09.05.1972
Sameinað þing: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í D-deild Alþingistíðinda. (3808)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég verð að hefja mál mitt hér á því að gera nokkrar aths. við þá tilhögun þessarar umr., sem ætlazt er til að viðhafa hér af hálfu hæstv. ríkisstj. og hæstv. forseta. Okkur er ætlað að ljúka 1. umr. þessarar vegáætlunar á skömmum tíma, en þá koma hér níu stjórnarsinnar og ræðu hér hver með sínu móti um þessa áætlun, sýna fram á, að þetta þurfi að gera í þessu kjördæmi, einn kemur og mælir á móti hraðbrautastefnunni og annar með hraðbrautastefnunni. Síðan er okkur stjórnarandstæðingum ætlað að stytta mál okkar. Það eru ekki nema sex okkar, sem hafa verið á mælendaskrá í dag, og ég fæ ekki betur séð en að hér sé um að ræða dágóða mynd af því, hvernig þinghaldi hefur í raun og veru verið háttað hér í vetur. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hrærandi hlut, fyrr en mál hafa verið orðin svo brýn og nauðsynleg, að það hefur mátt til að hespa þau af með einhverjum hætti. Þá hefur verið farið fram á það við stjórnarandstæðinga, að þeir styttu mál sitt, en þeir, sem hafa raðað sér í ræðustólinn, eru stjórnarsinnar til að rífast um þau mál, sem hér hafa verið lögð fram.

Ég ætlaði mér nú eiginlega ekki upphaflega, þegar ég tók til máls, að fara að tala um þetta efni, en ég sá mig tilneyddan til þess að gera það að gefnu tilefni. En það, sem ég ætlaði að gera hér að umræðuefni fyrst og fremst, er það, hver efnahagslegur bakgrunnur þessarar vegáætlunar er. Við verðum að gera okkur það ljóst, að nú á þessu ári erum við að gera vegáætlun, eftir að tekjur fólks hafa hækkað á einu ári um 25–30% frá því, sem var á árinu 1970. Við verðum að gera hér áætlun, sem byggir á þessari miklu tekjuaukningu. Við verðum líka að gera áætlun á þeim tíma, sem fyrirsjáanleg óðaverðbólga fer í hönd. Frá því í des. s.l. má gera ráð fyrir, að launakostnaður atvinnuvega og hins opinbera hækki um 30% til ársloka 1972, um 30%, eftir því sem sérfræðingar ríkisstj. telja. Það gefur auðvitað auga leið, að þessar miklu hækkanir á launakostnaði atvinnuveganna og hins opinbera hljóta að fara út í verðlagið, og þetta gerir það að verkum. að þær upphæðir, sem við erum að tala um hér, hlaupa, ef svo mætti segja, þær skreppa saman í framkvæmdamagni. Og nú er ég kominn að kjarna míns máls. Ég vildi helzt fá upplýsingar um það hjá hæstv. samgrh., hvað hann telji að framkvæmdamagn í vegagerð aukist frá fyrra ári vegna þessarar áætlunar, þeirrar fjáröflunar, sem að baki hennar er. Hvað telur hann, að framkvæmdamagnið í vegagerð aukist? Og þá verður að hafa í huga, að slíkt góðæri hefur verið til lands og sjávar, að 25—30% tekjuhækkun hefur orðið hjá þjóðinni, svo að hún ætti að hafa möguleika til þess að gera þriðjungi meira átak í vegamálum en á s.l. ári, ef fara ætti eftir því eingöngu.

Ég vildi svo aðeins gera að umtalsefni hér svonefndan bifreiðaskatt eða hinar nýju álögur á bifreiðar. Þetta er skattstefna, sem ég tel frá mínum bæjardyrum séð, að sé mjög umhugsunarverð, svo að ekki sé meira sagt. Hér er verið að skattleggja innflutning á ökutækjum, og hlýtur að vera gert ráð fyrir því, að það dragi úr innflutningi ökutækja, þeirra ökutækja, sem eiga síðan að standa undir auknum framkvæmdum í vegamálum með benzín kaupum, hjólbarða kaupum o.s.frv. Hér er sem sagt verið að skattleggja það, sem í raun og veru á að verða vöxturinn í tekjuöflun Vegasjóðs á næstu árum. Stemma stigu við því, að vöxtur skatttekna hefði getað orðið sá, sem hann hefði annars getað orðið. Og ég held, að frá skattapólitísku sjónarmiði hljóti þetta að vera mjög umtalsvert og vafasamt, hvað svo sem líður því, hvað má kalla þetta réttlátt, eins og hv. 1. þm. Sunnl. var hér að benda á, og læt ég nægja að vísa í það, sem hann sagði um það atriði.

Ég skal svo þrátt fyrir allt fara að tilmælum hæstv. forseta og vera stuttorður, skal ekki fara hér út í að ræða um landshlutaáætlanir, hvorki sýnilegar eða ósýnilegar. En ég ætlaði aðeins, fyrst ég er kominn hér, að benda hv. þm. Benedikt Gröndal á það, að í raun og veru hefur verið framkvæmt mat á undanförnum árum á því, hvar skuli framkvæma byggðaáætlanir. Ég vil benda á það, að fyrir liggja mjög glöggar upplýsingar um það, hvar byggðavandinn hefur verið mestur. Má um það segja, að það liggur t.d. fyrir, að um 100% af fólksfjölguninni hafi flutzt frá Vestfjörðum á árabilinu 1960-1965, um 55% frá Norðurlandi, ef ég man rétt, og um 30% frá Austurlandi. Þetta eru langhæstu tölurnar í þessum efnum. Og ég vil bæta því við, að flest fólk flyzt frá Norðurlandi til Reykjavíkursvæðisins. Þetta eru gleggstu upplýsingar um byggðavanda, sem hægt er að leggja fram, það, hvað flytur margt fólk frá viðkomandi landssvæðum. Og á þessum landssvæðum hafa verið framkvæmdar byggðaáætlanir. Það var byrjað á Vestfjörðum. Það var vitað mál, að þar væri mestur knýjandi vandi í þessum efnum. Síðan var Norðurland tekið fyrir og svo Austurland. Ég held, að það verði ekki annað mat framkvæmt betra í þessum efnum, þrátt fyrir það, að við höfum fengið nýja stofnun, sem heitir Framkvæmdastofnun ríkisins.