft og eflt. Það sanna bezt ummæli hæstv. dómsmrh. nú fyrir viku síðan, þegar til umr. var fsp. um almannavarnir. Þá lýsti hæstv. dómsmrh. því yfir í svari sínu við einum lið þeirrar fsp., að honum vitanlega hefðu ekki verið gerðar neinar sérstakar ráðstafanir til að efla almannavarnir né að neitt sérstakt stæði til í þeim efnum í náinni framtíð.

Ýmislegt bendir til, að aukinn ferðamannastraumur muni hafa í för með sér aukna slysahættu. Það fjölgar hér útlendu fólki, sem ekki þekkir ýmsa undarlega náttúru okkar lands, ýmsar hættur, sem eru óþekktar í öðrum löndum. Menn geta stigið ofan í sjóðandi hveri eða dottið ofan í hraunhella óðar en varir, þar sem landið litur annars ósköp sakleysislega út. Auk þess má minna á, að menn eru að fá æ betri þekkingu á því, hvernig og hvenær vænta megi ýmiss konar náttúruhamfara, t.d. eldgosa, og okkur nægir að minna á nú nýlega hættu á Skeiðarárhlaupi. Ýmiss konar náttúruhamfarir geta orðið á okkar landi og oft óðar en nokkurn varir. Vitanlega gæti slíkt einhvern tíma leitt til stórslyss. Er þá alveg áreiðanlegt, að öllum landsmönnum og ekki sízt öllum þeim aðilum. sem að ýmiss konar björgunarmálum starfa, er það nauðsynlegt að vera við öllu búnir. Í stuttu máli má segja, að tilgangur þessarar þáltill. sé í raun og veru sá, að stuðla að því, að allir þeir aðilar, sem hún fjallar um, séu jafnan eins og þeir segja, sem boðuðu til björgunarráðstefnunnar, skátarnir, allir þessir aðilar sameiginlega, séu jafnan viðbúnir.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.