16.05.1972
Sameinað þing: 71. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í D-deild Alþingistíðinda. (3840)

123. mál, endurgreiðsla söluskatts til rithöfunda

Frsm. minni hl. (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Á öndverðu þingi var lögð fram till. frá Svövu Jakobsdóttur og tveimur öðrum þm. um endurgreiðslu söluskatts til rithöfunda. Þessi till. hefur nú fengið meðferð í allshn., sem leiddi til þess að n. klofnaði og meiri hl., eins og fram kom af ræðu hv. frsm. hans, leggur til, að málinu verði vísað til ríkisstj. Minni hl., en ég er frsm. hans, leggur hins vegar til. að till. verði samþykkt óbreytt.

Ég skal nú ekki fara að rekja röksemdir fyrir þessari niðurstöðu. þær eru þegar nokkrar í grg., og auk þess flutti frsm. nokkuð rækilegt mál fyrir þessari till., þannig að það er óþarft og ástæðulaust. Ég vil þó aðeins segja það, að það er af sú tíð, að menn geti náð nokkrum árangri í starfi sínu án þess að helga sig því óskiptir og þetta gildir ekki sízt um rithöfunda. Þess vegna er mikilvægt, að þjóðfélagið skapi þessum mönnum aðstöðu til þess að sinna þeirri listsköpun, sem þeir fást við. Öllum er kunnugt um, að kjör rithöfunda eru ákaflega bágborin og margir þeirra lepja dauðann úr skel. a.m.k. af þeim tekjum. sem þeir fá af rithöfundastörfum, þótt að sjálfsögðu einstakir rithöfundar komist sæmilega af á listsköpun sinni, þannig að það er ekki nema eðlilegt, að þjóðfélagið, eða í þessu tilviki hið háa Alþingi, reyni að grípa til einhverra ráðstafana til þess að bæta úr því ástandi, sem nú er. Sú aðferð, sem hér er fyrirhuguð, ef hún verður samþykkt, er í samræmi við óskir rithöfunda, sem þeir hafa síðan margítrekað.

En ég vil bæta því við, að þó að þetta sé í þrengsta skilningi spurningin um kjör rithöfunda, þá er þetta í víðasta skilningi miklu fremur hagsmunamál þjóðarinnar allrar. Við eigum ekki sízt að líta á málið út frá því sjónarmiði, þannig að þessi gamla bókmenntaþjóð sjái sóma sinn í því að skapa þeim mönnum, sem enn fást við listsköpun og bókagerð, tækifæri til að njóta sín.

Það hefur gerzt, að komið hefur fram ný till., brtt. frá hv. 5. þm. Reykv.. Gunnari Thoroddsen, þar sem svo segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að leggja fyrir næsta þing till. um, að fjárhæð, er nemi sem næst andvirði söluskatts af bókum, renni til rithöfunda og höfunda fræðirita sem viðbótarritlaun eftir reglum, sem samdar verði í samraði við Rithöfundasamband Íslands og félög rithöfunda.“

Niðurstaðan af þessari brtt. er sú sama og minni hl. allshn. vill gera ráð fyrir. Hér er aðeins viðhöfð önnur aðferð, þ.e. að áætluð sé sambærileg upphæð við söluskattinn og þessi upphæð verði síðan látin renna til rithöfunda og höfunda fræðirita sem viðbótarritlaun. Ég er í engum vafa um það, að mörgum mun þykja þetta miklu geðþekkari leið, og ég sé ekki ástæðu til annars en að fagna þessari till. og leggja til, að þessi till. frá hv. 5. þm. Reykv. verði samþykkt, og mæli því með samþykkt hennar.