11.04.1972
Sameinað þing: 55. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í D-deild Alþingistíðinda. (3790)

166. mál, Hafsbotnsstofnun Sameinuðu þjóðanna

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Á þskj. 317 hef ég leyft mér að flytja svofellda till. til þál. um Hafsbotnsstofnun Sameinúðu þjóðanna:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta athuga nú þegar möguleika á því að fá væntanlegri Hafsbotnsstofnun Sameinuðu þjóðanna ákveðinn samastað á Íslandi.“

Hnöttur okkar er þakinn sjó að tæpum 3/4 hlutum, jarðlendið þekur aðeins rúman 1/4 hluta hans. Með þeirri öru þróun vísinda, sem átt hefur sér stað í heiminum síðustu áratugina, hafa skapazt möguleikar til þess að kanna að nokkru þau verðmæti, sem eru á og undir hafsbotni. Þau verðmæti eru geysimikil og mörg lík þeim, er finnast hér á jörðu og í jörðu, svo sem málmar, olíur, gas o.fl. Nýjasta tækni gerir og kleift að vinna þessi verðmæti á sífellt meira dýpi. Framsýnir leiðtogar og vísindamenn víða um heim sjá í þessari framvindu mála möguleika til þess að bæta kjör fólks víða um heim með vinnslu þessara verðmæta. Eru þá ekki sízt hafðar í huga þarfir þeirra mörg hundruð milljóna manna, sem þróunarlöndin byggja og lifa margir hverjir við hin mestu eymdarkjör.

Sameinuðu þjóðirnar, samtök 133 þjóða, hafa fyrir nokkru tekið mál þetta upp, og þegar er hafið markvisst starf á þeirra vegum í þá stefnu að nýta auðlindir hins alþjóðlega hafsbotnssvæðis íbúum þróunarlandanna fyrst og fremst til hagsbóta.

Fyrsta atriðið í þessu sambandi er að fá hið alþjóðlega hafsbotnssvæði skilgreint og víðáttu þess ákveðna að alþjóðalögum. Það er eitt af aðalverkefnum þeirrar hafréttarráðstefnu, sem kveðja á saman á næsta ári að öllu forfallalausu. Þetta er mikið og erfitt verk, því að forsenda þess, að svo geti tekizt, er að þjóðréttarleg samþykkt fáist um hámark víðáttu fiskveiðilandhelgi strandríkja á ráðstefnunni. Við Íslendingar þekkjum vel til þessa mikla vandamáls.

Annað atriði er að fá samþykktar reglur um nýtingu alþjóðlega hafsbotnssvæðisins og koma á fót stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem færi með yfirstjórn vinnslu auðæfa þess.

Í umræðum þeim, sem fram hafa farið í hafsbotnsnefnd Sameinuðu þjóðanna undanfarin misseri, hefur að jafnaði verið út frá því gengið að koma Hafsbotnsstofnun Sameinuðu þjóðanna, United Nations Sea Bed Authority, á laggirnar sem fyrst. Yrði hlutverk hennar að fara með málefni hins alþjóðlega hafsbotnssvæðis, sem ég hef áður lýst, í umboði Sameinuðu þjóðanna, þ.e. að sjá um, að þeim alþjóðasamningum, sem samþykktir verða um vinnslu auðlinda svæðisins, verði framfylgt, annast e.t.v. sjálf einhverja vinnslu þeirra, gefa út vinnsluleyfi til einstakra ríkja og fá settar reglur til þess að koma í veg fyrir mengun sjávar o.s.frv. Nokkrar deilur hafa staðið um það á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, hversu víðfeðmt valdsvið stofnunar þessarar skuli vera, og aðhyllast flest þróunarríkin, að það verði mjög víðtækt og vald hennar mikið, t.d. aðhyllast þau flest, að stofnunin vinni að mestu leyti sjálf þau auðæfi af hinu alþjóðlega hafsbotnssvæði, sem þar eru fyrir. En iðnaðarríkin í Evrópu, Bandaríkin og fleiri vilja hins vegar ganga skemmra í þessum efnum. og hefur verið um þetta nokkuð mikið deilt.

Á þessu stigi mála verður ekkert fullyrt um. hvað ofan á verður í þessu efni, og ekki verður heldur sagt með vissu nú, hvenær stofnun þessi kemst á laggirnar. Þó telja flestir það sennilegt, að það verði á þessum ný byrjaða áratug.

Með till. þeirri, sem ég hef hér flutt, er lagt til, að Alþ. samþykki að skora á hæstv. ríkisstj. að hefjast nú þegar handa um að reyna að fá stofnun þessa hingað til Íslands. Að mínu viti eru verulega miklir íslenzkir hagsmunir bundnir því, að þetta megi takast. Augljóst er, að stofnun þessi verður, er tímar líða fram, voldug og stór. Hjá henni mun væntanlega starfa fjöldi innlendra og erlendra vísindamanna auk annars starfsfólks, sem gæfi miklar gjaldeyristekjur í þjóðarbú okkar, verði stofnun þessi staðsett hér á landi. En auk þessa og það, sem er meira virði er, að hér mundi rísa alþjóðleg rannsóknarstöð í fremstu röð, sem legði línur um skynsamlega nýtingu hafsbotnsins og um nýtingu auðæfa sjávarins og hverjir eiga meira undir skynsamlegum vinnubrögðum í þeim efnum, en einmitt Íslendingar, sem byggja afkomu sína á sjávarafla meira en nokkur önnur þjóð í heiminum? Þetta er svo augljóst mál, að ég eyði ekki tíma hv. þm. til þess að fjalla um þetta atriði mörgum orðum.

Í síðasta mánuði var frá því skýrt í fjölmiðlum. að Sameinuðu þjóðirnar hefðu farið þess á leit við rétta aðila á Íslandi, að Íslendingar tækju að sér að hýsa þá deild væntanlegs háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem vinnur að rannsóknum á auðlindum hafsins. Gert er ráð fyrir, að till. um stofnun þessa háskóla verði lagðar fyrir næsta allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, sem hefst í haust. Uppbygging háskóla þessa yrði tvíþætt. Annars vegar yrði þar svo kölluð aðaldeild, þar sem sæti stjórn skólans, er skipulegði störf undirdeilda og safnaði á einn stað niðurstöðum af rannsóknarstarfsemi þeirra. Hins vegar mundu starfa þar á vegum skólans undirdeildir, sem ynnu að sérstökum rannsóknarverkefnum. Við staðsetningu þessara undirdeilda yrði leitazt við að finna þeim samastað þannig, að þær gætu starfað í samvinnu við stofnanir, er ynnu að skyldum verkefnum. Hafsbotnsstofnun Sameinuðu þjóðanna á m.a. að gera slíkt, og er beiðni þessi því beint innlegg með umsókn frá okkur Íslendingum, ef af verður, um að freista þess að fá Hafsbotnsstofnun Sameinuðu þjóðanna hingað. Auk þess tel ég, að skilyrði séu sérstaklega góð hér á landi til hvers kyns rannsókna á lífinu í hafinu. Ef svo vel tækist til, að hægt væri að fá hingað Hafsbotnsstofnun Sameinuðu þjóðanna og deild þá úr háskóla Sameinuðu þjóðanna, er ég var að lýsa, þá skapaðist hér alþjóðleg rannsóknarstofnun, sem veitti aðstöðu á sínu sviði, sem hvergi annars staðar fyrirfyndist í heiminum. Hingað mundu sækja þekktir vísindamenn hvaðanæva að, og með hjálp þeirra mundum við skapa okkur þau vopn, er bezt mættu okkur duga í þeirri landhelgisbaráttu, sem við munum heyja í framtíðinni. Auk þess yrði héðan stjórnað vinnslu verðmæta hafsbotnsins, sem eins og ég hef áður greint frá gæti orðið undirstaða bættra lífskjara fátækasta fólksins í heiminum. Af slíkri starfsemi hefði Ísland bæði hag og mikla alþjóðlega sæmd.

Ég legg til, herra forseti, að umr. um þáltill. þessa verði frestað og henni vísað til hv. allshn. og læt ég þeirri till. fylgja þá ósk, að hv. n. afgreiði till. við fyrsta tækifæri.