09.05.1972
Sameinað þing: 65. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í D-deild Alþingistíðinda. (3812)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það er aðeins til þess að firra misskilningi út af því, sem ég var að segja hér áðan. Það hvarflaði að sjálfsögðu ekki að mér að væna forseta vorn um það, að hann væri ekki fullkomlega hlutlaus í sinni fundarstjórn milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég var einungis að benda á það hér, að okkur í stjórnarandstöðunni hafa oft borizt tilmæli um, að við stuðluðum að því að mál gengju í gegn, mál, sem hafa verið orðin brýn, að þau fengju hér þinglega meðferð á skömmum tíma og þá hefur það komið fyrir, að fleiri stjórnarsinnar hafa tekið til máls við þær umr. en stjórnarandstæðingar. Ég var aðeins að vekja athygli á því, að ef þetta mál hefði komið fyrr til hv. Alþ., þá hefði að sjálfsögðu gefizt betri tími til þess að ræða það hér, bæði fyrir stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga og ekki sízt stjórnarsinna, því að mér sýnist, að þeir þurfi mikið um þetta mál að tala enn þá.

Ég vil bara ítreka það, að ég ber fullt traust til forseta um, að hann hafi fullt hlutleysi í frammi við fundarstjórn.