18.05.1972
Sameinað þing: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í D-deild Alþingistíðinda. (3821)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla mér nú ekki að ræða vegatillöguna almennt, vegna þess að það hefur orðið samkomulag um hana í fjvn., enda þótt ég hafi nú ýmislegt við vegáætlunina að athuga.

Það var sagt hér áðan, að nú væri verið að leggja grundvöll að meiri vegaframkvæmdum á Íslandi en nokkru sinni áður. Það má vel vera, en ég efa það, að þessi vegáætlun leggi grundvöll að meiri framkvæmdum en voru t.d. á s.l. ári. Það fer eftir verðlagsþróuninni, hversu drjúgar krónurnar verða í framkvæmdunum á næstu árum. Ég ætla ekki að fara lengra út í það. Hitt geta allir verið sammála um, að vegaframkvæmdirnar eru miklar miðað við það, sem þær voru fyrr á árum.

En það er veggjaldið, sem hefur verið gert hér að umtalsefni. Ég er meðflm. að till. á þskj. 921, sem 1. flm. hennar hefur lýst, og þarf ég ekki að fara mörgum orðum um þá till. út af fyrir sig. En það hefur verið talað um það, að réttmætt væri að taka veggjald og stefnan hafi verið mörkuð fyrir nokkrum árum, áður en veggjaldið var tekið af Reykjanesbraut. Það er rétt, að vegalög voru samþ. mótatkvæðalaust með heimild um það að taka gjald af hraðbraut, sem væri frágengin að fullu með góðu slitlagi. Það var Reykjanesbrautin, sem var fyrsti þjóðvegurinn hér á Íslandi þannig frágenginn. Og eins og sagt var hér áðan, þá var jafnvel búizt við því, að Reykjanesbrautin yrði eini vegurinn til nokkuð langs tíma, sem þannig væri gerður. Það vildi og svo til, að Reykjanesbraut tengdi saman þéttbýl svæði. Þeir, sem óku Reykjanesbrautina, óku alla leiðina sem þeir fóru flestir hverjir á þessum góða vegi.

Það er rétt, að þótt Alþ. hafi verið sammála um það að taka veggjald, þá voru þeir, sem áttu að greiða það, ekki allir eins ánægðir. En þegar veggjaldið á Reykjanesbraut var lagt á, þá gaf það í árstekjur 5% af því fé, sem var varið til vegaframkvæmda. Vegaféð var þá 254 millj. kr., en nettóárstekjur af Reykjanesbrautinni voru 12 millj. l48 þús. kr. Það munaði um þetta þá, það voru 5%. En hvað er veggjaldíð nú af Reykjanesbrautinni? Það er gert ráð fyrir, að það gefi 18 millj. á þessu ári, og ráðstöfunarfé til vegaframkvæmda á þessu ári er 1 milljarður 745 millj., þannig að veggjaldið, sem núna fæst nettó af Reykjanesbraut, er rúmlega 1 % af vegafénu. En það á að drýgja tekjurnar með veggjaldi af nýjum vegi, sem sagt er, að sé sambærilegur. Við skulum segja, að hann sé sambærilegur, en hann er það bara ekki. Hann er ekki sambærilegur, vegna þess að hann er miklu ódýrari, slitlagið er olíumöl, og þess vegna er þessi vegur ódýrari. Hann er ekki heldur sambærilegur, vegna þess að þeir, sem aka þessa leið, fara ekki nema litinn hluta flestir á góðum vegi. Og þegar þessum góða vegi sleppir, þá verða þeir að fara yfir lakari veg, sem samt sem áður hafa greitt veggjald. Og hvað er nú gert ráð fyrir, að tekjurnar verði af austurveginum á fyrsta ári? Það eru um 12 millj. kr. Það eru þá samtals 30 millj. kr., sem ætti að innheimta á næsta ári, eða 31 millj. af báðum vegunum. Það er 1.5% af því fé, sem er til vegaframkvæmda á því ári. Það má segja, að það muni um þetta. En austurvegur er náttúrlega að öðru leyti ekki heldur sambærilegur við Reykjanesbraut, vegna þess að meðalumferð á Reykjanesbraut á s.l. ári, bifreiðafjöldinn á dag, var 2.090, ef mig minnir rétt. En á austurveginum um Hellisheiði 1.180, þannig að Reykjanesbrautin er næstum því helmingi fjölfarnari en austurleiðin, enda hafa ýmsir sagt, að Suðurlandsvegur væri tæplega nægilega fjölfarinn til þess, að til mála kæmi að taka þar vegtoll.

Það eru brostnar forsendurnar, sem voru fyrir því að taka veggjald, þegar það var fyrst gert, vegna þess að tekjurnar af veggjaldinu eru nú hverfandi litlar miðað við það fjármagn, sem varið er til vegaframkvæmda. Forsendurnar eru einnig brostnar vegna þess, að það þykir ekki tilhlýðilegt að taka toll af umferð, þar sem hún er ekki meiri en hér er um að ræða, bæði á Reykjanesbraut og austurvegi, þegar miðað er við þann kostnað, sem í það fer, og það fjármagn, sem vegirnir hafa í heild. Og forsendurnar eru einnig brostnar vegna þess, að hraðbrautafénu verður dreift eftirleiðis, en var áður miðað við aðeins einn stað. Nú fer nokkur hluti hraðbrautafjárins vestur á Ísafjörð og Hnífsdal, að vísu ekki mikið, en talsvert til Akureyrar. Og á Vesturlandsleiðinni á að dreifa því í búta, enda ekki lagt til að taka þar veggjald.

Hv. 5. þm. Austf., sem talaði hér áðan, vildi halda því fram, að það ætti að halda áfram að láta meginhlutann af hraðbrautafénu á austurleiðina, eða ég skildi það svo. En það er nú ekki hægt að sjá annað á þeirri vegáætlun, sem hér liggur fyrir, en að örlítill hluti af hraðbrautafénu fari á næstu þremur árum í austurleiðina. Á árunum 1973—1975 er gert ráð fyrir 950 millj. kr. til hraðbrauta, en ég sé ekki betur en aðeins eigi að fara 50 millj. kr. í austurleiðina af þessu fé. Og þótt ég hafi áðan talað um dreifingu fjármagnsins, hraðbrautafjármagnsins, þá fer meginhlutinn af því á áætlunartímabilinu í Vesturlandsveginn, sem ekki á að taka gjald af, en sem er þó fjölfarnastur að sumrinu til, a.m.k. hér upp í Álafosshverfið. Það hefur verið talað um, að erfitt væri að koma skattlagningu fyrir á þeim vegi, og skal ég viðurkenna það. Og það er þá enn ein röksemdin gegn því að halda áfram að taka gjald af Reykjanesbraut og byrja á því að taka gjald af Suðurlandsvegi.

Það var minnzt á það hér áðan, að veggjaldið á Reykjanesbraut hefði lækkað, og það er rétt, vegna þess að það er sama krónutala, sem nú er greidd fyrir hvern bíl eins og var í byrjun. Og veggjaldið hefur ekki verið látið fylgja verðlaginu, vegna þess að það var fyrir löngu ákveðið að afnema þetta gjald, létta því af. Og í tilefni af því gaf ég yfirlýsingu um það, bæði hér í hv. Alþ. á s.l. ári og í blöðum, að ef ég mætti ráða, þá yrði gjaldið á Reykjanesbraut lagt af 1. jan. 1973. En hæstv. núv. samgrh. hefur ekki viljað fallast á þessa skoðun, en sagði hér við fyrri umr. málsins, að vitanlega sætti hann sig við vilja Alþ. í því efni, sem og sjálfsagt er. Það hljóta allir ráðh. að gera. Ég tel ekki, að það sé nein niðurlæging fyrir hann, þótt meiri hl. Alþ. sé annar en hann var, þegar hann lagði till. fram. Og vitanlega reynir á það nú, hvort meiri hl. vill halda þessu veggjaldi áfram, enda þótt það gagni jafnlítið í framkvæmdum eins og ég hef lýst.

Við höfum flutt till. á þskj. 921 með þeirri breytingu, að í stað veggjaldsins verði greidd úr ríkissjóði sú upphæð, sem veggjaldinu nemur. Nú hefur hv. 5. þm. Austf. flutt brtt. um það, að í stað þess, að vísað sé á ríkissjóð, eins og hann orðaði það, þá verði það greitt af benzíngjaldi. Nú vita hv. alþm., að það er tvenns konar benzíngjald til. Annars vegar er það benzíngjald, sem rennur í ríkissjóð og tekið er af innfluttu benzíni strax, og hins vegar það benzíngjald, sem lagt er á útsöluverð benzíns. Ef hv. 5. þm. Austf. á við það að taka þetta af því benzíngjaldi, sem tekið er við innflutninginn, þá er það náttúrlega ekki nema eðlilegt, en eðlilegt er, að hv. alþm. viti það, hvort meiningin sé að leggja þetta á útsöluverðið, sem mér reiknast til, að mundi vera 35 aurar á lítra miðað við, að benzínsalan væri 85 millj. lítra, sem líklegt er að áætla á árinu 1973. En hæstv. ríkisstj. hefur það alltaf í sínu valdi, hvort hún hækkar benzín eða ekki. Hún hefur heimild til þess, en ég er ekki að mæla með því. Ég mæli með því, að þetta verði greitt úr ríkissjóði, vegna þess að eins og nú er komið, þá tekur ríkissjóður meira gjald af umferðinni en nokkru sinni áður. Og það er ekkert óeðlilegt, þótt hæstv. fjmrh. sé minntur á það, sem hann sagði hér í aprílmánuði 1971. Hann sagði, að það ætti að ganga til veganna, sem ríkissjóður hefði undanfarið fengið af umferðinni. En mér dettur ekki í hug, þótt ég sé í stjórnarandstöðu, að halda slíku fram, vegna þess að ég veit, að ríkissjóður getur ekki misst þetta fé.

Á s.l. hausti var því spáð, að ríkissjóður fengi í tekjur af umferðinni um 1.100 millj. kr., en samkv. skýrslum munu það hafa reynzt um 1.500 millj. kr., sem ríkissjóður fékk af umferðinni á s.l. ári, reiknað á sama hátt og hv. 3. þm. Vesturl. reiknaði það, á meðan hann var í stjórnarandstöðu. Nú hefur hæstv. fjmrh. að vísu hækkað framlag ríkissjóðs úr 47 millj. í 100 millj.+ 100 :millj., sem er tekið sérstaklega í tollum af innfluttum bílum samkv. ákvörðun hæstv. ríkisstj. í síðasta mánuði. En ef tekjur af umferðinni hafa orðið 1.500 millj. á árinu 1971 í stað 800 millj., eins og það var reiknað 1970 og eins og lítur út fyrir að geta orðið á þessu ári með áframhaldandi fjölgun bifreiða, þá held ég, að engum ætti að blöskra, þótt þarna væri bætt við 30 millj. kr. á árinu 1973 sem framlagi úr ríkissjóði. Og ég er viss um það, og reyndar vita allir hv. þm. það, að á meðan hæstv. fjmrh. var aðeins þm. Vesturl., fannst honum þetta ekki mikill peningur.

Nú tel ég ekki rétt að eyða löngum tíma í umr. um þetta, þar sem tíminn er nú takmarkaður, en ég vildi aðeins fara nokkrum orðum um þessa till. okkar hv. þm. Reykn. og hv. þm. Sunnl. Hún er flutt vegna þess, að það er ekki lengur ómaksins vert að taka veggjald eins og gert hefur verið, og það er eðlilegt, að nú sé fellt niður gjaldið á Reykjanesbraut og ekki tekin ákvörðun um það að taka gjald af austurvegi eða Vesturlandsvegi, vegna þess að hér er ekki um þær tekjur að ræða, sem munar um að neinu verulegu ráði.