09.05.1972
Sameinað þing: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í D-deild Alþingistíðinda. (3805)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hef að sjálfsögðu eins mikinn áhuga á því og hæstv. forseti, að málið geti komizt í hendur fjvn. formlega í dag, og skal því ekki hafa mörg orð um málið.

Ég held, að það sé auðvelt að verða við þeirri ósk, sem hér kom fram áðan, að afla upplýsinga um það, hvernig viðhaldsfé vega skiptist á kjördæmin. Ég held, að það verði hægt við framhaldsmeðferð málsins að sjá um, að slíkar upplýsingar liggi fyrir, og væri ekki nema sanngjarnt og sjálfsagt.

Þá vil ég út af þeim umr., sem hafa orðið um Djúpveginn, segja það, að hér er um landsbraut að ræða og það er öllum ljóst, að ekkert kjördæmi á þess kost að fá neinar stórfúlgur til sinna landsbrauta framkvæmda. Rétt er það líka, sem sagt var, að þó að Vestfirðingar tækju allt það, sem í þeirra hlut kemur á vegáætlun, til þessarar einu vegaframkvæmdar, þá mundi það ekki hrökkva til. Það mundi ekki á áætlunartímabilinu leysa meira en 2/3 hluta af kostnaðarverði Djúpvegar. Þriðji parturinn væri eftir, þó að öllu vegafé Vestfjarða væri varið í þessa einu framkvæmd. Sú leið er því ekki fær, það er alveg ljóst. Það var mér ljóst fyrir löngu, og þetta mál verður því að leysa á annan hátt, því að víst er, að Vestfirðingar munu ekki una því og mundu ekki gera það fært fyrir okkur þm. Vestf. að ganga frá vegáætlun, þar sem á engan hátt væri séð fyrir þessari framkvæmd. Það er, eins og ég hef tekið fram, eftir að taka ákvörðun, formlega ákvörðun um erlendar lántökur vegna hraðbrauta, en sú ákvörðun verður tekin, eins og ég hef þegar sagt, og þá verður einnig, — ég hef fengið fulla vitneskju um það, — þá verður líka gert ráð fyrir lántöku til Djúpvegar, þannig að séð verður fyrir framkvæmd hans á áætlunartímabilinu. Það verður sem sé þarna í till., sem koma til fjvn„ gert ráð fyrir þessum lántökum.

Hv. 1. þm. Sunnl. sendi mér hingað töflu í ræðustólinn um fjármagn til vegaviðhalds, skipt eftir kjördæmum, á árabilinu 1950—1970, í þúsundum króna á verði hvers árs. Hér er skrá yfir öll kjördæmin og hvað í hvers hlut hefur fengizt, svo að þessi skrá er til og er í höndum fyrrv. hæstv. samgrh. Þakka ég honum fyrir lánið, þó að eg hefði sennilega getað útvegað mér eintak af henni. Ég er þakklátur.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta. Ég vildi aðeins skýra frá því, að þungum áhyggjum er af mér og okkur Vestfjarða þm. létt með því, að séð verður fyrir því, að hægt verði að halda framkvæmdum í Djúpvegi áfram á áætlunartímabilinu.