18.05.1972
Sameinað þing: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í D-deild Alþingistíðinda. (3823)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég á nú að byrja ræðu mína á því að þakka hv. 11. landsk. fyrir að lýsa því yfir, að sá vitlausasti skattur, sem hefur verið upp tekinn á Íslandi, hafi verið tekinn af þeirri ríkisstj„ sem hann studdi, og er það nú gott veganesti fyrir mig eftir allar skattaumræðurnar í vetur. Ég bjóst ekki við því, að hv. 11. landsk. þm. gæfi út slíka yfirlýsingu. Hitt verð ég að segja, að ég er honum ekki sammála þarna frekar en í fyrri skattaumræðum.

Ég hef ekki litið svo á og ég lít ekki svo á, að það sé verið að leggja á fólk átthagafjötra, þegar er verið að leggja steyptar brautir út frá byggðarlögum þess. (Gripið fram í.) Það lá í orðum hv. þm., þegar hann var að lýsa þessu áðan, að það væri verið að leggja á fólk átthagafjötra með því að steypa vegina út frá byggðarlögum. Margt er nú skemmtilegt, en þetta er nú með því skemmtilegra. Ég verð að segja það, að svona rök skil ég nú ekki nema mjög takmarkað. Mér þætti gaman að þekkja þann mann, sem mundi keyra malarveg til Keflavíkur við hliðina á steypta veginum, þó að hann þyrfti að borga 50 kr. fyrir að fara þann steypta. Mér dettur ekki í hug, að nokkur einasti maður hefði gert það, enda hefði sá maður verið óhygginn, því að hvað verða þeir að greiða, sem verða að fara vondu vegina, í viðhald á bílum sínum? Það er svo ómetanlegt, að það á ekki að þurfa að vera nein umræða um það.

Það er sannarlega ánægjulegt að geta teygt út þessa góðu vegi, og um leið og það er gert, þá verða auðvitað að batna vegir annars staðar á landinu, því að þessir vegir hér, fjölförnustu vegirnir, voru orðnir svo viðhaldsfrekir, að þeir gleyptu upp viðhaldsféð, enda þótt þeir gætu aldrei verið í lagi. Og ég fagna því, sem gert hefur verið í að ryðja áfram þessum góðu vegum og tel að við eigum að halda því átaki myndarlega áfram. Hitt verð ég að segja, að mér er alveg sama. hvort farið er suður á Reykjanes, austur á Suðurlandsundirlendi eða upp í Borgarfjörð. Það á að greiða veggjöld af þessum góðu vegum, þar sem þeir eru, hvert sem þeir liggja, meðan svo mikill hluti af landinu er óvegaður. Og það mega mínir kjósendur á Vesturlandi vita, að ég hika ekki við að fylgja því að leggja veggjald á Vesturlandsveg, þegar hann verður orðinn jafngóður og Reykjanesvegur og austurvegur er að verða, enda veit ég það vel, að það verða ódýrastir vöruflutningarnir eftir slíkum vegum. Það, sem skiptir mestu máli fyrir þungaflutningana, er viðhaldið á bílunum og það, að þeir verða fram eftir vori að keyra hálftómir, vegna þess að vegirnir þola ekki þann þunga, sem bílarnir bera. Hvað heldur hv. 11. landsk. þm., að það kosti eigendur þessara bíla? Ég held, að við verðum að taka dæmið eins og það er, og það er enginn vafi á því, að ódýrast af því öllu eru góðu vegirnir, jafnvel þó að menn greiði nokkra tugi kr. í veggjald.

Svo skal ég nú ekki fara öllu lengra út í þetta. En út af því, sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði um afskipti mín af vegamálum og það, sem ég hef sagt um vegamál hér á hv. Alþ., þá verð ég að segja honum það svo og hv. þm. öðrum, að ef ég get staðið svo við önnur mín orð á Alþ. sem ég stend í vegamálunum, þá þarf ég engan kinnroða að bera. Í fyrsta lagi vil ég segja það, að ég hef ásamt fleirum flutt hér frv. á Alþ. æ ofan í æ. Og um hvað voru frv.? Þau voru um það, að sérskattarnir af umferðinni gengju í Vegasjóð. Það var benzínskattur, þungaskattur, gúmmígjald og leyfisgjald. Um þetta hafa mín frv. verið, og mínar umr. hafa snúizt um þetta. En ég hef gert meira. Ég hef verið þátttakandi í því þing eftir þing að standa með þáv. hæstv. samgrh., núv. 1. þm. Sunnl., í því að hækka benzíngjald og þungaskatt til þess að fá meiri tekjur í vegina. Og ég varð ekki fyrir litlum ádeilum fyrir það, hvað ég gekk fram í þessu við afgreiðslu fjárlaga hér um áramótin 1970—1971. Þess vegna hefði ég nú haldið, að þessi hv. þm. hefði getað látið það ógert nú, þegar svo myndarlega er að því staðið að leggja úr ríkissjóði framlag til vegamálanna sem nú er gert, þá hefði hann getað látið það ógert að fara að reyna að æsa upp út af þessum smámunum, sem eru þó um 100 millj. kr., í þessum veggjöldum, fara að reyna að færa þau til ríkissjóðs til viðbótar því, sem ríkissjóður tekur að sér með þessari vegáætlun. Ég held nefnilega, að hv. 1. þm. Sunnl. sjáist yfir það, sem þarna er gert. Til viðbótar við beint framlag úr ríkissjóði, 200 millj. í ár og hækkandi upp í 280 millj. á næstu árum, tekur svo ríkissjóður að sér að greiða skuldir, sem eru 61 millj. í ár, 91 eða 78 á næsta ári, 102 á árinu 1974 og 135 á árinu 1975. Þetta er miðað við það, að veggjaldið haldist. Áður var ríkissjóður búinn að taka á sig nokkra greiðslu af vegalánum. Til viðbótar þessu eru svo þau lán, sem tekin eru í þessari vegáætlun. Gert er ráð fyrir, að þau verði ríkislán, svo að það eru stórar fjárhæðir, sem ríkissjóður er að taka á sig. Það, sem mér finnst, að væri helzt hægt að ásaka mig fyrir, væri einmitt það að láta ríkissjóð taka svo mikið að sér sem gert er, en ekki hitt, að það sé of lítið. Og þar get ég einnig staðið við það, sem ég hef áður sagt í þessu.

Það, sem er um að ræða í sambandi við tekjur af umferð, og það, sem mest hefur verið rætt hér, voru sérgjöldin. Deilan á milli mín og hv. 1. þm. Sunnl. var fyrst og fremst út af því, að leyfisgjöldin, sem voru tekin af bifreiðunum þangað til árið 1970—1971, ég man nú ekki alveg, hvenær breytingin varð, þau fóru í ríkissjóð. Mín till. var sú, að það gjald færi í Vegasjóð. Hitt, um almenna tolla og almennan söluskatt, er annars eðlis. En þegar ég lagði fram hér fjárlagafrv. í vetur, þá skýrði ég frá því, hver mismunur væri á því, ef tekin væri meðaltollprósenta, og sú fjárhæð, sem þar var þá um að ræða, mun fara að skila sér í framlögum til Vegasjóðs. Þess vegna held ég, að ég þurfi í engu að kvíða þeim umr.

Ég vil endurtaka það, að ef á að breyta til og fella niður veggjaldið, þá verða menn að standa frammi fyrir því að koma með annan tekjustofn og þá að gefa ávísun á hækkað benzíngjald. Ég veit það vel, að hægt er að hækka það, þó að þetta komi ekki til, en samkv. lögum gengi það í Vegasjóð, og með þessari afgreiðslu væri ríkissjóður orðinn skuldbundinn til þess að greiða þessa fjárhæð, þó að benzíngjaldið væri hækkað, eins og till. hv. 1. þm. Reykn. og fleiri er orðuð. En með brtt. hv. 5. þm. Austf. er gert ráð fyrir því, að ef veggjaldið verður fellt niður, þá standi menn frammi fyrir því að afla tekna á móti með benzíngjaldi.