18.05.1972
Sameinað þing: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í D-deild Alþingistíðinda. (3866)

277. mál, endurskoðun stjórnarskrárinnar

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Í s.l. mánuði flutti ég till. um endurskoðun stjórnarskrárinnar á þskj. 525. Samtímis flutti hv. 1. þm. Norðurl. e. Gísli Guðmundsson, aðra þáltill. um sama efni. Við flm. höfðum samráð um málið, bæði áður en till. voru fluttar og ekki síður eftir að þeim var vísað til hv. allshn. í Sþ. Upp úr þeim samtölum og umr. í n. varð niðurstaðan sú, að allshn. flytti þá till., sem hér liggur fyrir á þskj. 723, og varð um það full samstaða innan allshn. hjá öllum nm. og okkur flm. þessara tveggja till. Þessi till. allshn. kom hér til umr. fyrir tæpri viku síðan, til fyrri umr., og mælti formaður n., hv. 1. þm. Norðurl. e., fyrir till. Umr. urðu ekki frekari og virtist alger samstaða um málið.

Síðari umr. gerðum við ráð fyrir, að færi þá fram nú einhvern af síðustu dögum þingsins. Nú er ætlunin að slíta þingi á morgun, og í gær kom það í ljós, óvænt verð ég að segja, að innan ríkisstj. og stjórnarflokkanna var andstaða gegn því að afgreiða málið eins og það lá fyrir. Það var ljóst, að örðugleikar yrðu á því, þó að þingmeirihluti virtist vera fyrir þessu máli eins og það kom frá allshn., þá mundu örðugleikar á því að fá málið afgreitt nema samstaða tækist um það. Það hafa síðan farið fram í dag viðræður milli hæstv. forsrh. og mín og formanns þingflokks Framsfl. og raunar fleiri og niðurstaðan orðið sú, að samkomulag hefur náðst um að breyta till. hv. allshn. á þá lund, sem hv. 4. þm. Reykv. lýsti hér, og breytingarnar eru í rauninni tvær efnislega. Önnur er sú, að í stað þess, að nefndin samkv. upphaflegu till. skyldi skipuð sjö mönnum, sem kosnir væru hlutfallskosningu af Alþ., auk þess tveir menn frá lagadeild Háskólans, tveir frá Hæstarétti og einn frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, skuli nefndin aðeins skipuð sjö mönnum, sem allir skulu kosnir af Alþ. Ég vil taka fram, að ég tel, að hin fyrri tilhögun, eins og er samkv. till. allshn., sé æskilegri, en hef hins vegar fallizt á fyrir mitt leyti þessa skipan.

Hin breytingin er sú, að niður verði felld tímaákvörðun um það, að nefndin skuli miða störf sín við, að unnt verði að leggja stjórnarskrárfrv. nefndarinnar fyrir Alþ. 1974. M.ö.o., um þessa breytingu varðandi nefndarskipunina, að hafa ekki í nefndinni fulltrúa frá Hæstarétti, lagadeild eða Sambandi ísl. sveitarfélaga og að fella niður tímamarkið, hefur samkomulag náðst. Ég tel að vísu, að þessar breytingar séu ekki til bóta, heldur til hins lakara, en aðalatriði málsins er auðvitað það, að endurskoðun stjórnarskrárinnar komist í framkvæmd, og þó að nokkur skoðanamunur sé um skipun nefndarinnar og tímamörk, þá þýðir auðvitað ekki að setja það fyrir sig, ef aðalatriði málsins nást fram.

Ég lýsi því fyrir mitt leyti samþykki við þeirri till., sem hv. 4. þm. Reykv. lýsti, mun greiða henni atkv. og vænti þess, að till., svo breytt, nái endanlegri afgreiðslu nú á þessu þingi, svo að endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem svo lengi hefur verið beðið eftir, geti hafizt sem fyrst.