22.02.1972
Sameinað þing: 40. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í D-deild Alþingistíðinda. (3855)

140. mál, mennta- og vísindastofnanir utan höfuðborgarinnar

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Þessi till. var flutt á þinginu í fyrra. Hún hlaut þá ekki afgreiðslu. Við flm. höfum ráðizt í að flytja hana að nýju, enda er hér um að ræða mikilsvert málefni, sem Alþ. og ríkisstj. ber að taka beina afstöðu til. En till. er svo hljóðandi:

„Alþingi lýsir yfir þeim vilja sínum. að stefnt skuli að eðlilegri dreifingu skóla og hvers kyns mennta— og menningarstofnana um landið og tillit tekið til þeirrar stefnu í framkvæmd byggðaáætlana. Enn fremur lýsir Alþingi yfir því, að sérstaklega skuli að því stefnt, að Akureyri verði efld sem skólabær og miðstöð mennta og vísinda utan höfuðborgarinnar.“

Eins og ljóst má vera af þessum lestri, þá er efni till. tvíþætt. Fyrri liður hennar er almenns eðlis og felur í sér viljayfirlýsingu Alþ. um það, að stefnt skuli að eðlilegri dreifingu mennta— og menningarstofnana um landið og að tillit sé tekið til þeirrar stefnu í framkvæmd byggðaáætlana. Síðari liður till. er sérstaks eðlis. Hann fjallar um það, að Akureyri verði sérstaklega efld sem skólabær og miðstöð mennta og vísinda utan höfuðborgarinnar, eins og í till. stendur.

Ég vil geta þess, að á þinginu 1964—1965 fluttu þáv. þm. Framsfl. í Norðurl. e. þáltill., sem fjallaði um mjög svipað efni, en var þó með nokkuð öðru orðalagi. Sú till. var rædd hér nokkuð á þeirri tíð og átti margra fylgi innan þings og utan. Alþingi gerði hana að vísu aldrei að ályktun sinni, en málinu var vísað til ríkisstj. samkv. till. allshn. Þó að till. frá 1964 næði ekki lengra en þetta, þá er mér næst að halda, að hún hafi haft veruleg áhrif á skoðanir manna að því er varðar staðsetningu skóla og annarra menningarstofnana.

Menn gera sér þess yfirleitt miklu ljósari grein nú en áður var, að skólakerfið er mjög víðtækur og áhrifamikill þáttur í þjóðlífinu. Menn átta sig á því, að skólakerfið fer mjög vaxandi, bæði að umfangi og sérgreiningu. Sístækkandi hluti þjóðarinnar er bundinn skólum, bæði sem nemendur og kennarar. Þessi þróun heldur áfram, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Það skiptir því miklu máli, að Alþ. og ríkisstj. beini athygli sinni að þessari þróun og leitist við að stýra henni inn á æskilegar brautir í stað þess að láta þessi mál þróast í blindni. Ég ætla ekki að efast um það, að nú sé almennt viðurkennd nauðsyn þess að dreifa skyldunámsskólum, barna— og unglingaskólum o.s.frv. sem víðast um landið. Það er nú talið óhjákvæmilegt réttlætismál, að börn og unglingar geti sótt fasta skyldunámsskóla í heimahéraði. Ég held, að allir hljóti að viðurkenna, að Alþ. hefur lagt sig verulega fram um að fullnægja þessu réttlætismáli, þótt auðvitað séu mörg verkefni þar enn óleyst. En ég vil einnig minna á það, að aukning skólakerfisins er ekki bundin skyldunáminu einu saman. Þessi aukning er ekki heldur bundin við svið hinna venju helguðu framhaldsskóla, sem veita almenna menntun, svo sem gagnfræðaskólanna eða menntaskólanna. Skólakerfið er og verður miklu meira en barnaskólar, gagnfræðaskólar og menntaskólar. Sérgreinaskólar eru þegar margir í landinu, og þeim mun auðvitað fjölga stórlega á næstu árum og áratugum. Enginn mannlegur máttur getur komið í veg fyrir það, enda er þeirra mikil þörf. Sérgreinaskólarnir hafa miklu hlutverki að gegna fyrir skynsamlegan og hagnýtan undirbúning undir ýmis nauðsynjastörf í þjóðfélaginu, hvort sem það er á sviði atvinnulífs og framleiðslu eða þjónustu, sem enginn vill án vera.

Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir, fjallar öðrum þræði um það. að Alþ. lýsi yfir þeim vilja sínum. að stefnt skuli að eðlilegri dreifingu skóla um landið, þá ekki síður sérgreinaskola en annarra, og tillit verði tekið til þessarar stefnu í framkvæmd byggða— eða landshlutaáætlana. En till. fjallar ekki eingöngu um dreifingu skóla, heldur einnig um dreifingu annarra mennta— og menningarstofnana. Það sem fyrir okkur flm. vakir, er að Alþ. marki ákveðna stefnu í þessa átt. Eins og segir í grg. fyrir till., þá er orðið mennta— og menningarstofnun víðtækt hugtak í þessu sambandi. Það nær að sjálfsögðu til skóla og annarra fræðslustofnana. En hér er einnig átt við söfn, svo sem bókasöfn, náttúrugripasöfn. listasöfn. minjasöfn. leiklistar— og tónlistarstarfsemi og aðra listastarfsemi. Í ýmsum tilvikum yrði framkvæmd þessa atriðis fólgin í stuðningi við stofnanir og starfsemi, sem þegar er fyrir hendi, en þarfnast eflingar á einn eða annan hátt. Þannig eru víða til bókasöfn, en flest þurfa þau eflingar við. Minjasöfn eru einnig víða, en áreiðanlega þurfa þau margs konar eflingar við flest hver, svo að æskilegt væri, að sum minjasöfn a.m.k. efldust svo, að þau mættu með réttu kallast þjóðfræðasöfn og yrðu þannig fræðilegar stofnanir, en ekki aðeins varðveizlu— og sýningarstaðir. Ég skal nú láta útrætt um fyrri lið þáltill., en vísa að öðru leyti til grg. um nánari skýringu á markmiði okkar flm.

Ég vík þá að síðara efnisatriði till. Þar segir, að Alþ. lýsi yfir því, að sérstaklega skuli að því stefnt, að Akureyri skuli efld sem skólabær og miðstöð mennta og vísinda utan höfuðborgarinnar. Á síðari árum hafa miklar umræður átt sér stað um byggðaþróunina í landinu, og má af ýmsu marka, að flestir séu nú þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé að gera beinar ráðstafanir af opinberri hálfu til þess að stjórna þessari þróun. Sérstaklega verður að geta þess, að núv. ríkisstj. hefur markað sér stefnu um þetta atriði, eins og fram kemur í málefnasamningi stjórnarflokkanna. Frá mínum bæjardyrum séð er þetta eitt af mikilvægustu stefnuskráratriðum ríkisstj. Það er svo aftur umræðuefni, með hvaða hætti sé heppilegast að framkvæma þetta stefnuskráratriði. Í því sambandi ber að hafa eitt og annað í huga. Vissulega er hér um vandasamt mál að ræða, og áhugamönnum um þetta efni ber að sýna fyllsta raunsæi. Ég held a.m.k. að það sé ofætlun að búast við því, að ýtrustu vonir um jafnvægi í byggð landsins rætist á nokkrum mánuðum. Hjá því verður heldur ekki komizt, að í sambandi við slíka stefnumörkun verði að velja og hafna. Við, sem að þessari till. stöndum, höfum flutt hana m.a. í þeim tilgangi, að hún mætti verða framlag til umræðna og ákvarðana í sambandi við byggðajafnvægismál og landshlutaáætlanir. Það á við um báða meginþætti till. Við viljum benda á það, að þróun þjónustustarfsemi og félags— og menningarlífs verður að haldast í hendur við atvinnuuppbygginguna, ef árangur á að verða af landshlutaáætlunum. Nútímafólk mælir lífskjör sín og afkomu ekki á vog atvinnumöguleika og peningatekna einna saman, heldur engu síður á mælikvarða félags— og menningarlífs í víðri merkingu. Nútímafólk unir ekki fásinni og einangrun né lélegri almannaþjónustu á sviði félagslífs og menntunar og heilsugæzlu, að ekki sé minnzt á samgöngur, sem telja verður eitt brýnasta hagsmunamál þjóðarheildarinnar.

Ég sagði áðan, að í sambandi við byggðajafnvægismálin yrði ekki komizt hjá að velja og hafna. Það hefur komið fram í sambandi við umræður um byggðaþróun á Norðurlandi, að skynsamlegt væri að stefna að frekari eflingu Akureyrar til mótvægis hinu sterka aðdráttarafli Reykjavíkursvæðisins. Undir þessa hugmynd taka flm. þessarar till. með þeim fyrirvara, að jafnframt séu gerðar ráðstafanir til þess að styrkja aðra landsbyggð á Norðurlandi og annars staðar, enda getur það ekki orðið keppikefli, að ofvöxtur hlaupi í mannfjöldaþróun Akureyrar á kostnað annarra byggðarlaga norðanlands.

Það er mikið verkefni að vinna að framtíðareflingu Akureyrarbæjar að þessu leyti. Ef Akureyri á að geta orðið mótvægi gegn aðdráttarafli Stór-Reykjavíkur, þá er að mörgu að hyggja. Það þarf að efla atvinnulífið og fjölga atvinnugreinum. Það verður að efla Akureyri sem verzlunar miðstöð og hafskipahöfn. Opinber þjónusta þarf að verða fjölbreyttari. Gera verður stórátak í heilbrigðismálum. í sjúkrahús— og læknisþjónustu. Mjög aðkallandi er að taka húsnæðismálin til endurskoðunar, því að ónógt húsnæði stendur bænum nú fyrir þrifum. En það þarf einnig, eins og þessi till. gerir ráð fyrir, að efla Akureyri sem skólabæ og menningarmiðstöð. Þegar um þetta er rætt, ber að hafa í huga, að Akureyri er nú þegar tiltölulega öflugur skólabær, fyrst og fremst vegna menntaskólans. Þar er einnig myndarlegur iðnskóli, tónlistarskóli og húsmæðraskóli, auk nokkurra barnaskóla og fjölmenns gagnfræðaskóla. Þá starfar í bænum undirbúningsdeild tækniskóla. Vélfræðikennsla hefur farið fram á Akureyri nú í nokkur ár, að vísu við ófullkomin skilyrði, sem úr þyrfti að bæta og stýrimannafræðsla hófst þar s.l. haust. Hefur aðsókn að stýrimannanámskeiðinu verið afar mikil, og hugmyndir hafa komið fram um, að stefna beri að föstum stýrimannaskóla á Akureyri. Ég teldi eðlilegt að stefna jafnframt að frekari eflingu vélfræðikennslunnar. Norðlenzki fiskiskipaflotinn er stór og fer stækkandi. Mér finnst ekkert eðlilegra, en að norðlenzkir sjómenn geti hlotið starfsmenntun sína heima í fjórðungnum. og fer ekki á milli mála, að Akureyri er ákjósanlegur skólastaður í því efni.

Þá vil ég nefna, að um nokkurra ára skeið hefur verið uppi hreyfing norðanlands um stofnun garðyrkjuskóla á Akureyri. Það mál hefur einnig verið rætt á Alþ, en ýmsar hindranir hafa verið lagðar í götu þess máls, svo að ekki hefur orðið úr framkvæmdum. Það mál hefur þó ekki verið lagt á hilluna. Að því er unnið að fá ríkisvaldið til þess að beita sér fyrir stofnun garðyrkjuskólans, og er þá haft í huga, að gamla gróðrarstöðin á Akureyri, sem er þjóðkunnur merkisstaður, verði afhent með mannvirkjum í þágu skólans. Ríkið eða Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur umráð staðarins nú. Þar hefur farið fram starfsemi, sem sýnt er, að verður flutt þaðan innan skamms. Því miður hefur umhirða gróðrarstöðvarinnar ekki verið með þeim hætti, sem samboðin er þessum merka stað. Verður ekki hjá því komizt, að ríkið taki ákvörðun um framtíð staðarins í samráði við bæjarstjórn Akureyrar. Engin starfsemi mundi hæfa gróðrarstöðinni betur en garðyrkjuskóli, enda má benda á, að með stofnun garðyrkjuskóla væri í rauninni verið að endurvekja fyrri starfsemi gróðrarstöðvarinnar. Einn aðalþáttur í starfi gróðrarstöðvarinnar frá stofnun hennar árið 1904 allt til ársins 1940 var garðyrkjukennsla. Illu heilli var garðyrkjukennslunni hætt, þegar Garðyrkjuskóli ríkisins í Hveragerði tók til starfa.

Þá vil ég nefna, að mjög hefur komið til umræðu, að stofna beri verzlunarskóla á Akureyri. Á nauðsyn þess máls höfum við flm. þessarar till. bent frá fyrstu tíð. Má furðulegt heita, hversu seint miðar í þá átt að efla verzlunarmenntun í landinu, þegar þess er gætt, að aðeins tveir einkaskólar eru starfandi á þessu sviði í landinu öllu. Það mega nú teljast forréttindi, ef unglingar komast í verzlunarskóla. Þessu ástandi verður að breyta. Ríkinu ber að hafa forgöngu um stofnun nýs verzlunarskóla, og ekki er áhorfsmál, að sá skóli væri vel settur á Akureyri. Það kæmi einnig til greina, að samvinnuhreyfingin og samtök einkarekstrarmanna stæðu að stofnun verzlunarskóla á Akureyri með styrk úr ríkissjóði. Raunar mætti einnig hugsa sér, að norðlenzkur verzlunarskóli hefði enn víðtækara starfssvið, m.a. að á hans vegum starfaði félagsmáladeild, sem hefði það hlutverk að þjálfa starfsfólk og trúnaðarmenn verkalýðs— og launþegasamtaka og annarra félags— og stéttarsamtaka.

Ég minntist áðan á það, að á Akureyri starfaði undirbúningsdeild tækniskóla. Slíkt ber sízt að vanmeta. Þess má líka geta, að í gildandi lögum um Tækniskóla Íslands er heimild til stofnunar sjálfstæðs tækniskóla á Akureyri. Þessarar heimildar hefur ekki verið neytt í níu ár, og litlar sem engar líkur eru til þess, að tveir tækniskólar verði starfræktir í landinu í náinni framtíð. Tækniskóli Íslands, sem starfar í Reykjavík, býr þar við ófullkomin skilyrði, og það hefur verið till. Norðlendinga, að ekki sé sagt krafa þeirra, að Tækniskólinn yrði fluttur til Akureyrar og efldur þar á þann hátt, sem þörf krefur. Undir þessa till. hefur ekki verið tekið. Sérstaklega harma ég það, sem nú er fram komið, að núv. ríkisstj. hefur ákveðið að hafa óskir Norðlendinga um flutning Tækniskólans að engu. Með þeirri ákvörðun er glatað tækifæri, sem ekki býðst aftur.

Ég hef nú rætt nokkuð um möguleika þess að efla Akureyri sem skólabæ. Þessu næst ætla ég að víkja að þeirri hugmynd, að Akureyri verði efld sem miðstöð mennta og vísinda, eins og við höfum kallað það. Þegar svo er til orða tekið, þá felst í því það, að menntir ýmiss konar og ekki sízt fræði og vísindi verði aukin svo, að Akureyri verði, áður en langir tímar líða, viðurkennd sem aðsetur æðri mennta— og vísindastofnana, þar sem m.a. væru stundaðar rannsóknir á vísindalegum grundvelli ásamt akademískri kennslu í einu eða öðru formi. Ekki kæmi mér þó á óvart, þótt ýmsir álitu þessa hugmynd í ætt við skýjaborgir. Menn kunna að halda, að í þessu efni sé á litlu að byggja, en ég held, að svo sé ekki. Í fyrsta lagi er gerlegt og skynsamlegt að tengja saman hugmyndina um skólabæ og hugmyndina um miðstöð mennta og vísinda. Skólamiðstöðin mun draga að sér efnilega menntamenn og kennara, sem líklegt er, að vildu stunda vísindastörf að nokkru með kennslu. Slíkt hefur gerzt annars staðar, og slíkt gæti auðvitað gerzt á Akureyri. Raunar höfum við ýmis dæmi fyrir okkur um þetta, bæði fyrr og síðar. Sannleikurinn er sá, að ýmsir merkir vísindamenn, einkum í náttúrufræði, hafa starfað á Akureyri í lengri eða skemmri tíma. Auðvitað varð sú raunin á, að margir þeirra hlutu að hverfa burtu, þegar fram í sótti. því að skilyrði til fullkominna vísindastarfa voru ekki fyrir hendi. Á þessu er þó að verða breyting.

Á undanförnum árum hefur sprottið úr grasi mikilsverður vísir að rannsóknaraðstöðu á Akureyri og nágrenni, einkum á sviði náttúrufræði og raunvísinda. Þetta hefur gerzt tiltölulega hljóðalaust og án allra umbrota, a.m.k. án allrar auglýsingastarfsemi. Ég vil geta í stuttri upptalningu nokkurra atriða.

Náttúrugripasafnið á Akureyri hefur eflzt mikið síðustu ár undir stjórn núv. forstöðumanns, Helga Hallgrímssonar. Þar er gott fuglasafn, en plöntusafnið er einnig mikið að vöxtum og mun fyllilega standast samjöfnuð við söfnin í Reykjavík. Við safnið starfar ásamt safnverði einn af efnilegustu grasafræðingum landsins, dr. Hörður Kristinsson. Í náttúrugripasafninu á Akureyri er m.a. að finna ágætt grasasafn Steindórs Steindórssonar skólameistara, sem unnið hefur að vísindastörfum á Akureyri allra manna lengst. Hinn svo nefndi grasgarður, sem er safn lifandi plantna og á sér skjól innan veggja lystigarðsins, er einstæður í sinni röð hér á landi. Þannig skapar þetta tvennt, náttúrugripasafnið og grasgarðurinn, mikilvæga undirstöðu undir rannsóknir í grasafræði. Því verður a.m.k. ekki á móti mælt, að ofan á þessa undirstöðu mætti byggja og efla þannig aðstöðu til vísindastarfa á Akureyri. Ég vil geta þess, að ríkisstyrkur til þessarar starfsemi hefur verið sáralítill og varla umtalsverður og allt frumkvæði að eflingu náttúrugripasafnsins er verk heimamanna, fyrst og fremst safnvarðarins Helga Hallgrímssonar.

Þá vil ég geta þess, að fyrir nokkrum árum var sett á stofn efnarannsóknarstofa Norðurlands. Hún starfar fyrst og fremst að frumkvæði og á kostnað búnaðarsamtakanna og kaupfélaganna á Norðurlandi, að vísu með styrk úr ríkissjóði, sem nemur 1/2 millj. kr. nú á ári. Efnarannsóknarstofa Norðurlands nýtur ágætrar stjórnar ungs vísindamanns, Jóhannesar Sigvaldasonar. Hann hefur ekki starfað lengi, en eftir hann liggur merkilegt starf á sviði jarðvegs- og kalrannsókna.

Þá vil ég nefna í þriðja lagi enn eitt athyglisvert framtak Helga Hallgrímssonar safnvarðar og nokkurra félaga hans, en það er stofnun rannsóknarstöðvarinnar Kötlu á Víkurbakka við Eyjafjörð, um það bil 25 km fyrir utan Akureyri. Helgi og félagar hans keyptu fyrir nokkrum árum jörðina Ytri-Vík á Árskógsströnd og smábýlið Víkurbakka, sem þar er í sama túni. Þar hafa þeir félagar komið upp rannsóknarstöð og búið hana tækjum og öðrum búnaði að langmestu leyti á eigin kostnað, þó með stuðningi frá sýslusjóði Eyjafjarðarsýslu, bæjarstjórn Akureyrar, menningarsjóði Kaupfélags Eyfirðinga og nokkrum einstaklingum. Fram til þessa hefur ríkisstyrkur við þessa starfsemi verið nauðalítill. Að vísu hlaut Helgi og félagi hans, Guðmundur Ólafsson menntaskólakennari, nokkurn styrk úr Vísindasjóði til sérstakra rannsókna fyrir nokkrum árum. Í fyrrasumar brugðu þeir félagar á það ráð að afhenda sem gjöf þessa rannsóknarstöð, þ.e. hús og tæki og nokkurt land, og um þessa gjöf hefur verið sett upp Rannsóknarstöðin Katla, sem rekin er sem sjálfseignarstofnun á vegum sérstaks félagsskapar, sem nefnist Kötlufélagið. Að þessu félagi standa áhugamenn á Akureyri og í Eyjafjarðarsýslu. Rannsóknarstöðin Katla mun starfa sem „field-station“, eins og það er kallað á erlendum málum. Þar verður fyrst og fremst boðið upp á aðstöðu fyrir áhugasama náttúrufræðinga og náttúrufræðistúdenta til þess að stunda vísindalegar athuganir og rannsóknir á náttúru næsta umhverfis, hvort heldur er á landi eða sjó. Rannsóknarstöðvar af þessu tagi eru algengar erlendis og gegna mikilvægu hlutverki. Með stofnun Rannsóknarstöðvarinnar Kötlu er verið að vinna brautryðjendastarf hér á landi.

Á Akureyri er starfandi eitt af myndarlegustu bókasöfnum landsins, Amtsbókasafnið, sem einnig er með elztu bókasöfnum hérlendis. Að safni þessu er vel búið. Það flutti fyrir nokkrum árum í nýtt og veglegt hús, sem býður upp á góð skilyrði til starfrækslu safnsins sem vísindalegs bókasafns. Minjasafn bæjarins er einnig merk stofnun, sem gæti orðið grundvöllur raunverulegs þjóðfræðasafns, ef rétt er á haldið og vilji væri fyrir hendi. Þar gætu engu síður farið fram rannsóknir í þjóðháttafræði t.d. en í Reykjavik, og þess má geta, að fyrsti og líklega merkasti þjóðháttafræðingur Íslendinga til þessa dags, séra Jónas á Hrafnagili, var einmitt kennari um langan aldur á Akureyri og starfaði sem prestur í Eyjafirði.

Þá get ég ekki stillt mig um að geta þess, að í des. s.l. var stofnað á Akureyri Vísindafélag Norðlendinga, og eru félagsmenn um 8 eða 10 talsins, flestir þeirra búsettir á Akureyri. Þessi hópur á það sameiginlegt að stunda ýmis vísindastörf. Aðalmarkmið félagsins er að stuðla að auknum vísindalegum rannsóknum og öðrum lærdómsiðkunum á félagssvæðinu, sem er Norðlendingafjórðungur, m.a. með því að beita sér fyrir sérstökum rannsóknum, vinna að eflingu vísindastofnana, stuðla að útgáfu vísindarita og koma af stað fundum og umræðum um vísindaleg efni.

Herra forseti. Ég skal nú brátt láta staðar numið. Af því, sem ég hef sagt, mætti ljóst verða, að þegar er fyrir hendi á Akureyri umtalsverður vísir að fræða— og vísindastarfsemi. Sumum kann að þykja sá vísir mjór, og hann er það, ef miða á við þann vöxtulega gróður, sem rækta mætti, ef markvisst og skipulega væri unnið að eflingu rannsókna— og vísindastarfs á Akureyri, en mjór er mikils vísir, segir máltækið.

Það hefði verið ástæða til að minnast á fleiri þætti menningarlífs, sem eru í mótun hjá okkur Akureyringum, m. a. hefði mátt minnast á leiklistarstarfsemina og þær hugmyndir, sem fram hafa komið um eflingu hennar. Að þessu sinni mun ég þó ekki gera því máli skil, en grunur minn er sá, að fyrr eða síðar komi það mál meira til umr.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að umr. verði nú frestað og málinu vísað til hv. allshn.