18.05.1972
Sameinað þing: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í D-deild Alþingistíðinda. (3829)

274. mál, vegáætlun 1972-1975

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að þakka hv. fjvn. fyrir mjög röggsamlega og skjóta afgreiðslu á vegáætluninni og lýsa ánægju minni yfir því, að afgreiðslan hafi þar getað gengið svo ágreiningslítið sem raun ber vitni. Helzt hefði ég þó kosið, að þá sögu hefði mátt segja, að hér hefði okkur tekizt að leysa þetta mál, sem gefur að vísu ærið tilefni til margs konar reiptogs og ágreinings, án ágreinings. En því er nú ekki að heilsa algerlega, og ber að harma það.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur beint til mín spurningum um það, hverju það sæti að ekki sé skipt niður á árin á tímabilinu framkvæmdum innan Norðurlandsáætlunarinnar. (GíslG: Nei, ég spurði ekki um það.) Ekki um það? (GíslG: Ég spurði, hver mundi skipta fénu.) Hver mundi skipta fénu? Ja, ef hv. þm. hefur talið það vera verkefni fjvn. að skipta því, þá hygg ég, að ekki beri að líta á það þannig. Ég hef litið svo á, að í Austfjarðaáætlun hafi þetta gengið þannig fyrir sig, að landshlutasamtök hafi þar nokkuð um fjallað og þm. kjördæmisins, og ég hygg, að Framkvæmdastofnunina hafi skort það á, að hún hafi ekki getað komið við nægilegu samráði við þá aðila, sem hún vill hafa samráð við, áður en gengið er frá skiptingu varðandi hin árin. Og þar hygg ég, að komi áreiðanlega til þm. kjördæmanna, sem falla undir Norðurlandsáætlun. Ég tel, að rangt hefði verið, ef gengið hefði verið frá skiptingu án þess að koma slíku samráði við. (Gripið fram í.) Hafi ekki komið nálægt því að skipta á milli verkefna á árinu 1972? En ég tel það vera þess eðlis, að slík skipting eigi að fara fram undir forustu Framkvæmdastofnunarinnar í nánu samráði við umboðsmenn kjördæmisins eða þá fyrst og fremst þm. Ég held, að sú skipting, sem gerð er, hljóti að verða að miklu leyti tilviljanakennd, ef slíkt samráð er ekki haft. Ég mundi þess vegna telja, að einmitt af því að skiptingin er ekki ákveðin nú, þá gefist nægilegt svigrúm til þess að hafa slíkt samráð af hendi þm. og annarra við Framkvæmdastofnunina, áður en gengið er frá till. um skiptingu, sem Alþ. leggur svo að síðustu að sjálfsögðu lokahöndina á.

Klukkan er að verða 7, og ég skal vera afar stuttorður. Það er eingöngu deilt hér um það, hvort veggjald skuli vera áfram á Reykjanesbraut og þá jafnframt tekið upp á þá vegi, sem sambærilegir geti talizt, jafnóðum og þeir verði til. Það þarf enginn að fara í grafgötur um mína afstöðu um þetta. Ég tel, að svo sjálfsagt sem það hafi nú verið að leggja á veggjald í upphafi, þegar Reykjanesbraut varð til, þá sé það enn sjálfsagðara nú, þegar Reykjanesbraut verður ekki ein um að bera slíkt gjald. Ég tel það vera miklu sjálfsagðara fyrir Reyknesinga að þola veggjaldið nú áfram, þegar það „prinsip“ væri tekið upp, að sams konar veggjald væri lagt á aðra vegi. En að fella það niður, þegar að því kemur, það finnst mér vera ámælisvert af þeim, sem hafa staðið fyrir innheimtu veggjalds hingað til, það finnst mér vera nærri því högg í andlitið á Reyknesingum. Ég verð að segja það, að mér finnst það bera vott um dálitla sérdrægni, sé sérgæðingsleg afstaða, bera vott um sérhlífni, þegar þeir, sem hafa með góðri samvizku innheimt veggjald, meðan það var utan þeirra eigin kjördæmis, snúast öndverðir gegn því, þegar það stefnir á þeirra eigin kjördæmi. Mér finnst það ekki rétt. Mér finnst það vera sérdrægnisleg afstaða og bera vott um sérhlífni og ekki víðsýni, því miður.

Hv. 1. þm. Sunnl. hélt því fram, að vegurinn austur um Hellisheiði væri ekki sambærilegur við Reykjanesbraut. Ég geri engan mun á því, hvort vegurinn er með olíumalarlagi eða steinsteyptur. En vegalengdin er nokkuð áþekk. Þegar menn eru komnir á Suðurlandsveginn og ætla austur um fjall, þá er fyrsti möguleiki til þess að menn noti ekki veginn, það er Hveragerði. En þegar komið er austur fyrir Hveragerði og um Selfoss, þá er komin mjög álíka vegalengd eins og er milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Og ég sé ekki annað en þetta séu eins sambærilegir vegir og hugsazt getur, og þess vegna ættu menn alveg, ef þeir líta réttilega á þetta mál, að fella sig við það, að svo sem innheimt hefur verið veggjald af Reykjanesbraut, skuli það einnig innheimt á næsta ári af Suðurlandsveginum, þegar hann hefur fengið varanlegt slitlag á álíka langa vegalengd eins og nemur Reykjanesbrautinni. Og því lýsi ég yfir fyrir hönd ríkisstj., að ef ekki verður fellt niður veggjaldið nú af Reykjanesbraut, sem ég vil vona, að verði ekki gert, þá verður innheimt veggjald af sérhverjum sambærilegum vegi, sem við eignumst, frá því að slíkir vegir eru teknir í notkun, og það finnst mér eiginlega að verulegu leyti rétta hlut Reyknesinga. En hitt hlýtur að koma þeim einkennilega fyrir sjónir, þegar hætt er við að innheimta veggjald af góðum vegum um leið og þeir stefna í aðrar áttir en til Keflavíkur. Hér er verið að taka „prinsip“afstöðu, og það er alveg rétta stundin til þess að gera það nú. Það skulu allir sitja við sama borð, sem njóta þess sama, og það er áreiðanlega ekki verið, eins og var verið að hræða menn með hér áðan, það er ekki verið að leggja viðbótarskattgjald á menn með því að leggja veggjald á. Það er verið að spara þeim margföld útgjöld í benzín eyðslu og viðhaldi ökutækja. Það eru smámunir einir hjá þeim sparnaði, sem menn öðlast við góða vegi. Það er verið að létta af þeim skatti, þyngsta skattinum, sem réttilega hefur verið sagður vera sá, sem menn borga vegna vegleysanna.

Hv. 1. þm. Sunnl. sagði, að þeir hefðu verið óánægðir, sem við skattinn hefðu búið. Ég fullyrði það, að það er ekki almenn óánægja á Reykjanesi yfir því að hafa orðið að borga vegskattinn. Menn hafa sagt unnvörpum við mig, og þetta mál kannaði ég rækilega á s.l. vetri, margir sögðu: Við borgum þetta gjald með glöðu geði, því að við höfum fengið fyrirframgreiðslu í fyrsta flokks vegi og borgum aðeins örlítinn hluta af þeim ágóða, sem við njótum í hvert skipti, sem við ökum þennan veg. Það eru ýkjur einar að segja, að það hafi vakið megna óánægju að búa við þessa skattgreiðslu. Eða röksemdafærslan hjá hv. þm. um það, að það taki því ekki, það muni ekkert um þetta! Hér er þó um 100 millj. kr. upphæð að ræða, þó að ekki komi til á tímabilinu nema áætlun um gjaldtöku af tveim vegum. Og 100 millj. kr. er þó nokkur upphæð. Okkur munar vissulega um hverjar 100 millj. kr., sem við getum varið til vegabóta á Íslandi, og við megum engar 100 millj. missa. Ég vil því vænta þess, að hv. þm. Sunnl. sjái sér fært að taka á sig og sína kjósendur veggjald á þessari áætlun, og ég vona, að þeir geti staðið alveg teinréttir frammi fyrir hvaða kjósanda sem er, þrátt fyrir það þó að þeir greiði atkv. með slíku gjaldi, því að sérhver sá, sem notar hinn góða veg, sparar fé. Hann hefur af því fjárhagslegan hagnað. Og þeim ætti ekki að vera ljúfara að láta peninga sína í skemmda bíla og benzíneyðslu, en að láta þá renna til vegabóta annars staðar á landinu. Ég held, að það sé miklu ánægjulegra hlutverk.

Ég sé ekki, ef skarð verður fyrir skildi um 100 millj. kr. á þessu tímabili vegna niðurfellingar veggjaldsins, að það sé annað fyrir hendi en að velja á milli þess, hvort eðlilegra sé að taka þessar 100 millj. í veggjöldum af þeim vegum, sem verða sambærilegir við Reykjanesbraut, eða taka það á sig t.d. í benzíngjaldi. Mér finnst, að menn verði að velja þarna á milli, og mér finnst, að það sé miklu skynsamlegra val að taka þetta inn til vegabóta í landinu með veggjaldi og að ekki þurfi að hækka benzínið. Ég vil því biðja hv. þm. að athuga það vel, hvort þeir geti ekki hugsað sér að vel athuguðu máli að taka aftur þá till., sem hér hefur verið borin fram um að fella niður veggjald, og komast þannig hjá því, að við þurfum að vera að íþyngja öllum með því að setja á enn nýtt benzíngjald. En ég endurtek það, að ég lýsi því yfir, að meðan ég gegni störfum samgrh.. þá hef ég fullt umboð ríkisstj. til þess. að innheimt verði veggjald af sérhverjum þeim vegi. sem sambærilegur getur talizt við Reykjanesbraut, og þar verður ekki gert upp á milli manna. Reyknesingar verða ekki einir látnir borga veggjald lengur, þó að þeir hafi orðið að gera það um skeið, þangað til aðrir vegir gátu talizt sambærilegir.