22.11.1971
Neðri deild: 15. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

71. mál, innlent lán

Frsm. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Eins og frsm. meiri hl. fjhn. gat um hér áðan, hefur ekki orðið samstaða um afgreiðslu þessa frv. í fjhn. þessarar hv. d. og við tveir nm., hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, auk mín, gefum út sérstakt nál. á þskj. 100, en ég ætla, að það sé rétt ókomið hér á borð til hv. þm. Ég ætla þó að leyfa mér að gera grein fyrir afstöðu minni hl. til að tefja ekki afgreiðslu þessa máls og vonast til þess, að mér takist að gera hv. þm. grein fyrir þeirri afstöðu, sem fram kemur á þessu umrædda þskj.

Frv. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka innlent lán er ekki nýtt af nálinni, það er gamall kunningi úr sölum hv. Alþ. Allt frá 1964 hafa verið flutt frv. til heimildar til innlendrar lántöku, og hafa verið boðnar út á verðbréfamarkaðinum frá því 1964 til nú 1971 samtals 787 millj. kr. Hefur þetta verið liður í fjármögnun framkvæmdaáætlunar, sem fyrst var lögð fyrir Alþ. 1963, þegar lögð var fram þjóðhags- og framkvæmdaáætlun fyrir árin 1963–1966. Í þeirri þjóðhags- og framkvæmdaáætlun var gerð grein fyrir þeirri fjármögnun, sem þar þurfti til, en innlent lán þar ekki að öðru leyti en því, að viðskiptabankarnir höfðu með samkomulagi við ríkisstj. samþ. að leggja til ákveðinn hundraðshluta af sparifjáraukningu, og auk þess kom atvinnuleysistryggingasjóður til með lántöku, en hið svokallaða brezka lán varð að verulegu leyti uppistaðan í fjármögnun fyrir framkvæmdaáætlun fyrir 1963. Það er svo árið 1964, að lagt er fram frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til að taka innlent lán að upphæð 75 millj. kr. til að fjármagna framkvæmdaáætlun ársins 1964. Með því frv. er ekki lögð fram framkvæmdaáætlunin, enda hafði hún þá fyrir nokkuð löngu verið gerð. Árið 1965 er aftur lagt fram sams konar frv. og þar farið fram á 75 millj. kr. heimild til lánsútboðs, en í það skiptið er framkvæmdaáætlun ekki fyrir hendi, sem síðar var svo gerð grein fyrir. En frá árinu 1966 hefur verið gerð grein fyrir notkun fjár, þegar farið hefur verið fram á heimild til að afla þess á innlendum markaði, með frv. sjálfu 1966 og síðar með framkvæmdaáætlun, sem lögð hefur verið fram eða drög að henni með frv. til fjárlaga. Ég rifja þetta upp hér vegna þess, að því er haldið fram, af hæstv. fjmrh. og síðan hv. frsm. meiri hl. fjhn., að það frv., sem hér um ræðir, sé með svipuðum hætti fram lagt og þau frv., sem lögð hafa verið fram um sama efni á undanförnum árum. Þegar fyrsta frv. var lagt fram, gerði þáv. hæstv. fjmrh., Gunnar Thoroddsen, grein fyrir þeim sjónarmiðum, sem að baki frv. lágu, og var m.a. bent á, að þar væri farið inn á nýjar leiðir í sambandi við sparnaðarfornt, sem gert var ráð fyrir og hefur verið með sérstökum kjörum, og ekki hefur verið talið óeðlilegt að afla þannig fjár til framkvæmdaáætlunar, þannig að hluti af heildarsparnaði almennings gengi beint til opinberra framkvæmda.

Að sjálfsögðu er hér sama forsenda fyrir frv., en frv. lagt fram undir allt öðrum kringumstæðum og með allt öðrum hætti en verið hefur. Við l. umr. málsins skýrði hæstv. fjmrh. frá því, að hann gæti ekki gert grein fyrir notkun þessa fjár, og í fjhn. var sérstaklega spurzt fyrir um það, hvort hægt væri að fá upplýsingar um, með hvaða hætti fénu skyldi varið, en þær upplýsingar gátu ekki fengizt, og ég vildi nú mega varpa því fram til hæstv. fjmrh., hvort hann hafi nokkurn frekari möguleika nú en við 1. umr. málsins til þess að gera mönnum grein fyrir notkun þessara 200 milljóna, ef aflað yrði. Hér er mikill munur á, með hvaða hætti frv. hafa verið lögð fram. Annars vegar hafa verið lögð fram frv., þar sem gerð hefur verið grein fyrir notkun fjárins, og þau ævinlega eða undir flestum kringumstæðum borin fram, þegar fjárlög hafa verið samþykkt og framkvæmdaáætlun komin á lokastig, þannig að það hefur sézt, til hvaða framkvæmda skyldi nota það fé, sem heimildar var óskað til að aflað yrði.

Í öðru lagi er þetta frv. stefnubreyting af hálfu núv. ríkisstj. hvað snertir þá upphæð, sem hér er gert ráð fyrir að ná. Þegar lögð er saman sú tala, sem þegar hafa verið seld sparifjárskírteini fyrir, og sú tala, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þá liggur fyrir, að það er ætlun hæstv. ríkisstj. að afla fjár með þessum hætti fyrir 303 millj. kr. á þessu ári. Ef skoðuð er sú upphæð, sem þegar hefur verið aflað fjár fyrir, og það, hvernig hún deilist niður á árin, þá sést, hversu gífurlegt stökk hér er um að ræða, því að mest hefur verið aflað fjár til lántöku á innlendum markaði árið 1970, þá fyrir 132 millj. kr. Sú tala, sem hér um ræðir á þessu ári, 303 millj., er um það bil 21/2 sinnum hærri en nokkurn tíma áður hefur verið aflað í þessu skyni.

Þá er enn eitt atriði, sem rétt er að benda á um vinnubrögð og starfshætti í sambandi við þetta frv. Samkv. ummælum hæstv. fjmrh. við 1. umr. málsins þá lýsti hann yfir því, að hann hygðist setja á markaðinn nú í næsta mánuði bréf fyrir allri þeirri upphæð, sem hér er gert ráð fyrir. Það þýðir, að á árinu 1971 er verið að afla fjár til framkvæmda árið 1972. Það hefur aldrei gerzt fyrr í sambandi við fjármögnun framkvæmdaáætlunar, að aflað hafi verið fjár á fyrra ári til framkvæmda á næsta ári, og að þessu leyti eru vinnubrögð hæstv. núv. ríkisstj. með öðrum hætti en verið hefur.

Þá er vert að geta þess, með hvaða hætti hæstv. ríkisstj. hefur unnið að þessu máli varðandi bankakerfið og bankastofnanirnar í landinu. Á undanförnum árum hefur verið í sambandi við fjárlög og framkvæmdaáætlun gerð grein fyrir því, með hvaða hætti hefur þurft að fjármagna opinberar framkvæmdir, og með samkomulagi við viðskiptabankana hafa þeir látið af sparifjáraukningunni á milli 10 og 15% til þess að fjármagna opinberar framkvæmdir. Þá hefur í leiðinni verið gerð grein fyrir því, með hvaða hætti yrði aflað fjár á innlendum markaði, þannig að bankakerfið mætti vita, hvaða fjármagn kæmi til með að hverfa út úr peningastofnunum vegna sölu á spariskírteinum til fjármögnunar opinberra framkvæmda. Þetta var að sjálfsögðu líka gert á þessu ári, og þá var talið, að ekki væri skynsamlegt að afla á þessu ári meira en um 100 millj. kr., og þegar hafa verið seld spariskírteini fyrir 103 millj. kr. Það að koma nú á seinasta mánuði ársins og bjóða út spariskírteini fyrir 200 millj. kr. er þess eðlis, að hver maður hlýtur að sjá, hvaða áhrif slíkt mundi hafa á bankakerfið og hverjar afleiðingarnar yrðu. Það er öllum kunnugt, sem eitthvað þekkja til, að desembermánuður er erfiðasti mánuðurinn hjá bankastofnunum, auk þess sem staða þeirra nú er mun lakari en hún hefur verið undanfarin ár. Því til staðfestingar geta menn litið í reikninga Seðlabanka Íslands, þar sem fram kemur staða viðskiptabankanna við Seðlabankann, og í ljós kemur, að í októbermánuði einum versnaði staða viðskiptabankanna við Seðlabankann um rúmar 200 millj. kr. Það er svo hægt að ímynda sér, hvernig staða þeirra verður, þegar þessi bréf hafa verið seld á markaðnum, því að kjör þeirra hafa verið með þeim hætti, að að undanförnu hafa þau ævinlega selzt á tiltölulega skömmum tíma.

Á fundi í fjhn., þar sem voru mættir fulltrúar ríkisbankanna, þ.e.a.s. Landsbankans, Útvegsbankans og Búnaðarbankans, lýstu fulltrúar þeirra yfir miklum áhyggjum, ef sala verulegs hluta spariskírteinanna færi fram nú fyrir áramótin, en þá ákvörðun sína hafði fjmrh. tekið og skýrði frá henni hér við 1. umr. málsins. Í sambandi við þetta urðu umr. í fjhn. um það, hvaðan það fjármagn kæmi, sem aflað væri með sölu spariskírteina, og voru menn sammála um, að verulegur hluti þess væri það bezta sparifé, sem innlánsstofnanirnar gætu haft. Það þýðir, að í desembermánuði einum mega bankastofnanirnar gera ráð fyrir því, ef þetta frv. verður óbreytt að lögum, að um 200 millj. kr. hverfi út til spariskírteinakaupa. Í þessu sambandi ræddi fjhn. einnig við fulltrúa Seðlabanka Íslands, sem mætti á fundinum, en hann tjáði sig, eins og hér hefur komið fram af hálfu frsm. meiri hl. og getið er í nál. minni hl., sammála þeirri stefnu, sem fram kæmi í frv. Honum var þá sérstaklega bent á hina versnandi stöðu viðskiptabankanna við Seðlabankann, og mér er nær að halda, að þeir geri ekki meira en að halda viðskiptareikningi sínum sléttum við Seðlabankann í dag. Þá var hann spurður að því, hvort um nokkra sérstaka fyrirgreiðslu til handa peningastofnunum yrði að ræða vegna sölu á spariskírteinunum, en hann svaraði því neitandi. Ennfremur var hann spurður að því, hvort ríkisstj. hefði nokkuð rætt við Seðlabankann um að losa um hið bundna fé innlánsstofnananna í Seðlabankanum, og svaraði hann því ennfremur neitandi. Þessar spurningar voru að sjáifsögðu lagðar fram vegna þess, að vel gat svo verið, að ríkisstj. hefði með einhverjum till. til Seðlabankans reynt að koma í veg fyrir það, sem tvímælalaust á eftir að eiga sér stað, en seðlabankastjórinn svaraði því hvoru tveggja neitandi, þannig að um það verður ekki að ræða. Það kom ennfremur fram í fjhn. í viðræðum við fulltrúa viðskiptabankanna, að þeim hafði ekki verið kunnugt um flutning þessa frv., og það kom þeim þess vegna algjörlega á óvart.

Eitt atriði enn vil ég benda á, sem sýnir, að um stefnubreytingu er að ræða varðandi þetta frv. af hálfu núv. ríkisstj., en það er, með hvaða hætti hér er farið að peningastofnunum landsins. Ég hef gert grein fyrir því, að fram undan er erfiðasti mánuður ársins hjá peningastofnununum, en eftir áramótin hefst vertíðin, og ég mundi halda, að slíkt væri ekki til þess að efla atvinnulíf landsmanna eða styrkja efnahagskerfið, að peningastofnanirnar verði vanmegnugar í upphafi næstu vertíðar. Ég held, að þetta frv., eins og það er lagt fram, komi til með að hafa mjög alvarleg áhrif á peningamál þjóðarinnar á næstu mánuðum og afleiðingar, sem við nú ekki sjáum fyrir.

Hv. frsm. meiri hl. fjhn. vék að því hér áðan, að ekki væri óeðlilegt, þó að framkvæmdaáætlun lægi nú ekki fyrir, vegna þess að hér sé um að ræða ríkisstj., sem sé nýlega setzt að völdum og hafi þar af leiðandi ekki haft tækifæri til þess að gera frumdrög að fjárhagsáætlun og leggja hana fram. Ég er alveg sammála hv. þm. um þetta. En ég spyr þá: Hvers vegna er þá eðlilegt að leggja fram frv. um heimild til lántöku, hvers vegna er ekki eðlilegt að leggja það fyrst fram, þegar séð verður, hvernig framkvæmdaáætlun ríkisstj. lítur út og hvaða fjármagn þarf til þess að ná endum saman?

Ég gat mér þess til við 1. umr., að frv. væri nú flutt til að ná fjármagni fyrir áramótin, og hugsunin væri sú, að annað frv. yrði lagt fram eftir áramótin og kannske ekki með minni lántökuheimild en nú, þannig að með þessum hætti væri meiningin að afla fjár til framkvæmdaáætlunar fyrir miklu hærri upphæð en nokkru sinni hefur verið gert áður. Þeir hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. vildu ekki útiloka, að slíkt kæmi til greina, og neituðu því ekki, að hugmyndin hefði einhvers staðar komið fram. Ég sé þess vegna ekki sambandið milli þeirra raka hv. 5. þm. Austf., að það sé eðlilegt, að framkvæmdaáætlun liggi ekki fyrir, og þess, að hann leggur til, að frv. verði samþ. Hann ræddi um verkefni, sem hægt væri að benda á. Það er sjálfsagt alltaf hægt að gera það. Við gætum talið upp, að við þurfum meira fé til vegaframkvæmda, til hafna, til raforkuframkvæmda o.s.frv. En það, sem hér hefur verið átalið, er, að frv. til lántökuheimildar sé lagt fram án þess að gerð sé grein fyrir þeirri áætlun um opinberar framkvæmdir, sem gert er ráð fyrir að ráðast í á næsta ári.

Hv. þm. minntist ennfremur á, að það væri talið, að mikið fé væri í umferð nú, kaupgeta væri mikil og þar af leiðandi upplagt að selja sparifjárskírteini nú í næsta mánuði. Ég rakti áðan, hvernig staða viðskiptabankanna er, og ég held, að ég hafi farið þar rétt með, — hann leiðréttir mig þá, ef svo er ekki, — að nm. og þeir fulltrúar viðskiptabankanna, sem sátu fund fjhn., voru sammála um það, að verulegur hluti þess fjár, sem notaður yrði til kaupa á sparifjárskírteinum, kæmi frá viðskiptabönkunum og sparisjóðunum, þannig að hér væri fyrst og fremst verið að höggva í innstæður hjá bankakerfinu. Ég held þess vegna, að það sé tilgangslaust og alger rökleysa, þegar sagt er, að mikið fé sé í umferð og því hljóti að vera góður markaður fyrir sparifjárskírteinasölu nú. Við útgáfu sparifjárskírteina verða viðskiptabankarnir að geta treyst því, að ríkisvaldið gangi ekki lengra inn á svið viðskiptabankanna en eðlilegt og skynsamlegt getur talizt. Þannig hefur verið haldið á málum hingað til, en hér er gjörbreytt um stefnu, komið, eins og ég hef margoft tekið fram, á seinasta mánuði og ætlað að taka 200 millj. út úr bankakerfinu, sem þegar er þannig stætt hjá Seðlabankanum, að það gerir ekki meira en að halda sléttum reikningum.

Ég tel mig hafa gert grein fyrir þeim mismun, sem er á því frv., sem hér er lagt fram, þeim aðferðum, sem við eru hafðar, og þeim frv., sem áður hafa verið lögð fram í sambandi við heimild til að taka innlent lán, og þeim starfsaðferðum, sem þá hafa verið viðhafðar. Frv. lítur eins út á pappírnum, en þegar það er brotið til mergjar, þá liggja allt aðrar ástæður fyrir flutningi þess, — ástæður, sem minni hl. fjhn. getur ekki samþ., en leggur hins vegar til, að gerð verði á frv. breyt. og flytur því brtt. á þskj. 101. Þar er lagt til, að 1. gr. frv. orðist svo:

„Fjmrh. er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að gefa út til sölu innanlands á árinu 1972 ríkisskuldabréf eða spariskírteini að upphæð allt að 200 millj. kr.“

Ef hæstv. fjmrh. telur það betra fyrir sig, þar sem hann er nýtekinn við starfi sínu, að heimild liggi fyrir um 200 millj. kr. lántöku á árinu 1972, þá munum við ekki hafa neitt við það að athuga, við munum ekki frekar en orðið er freista þess að fá upplýsingar um, til hvers féð skal notað, og við munum fallast á það, að á árinu 1972 verði aflað fjár að upphæð 200 millj. kr. í stað þess að á árinu 1971 var aflað fjár að upphæð 103 millj. kr. Verði hins vegar brtt. ekki samþ., þá teljum við, eins og ég hef nú gert grein fyrir, að hér sé um varhugaverða stefnubreytingu að ræða og merki um skipulagslaus vinnubrögð núv. ríkisstj., sem geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í peningamálum þjóðarinnar á næstu mánuðum, sem m.a. gæti birzt í því, að peningastofnanir landsmanna væru vanmegnugar í upphafi vertíðar næsta árs, og það yrði ekki til þess að efla atvinnulífið eða styrkja efnahagskerfið. Við munum því ekki styðja frv., ef brtt. sú, sem við flytjum á þskj. 101, verður felld.