03.02.1972
Sameinað þing: 33. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í D-deild Alþingistíðinda. (3837)

123. mál, endurgreiðsla söluskatts til rithöfunda

Flm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Haustið 1969 var haldið hér í Reykjavík fjölmennt rithöfundaþing. Auk rithöfunda sátu þingið félagar í Félagi ísl. bókmenntaþýðenda og félagar í Félagi ísl. fræða. Meginhlutverk þingsins var að fjalla um hagsmunamál höfunda og rétthafa ritaðs máls. Ein þeirra samþykkta, sem þetta rithöfundaþing gerði, fjallaði um söluskatt af bókum, og lýsti þingið óhæft, að slík fjárhæð, sem þannig skapaðist af vinnu rithöfunda, rynni í ríkissjóð, meðan rithöfundarnir sjálfir vissu ekki, hvernig þeir mættu gefa sig að ritun bóka. Þetta er rifjað upp hér vegna þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir á þskj. 166 og fjallar um endurgreiðslu söluskatts til rithöfunda.

Við flm. þessarar till. leggjum til, að hv. Alþ. skori á ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess, að andvirði söluskatts af bókum renni til rithöfunda og höfunda fræðirita sem viðbótarritlaun. Till. er þannig beint framhald af ályktun rithöfundaþingsins og þeirra umræðna í ræðu og riti, sem ,síðan hafa spunnizt um þetta hagsmunamál rithöfunda.

Þegar bókmenntaarf okkar Íslendinga ber á góma, hættir mönnum til að grípa til alhæfinga og faguryrða um snilldarverk fortíðarinnar og gildi þeirra fyrir þjóðina. Það er auðvitað óhjákvæmileg skuld, sem við verðum að greiða þeim skáldum og rithöfundum fortíðarinnar, sem hafa kannske öðrum fremur gert okkur Íslendinga að menningarlega sjálfstæðri þjóð, að virða minningu þeirra, en sú skuld er illa greidd, ef við einangrum þá í sögunni til þess einvörðungu að dýrka á hátíðastundum. Þann menningararf, sem þessir menn skiluðu okkur í hendur, verður að ávaxta í lifandi starfi hverrar kynslóðar, því að sú þjóð, sem gerir það ekki, sú þjóð, sem er hætt að vera menningarþjóð, er ekki lengur fær um að meta það starf, sem þessir liðnu rithöfundar inntu af hendi á sínum tíma.

Ég ætla ekki að verja ræðutíma mínum hér í hátíðlegt orðalag um gildi menningar eða þátt bókmennta í íslenzkum menningararfi. En ég vil minna á, að úttekt á menningarstigi hvers tímabils er jafnframt úttekt á viðhorfi samtímans til menningar- og listsköpunar og þá kannske fyrst og fremst á því, hvaða skilningi slíkt starf á að mæta hjá ráðamönnum þjóðarinnar.

Um listir og menningarmál verður því ekki fjallað nema í samhengi annarra samfélagsþátta, og því verður ekki hjá því komizt hér að biðja menn að leiða hugann að tvennu í senn, nöfnum genginna skálda og lögum nr. 10 frá 1960, um söluskatt, einfaldlega sakir þess, að rithöfundum samtíðarinnar er ógerlegt að ávaxta bókmenntaarf þjóðarinnar nema þeir fái greitt fyrir sín störf og geti helgað sig þeim óskiptir. Kröfur rithöfunda eru ekki frábrugðnar kröfum annarra vinnandi stétta, að þeir fái sanngjörn laun fyrir vinnu sína. Þeir fara ekki fram á nein sérréttindi eða forréttindi. En þeir krefjast viðurkenningar á því, að ritstörf séu vinna, sem krefst starfsorku þeirra óskiptrar, en eins og nú er háttað kjörum rithöfunda, hljóta þeir að eyða starfsorku sinni og tíma í að stunda önnur störf jafnframt ritstörfum sér til lífsbjargar.

Rök fyrir því, að söluskattur af bókum renni til höfunda þeirra í formi viðbótarritlauna, er fyrst og fremst að finna í söluskattslögunum sjálfum. Í 7. gr. laganna er kveðið á um, að sala listamanna á eigin verkum skuli undan þegin söluskatti. Í því felst viðurkenning ríkisvaldsins á því, að ótilhlýðilegt sé, að það hagnist beinlínis á starfi listamanns með þessum hætti. En í stað þess að rithöfundar njóti góðs af þessu ákvæði í söluskattslögunum. er þeim gert að standa undir milljóna króna hagnaði ríkisins af verkum þeirra einvörðungu vegna þess, að svo er háttað sambandi höfunda við lesendur sína, að því er ekki unnt að halda uppi milliliðalaust. Hér er tvímælalaust um að ræða misrétti milli rithöfunda og listamanna, sem aðstöðu hafa til að selja verk sín sjálfir. Auðvelt og sanngjarnt væri að draga úr þessu misrétti á þann veg, að ríkissjóður endurgreiddi rithöfundum andvirði söluskatts af bókum. Söluskatturinn rynni síðan til bókahöfundar sem viðbótarritlaun, eða þá í öðru formi einnig, ef það þætti æskilegt eða hentugt. Á það hefur margsinnis verið bent, að rithöfundurinn beri lang minnst úr býtum allra þeirra, sem við verk hans eru riðnir, enda þótt því verði ekki á móti mælt, að starf rithöfundarins er undirstaða og forsenda allra bókagerðarstarfsgreina og raunar margra annarra starfsgreina þjóðfélagsins. Þetta hefur varla verið betur eða greinilegar orðað en í grg. frá Rithöfundasambandi Íslands, sem kom út í sambandi við rithöfundaþingið haustið 1969, en þar segir, með leyfi forseta:

„Ekki verður því á móti mælt, að fjöldi starfshópa í þjóðfélaginu byggir afkomu sína á störfum rithöfunda. Svo er um prentara, bókbindara, prentmyndagerðarmenn, bóksala, bókaverði, bókmenntagagnrýnendur og kennara í bókmenntum. Rétt þessara starfshópa til launa vefengir enginn maður. Samfélagið viðurkennir einnig rétt listamanna til starfslauna, þegar þeir flytja annarra verk, svo sem leikara. Öðru máli gegnir um skapendur listar. Skáld og rithöfundar, sem allir fyrrgreindir hópar eiga störf sín að þakka að meira eða minna leyti og þá um leið afkomu sína, njóta ekki viðurkenningar á rétti til sómasamlegrar greiðslu fyrir sköpunarstarf sitt. Langmestur hluti af tekjum þeim, sem fást af verkum þeirra, rennur til greiðslu á launum starfshópa, sem ýmist vinna við útgáfu eða kynningu á verkum þeirra. Frumkvöðullinn sjálfur ber minnst úr býtum allra, sem við verk hans eru riðnir.“

Og síðar, með leyfi forseta: „Íslenzkir rithöfundar eru ekki þiggjendur, heldur hlutfallslega stórtækustu veitendur þjóðfélagsins, því að auk þess sem afkoma stórra starfshópa í þjóðfélaginu hyggist á sköpunarstarfi þeirra, þá er beinn fjárhagsarður hins opinbera af verkum þeirra árlega mörgum sinnum hærri en árstekjur allrar rithöfundastéttarinnar af ritstörfum.“

Einn liðurinn í fjárhagsarði hins opinbera af störfum rithöfunda er söluskatturinn. Hann nam árið 1970 13.8 millj. kr., en áætlaður söluskattur ársins 1971 af innlendum bókum er samkv. útreikningi Efnahagsstofnunarinnar rúmlega 19 millj. kr. Í þessu sambandi hlýt ég að biðja hv. þm. afsökunar á villu, sem slæðzt hefur inn í grg., þar sem segir, að söluskattur ársins 1970 sé rúmlega 19 millj. Sú upphæð er áætluð upphæð fyrir 1971, en söluskattsupphæð fyrir árið 1970 var 13.8 millj., svo sem ég sagði áðan. Þyki einhverjum þetta háar upphæðir, vil ég minna á til samanburðar, að framlag ríkisins til Þjóðleikhúss eru tæpar 35 millj. kr. og til Sinfóníuhljómsveitar Íslands tæpar 16 millj. kr. En hvernig er þá háttað hlutfalli milli ritlauna höfundarins og söluskattsupphæðar ríkisins af bók hans? Að því er vert að hyggja.

Greiðsla ritlauna til rithöfunda er aðallega með tvennum hætti: annars vegar ákveðin upphæð, sem greiðist fyrir leyfðan og prentaðan eintakafjölda, og hins vegar prósentugreiðsla, ákveðið hlutfall af seldum eintökum bókarinnar. Í báðum tilfellunum leggur útgefandi mat á sölumöguleika bókarinnar, og geta því ritlaun verið nokkuð misjöfn eftir því, hver höfundurinn er. Í blaðaviðtali í nóv. s.l. segir kunnur bókaútgefandi eftirfarandi um höfundarlaun. með leyfi forseta:

„Höfundarlaun geta því verið allt frá 0 og til verulega hárra upphæða. ef um er að ræða prósentukerfið og svokallaðar metsölubækur. Hið algengasta er sennilega einhvers staðar þar á milli, t.d. á bilinu frá 60–120 þús. kr. Ef bók. sem kostar án söluskatts kr. 600, selst í 2 þús. eintökum og höfundurinn fær t.d. samkv. samningi 10% í höfundarlaun. þá verða höfundarlaun hans kr. 120 þús., ríkið fær hins vegar af þessari sömu bók kr. 132 þús. í söluskatt.“

Í þessu dæmi fær ríkið meira í sinn hlut í formi söluskatts en höfundurinn sjálfur í ritlaun, og eru þá ekki reiknaðir með skattar til ríkis og sveitarfélags. sem höfundinum er gert að greiða af því, sem í hans hlut kemur. Afleiðingarnar af þessari þróun hljóta að vera augljósar. Bókaútgáfan hlýtur óhjákvæmilega að stefna í þá átt, að hún einskorðast við léttmeti eða metsöluhöfunda, sem skrifa svonefndar öruggar sölubækur.

Eðlileg endurnýjun í listsköpun mun eiga æ örðugra uppdráttar. Æ færri nýir höfundar fá verk sín útgefin. Allir, sem af einhverjum ástæðum eiga ekki heima í sölukerfinu, troðast undir. Og þá eigum við ekki lengur frjálsa list, því að list, sem sveigð er undir markaðskerfið, sú list, sem hlíta verður lögmálum framboðs og eftirspurnar líðandi dægurs, sú list er ekki lengur frjáls.

Við flm. höfum gert ráð fyrir því í till., að auk skálda og rithöfunda ættu höfundar þeirra fræðirita, sem til menningarauka horfa fyrir þjóðina, einnig að njóta viðbótarritlauna með þessum hætti, enda munu ritlaun fyrir slíkar bækur sízt hærri en fyrir skáldverk. Þá mun og réttlætismál, að þeir höfundar, er vinna menningarstarf með þýðingum erlendra bóka, njóti einnig sömu kjara. En um fyrirkomulag þessara greiðslna höfum við lagt til, að menntmrn. setji reglugerð, og teljum við það eðlileg vinnubrögð, þar eð framkvæmd þessa máls hlýtur að þurfa nákvæmrar athugunar við, ef hún á að ná tilgangi sínum. Sá tilgangur er tvíþættur. Annars vegar sá að efla bókmennta— og menningarstarf í landinu og hins vegar sá að tryggja starfandi rithöfundum sanngjörn laun fyrir vinnu sína og gera þeim kleift að gefa sig óskipta að ritstörfum, skapa þeim, sem þessi störf stunda, þroskavænleg vinnuskilyrði. Það er sannfæring flm., að sá arður, sem ríkið fær af vinnu listamanna í formi söluskatts, komi þjóðinni þá bezt að gagni, ef hann verður notaður til að styrkja sjálfa undirstöðugrein bókmennta— og menningarlífs í landinu.

Herra forseti. Ég legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.