09.05.1972
Sameinað þing: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í D-deild Alþingistíðinda. (3800)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Fyrr á þessu þingi urðu umr. um veggjald það, sem greitt hefur verið af Reykjanesbraut nú um u.þ.b. sjö ára skeið. Það kom fram í ræðu hæstv. samgrh., að hann taldi eðlilegt, að á þessu þingi yrði tekin um það ákvörðun, hvort veggjald skuli áfram innheimt af þessum vegi og þá hvort veggjald skuli yfirleitt innheimt áfram af vegum hér hjá okkur. Hann minntist á það í ræðu sinni þá, að sér fyndist óeðlilegt, ef áfram yrði tekið veggjald af Reykjanesbraut, en ekki tekið veggjald af öðrum vegum, öðrum hraðbrautum, þegar þær hefðu verið lagðar með svipuðum hætti og Reykjanesbraut. Þó bregður svo við nú, að lögð er fyrir Alþ. till. til þál. um vegáætlun, og þar gert ráð fyrir því, að á árunum 1972—1975, sem áætlunin gildir fyrir, verði aðeins innheimt veggjald af Reykjanesbraut, enda þótt vitað sé, að á þessu ári verði lokið við a.m.k. tvo vegi aðra sambærilega við Reykjanesbraut, en ekki er gert ráð fyrir því í þessari vegáætlun, að af þessum vegum verði tekið veggjald. Að vísu sagði ráðh. í ræðu sinni hér áðan, að þótt ekki sé í vegáætluninni gert ráð fyrir tekjum af umferðargjaldi af öðrum vegum en Reykjanesbraut, þýddi það engan veginn, að veggjald yrði ekki lagt á aðra vegi, þegar sambærilegum áföngum hefði verið náð. Hér er engu slegið föstu. Það er aðeins sagt, að engan veginn sé útilokað, að veggjald verði lagt á aðra vegi, þegar sambærilegum áföngum hefur verið náð. Nú liggur það fyrir t.d. með Suðurlandsveginn, að sambærilegum áfanga verður náð á þessu ári, svo að eðlilegt hefði verið að mati ráðh. að taka inn í þessa áætlun, fjáröflun 1973, 1974 og 1975, veggjald af þeim vegi. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu fyrir hv. fjvn. um leið og ég lýsi þeirri skoðun minni, að það beri að halda þeirri stefnu, sem fyrrv. hæstv. samgrh. mótaði s.l. vor, um það, að veggjaldið af Reykjanesbraut skyldi lagt niður um næstu áramót, þegar aðrir sambærilegir vegir væru tilbúnir, þ.e. Suðurlandsvegur og Vesturlandsvegur. Ég vildi láta það koma hér fram strax við þessa umr., að ég er þessarar skoðunar. Veggjald hefur verið liðið á Reykjanesbraut, á meðan aðrir hafa ekki haft tækifæri til þess að aka eftir slíkum vegum, og það hefur verið lækkað, með því að það stendur í stað frá því, sem það var ákvarðað í upphafi, þrátt fyrir hækkanir á öðrum sviðum, og ég er, eins og ég sagði áðan, þeirrar skoðunar, að nú sé tækifærið, nú séu aðstæður þær fyrir hendi, að veggjaldið á Reykjanesbraut verði lagt niður og Alþ. marki þar með þá stefnu. Hitt mundi verða hróplegt ranglæti, ef núv. meiri hl. Alþ. hugsaði sér að viðhalda veggjaldi á Reykjanesbraut, en láta aðra vegi undanskilda, eins og þessi vegáætlun gerir ráð fyrir.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu fyrir hv. fjvn. og vonast til þess, að þegar við afgreiðslu þessarar vegáætlunar takist samstaða um það að fella niður veggjaldið á Reykjanesbraut og marka þá þar með þá stefnu, sem hæstv. fyrrv. samgrh. lýsti yfir á s.l. ári.