18.05.1972
Sameinað þing: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í D-deild Alþingistíðinda. (3818)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Stutt stund er nú ætluð til að ræða stórt mál, en eins og kunnugt er, þá líður nú að þinglokum, eftir því sem þm. er tjáð, og mörg mál á dagskrá önnur en þetta.

Þessi vegáætlun, sem hér liggur fyrir, er með öðru sniði en aðrar vegáætlanir hafa verið að því leyti, að tekið er hér inn í einu lagi það fé, sem ætlazt er til að varið verði til vegagerðar í landinu á næstu fjórum árum, hvort sem það kemur úr Vegasjóði, og tekjum hans, eða er tekið að láni. Niðurstaðan er sú, skilst mér, að á næstu fjórum árum sé gert ráð fyrir því að verja til vegamálanna alls nálega 8.000 millj. kr. eða fast að 2.000 millj. að meðaltali á ári. Upphæðin er nokkru minni fyrri árin, en fer vaxandi hin síðari ár að krónutölu. Hér er um háar upphæðir að ræða, og í þessu plaggi, sem hér liggur fyrir, er till. um skiptingu þessa fjár, og það er mikið mál, hvernig slíku fjármagni skuli skipt milli vega og landshluta. Ekki ætla ég mér þá dul að fara að ræða hana í einstökum atriðum, þó að ég geti sagt það hins vegar í almennum orðum, að ég tel, að þessi skipting hefði átt að vera að ýmsu leyti á annan veg en hér er lagt til. En um það munu löngum verða skiptar skoðanir, hvernig svo miklum fjármunum skuli verja.

Ég vil leyfa mér að endurtaka það, sem ég hef áður látið koma fram við fyrri umr. þessa máls, í umr. um framkvæmdaáætlunina, að ég tel þær upphæðir, sem hér eru ætlaðar til Norðurlandsáætlunar á bls. 16 í þessu nál., óeðlilega lágar og ekki í samræmi við þau gögn, sem fyrir liggja í þessum málum. Skal svo ekki ræða það nánar. En ég vil vekja athygli á því, að í kaflanum um Austurlandsáætlun er upphæðunum fyrir öll árin 1972—1975 skipt á einstaka vegi, en hins vegar er það svo um Norðurlandsáætlun, að þar er aðeins gerð till. um skiptingu á fyrsta árinu, 1972. Það er gert ráð fyrir því, að þá sé skipt 100 millj. milli vega í þeim sjö sýslum á Norður- og Vesturlandi, sem áætlunin tekur til, en 20 millj. sé óskipt. Hins vegar er ekki lögð til nein skipting fyrir árin 1973—1975, og ég vil spyrjast fyrir um það, hvað fjvn. og hæstv. samgrh. ætlast fyrir um það, hvaða aðili skuli skipta því fé, sem þá verður til ráðstöfunar og sem er raunar nokkru meira á árunum 1973—975 en á árinu 1972, þó að það sé eigi að síður mun lægra en það ætti að vera. Um þetta vil ég spyrja og óska að fá svar við. Ég skal þá endurtaka það. Ég vakti athygli á því, að í sambandi við kaflann um Austurlandsáætlun væri till. um skiptingu fjármunanna öll árin 1972—1975, en í kaflanum um Norðurlandsáætlun væri aðeins ákveðin skipting á árinu 1972, en ekki árin 1973, 1974 og 1975. Ég var að spyrjast fyrir um það, hver væri fyrirætlun hæstv. ráðh. og fjvn. um það, hvernig því yrði skipt, hvernig fénu yrði skipt á þessum þrem árum, hver það ætti að gera.

Ég held, að það hefði verið mjög æskilegt, ef ráðrúm hefði verið til, að þm. hefðu haft tækifæri til þess að fara nánar yfir þetta plagg. En við lauslegan yfirlestur á hluta þessa plaggs, sem nú hefur verið aðeins stuttan tíma í mínum höndum og annarra þm., þá hef ég t.d. veitt því athygli, að á bls. 17 virðist hafa fallið niður á árinu 1972 1/2 millj. kr. upphæð til brúar á Kverká á Langanesi, sem var í bráðabirgðaáætlun fyrir 1972 og átti að sjálfsögðu að standa hér eins og þar, svo sem yfirleitt er um flestar brýr, að þær fjárveitingar standa, sem fyrir voru í bráðabirgðaáætluninni, að vísu hækkaðar vegna breytinga á framkvæmdakostnaði. Ég vil benda á þetta og biðja um, að þetta verði leiðrétt, því að hér er sjálfsagt um villu að ræða. En í tilefni af þessu kynni að vera ástæða til þess, að nánar væri farið yfir þessa löngu lista.

Ég skal svo ekki tefja tímann með löngum ræðuhöldum um þetta mikla mál, enda er það víst ekki líklegt til mikils árangurs. Það er auðséð á þessum till., að hraðbrautastefnan, sem rædd var hér við fyrri umr., er í góðu gengi, og skal ég ekki annað um það segja. En hitt virðist einnig augljóst, að mikill hluti fjvn. kjósi heldur að skattleggja vegleysið, svo að maður noti orð hæstv. ráðh., en að leggja gjöld á hraðbrautirnar. Skal ég nú láta máli mínu lokið.