17.03.1972
Sameinað þing: 50. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í D-deild Alþingistíðinda. (3875)

165. mál, efni í olíumöl

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur að flytja hér þáltill. um að fullnýta þær vélar, sem til eru í landinu til að leggja olíumöl á þjóðvegi landsins. Með mér flytja þessa þáltill. hv. 2. þm. Sunnl., Ágúst Þorvaldsson, hv. 4, þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds. hv. 6. þm. Norðurl. e., Björn Jónsson, og hv. 5. þm. Austf., Vilhjálmur Hjálmarsson. Tillgr. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að stefna að því að fullnýta þær vélar. sem til eru í landinu til þess að leggja olíumöl á þjóðvegi landsins. Verði valdir til þess vegakaflar, með breytilegum jarðvegi í tilraunaskyni, í öllum fjórðungum landsins. Enn fremur verði gerð skipuleg leit að efni og það rannsakað fyrir þessa starfsemi.“

Vegakerfi landsins hefur oft verið nefnt lífæð þjóðfélagsins og er það a.m.k. í vitund íbúa hinna dreifðu byggða. Öll framleiðsla og félagsleg samskipti eru orðin þannig í okkar þjóðfélagi, að það kallar á óhindraðar samgöngur um allar byggðir hvern einasta dag. Spurningin er því: Ætlum við að stefna að því að reyna að viðhalda þeirri byggð, sem nú er í landinu, að mestu eða öllu leyti, eða ætlum við að láta skeika að sköpuðu í því efni? Telji menn, að það sé ekkert aðalatriði, að þjóðin byggi allt landið, þá er ekki óeðlilegt, að þeir hafi ekki áhuga á að hafa afskipti af þessum málum. En viðbrögð okkar, sem erum sammála um, að það sé þjóðfélagsleg nauðsyn, að þjóðin byggi landið allt og nýti þannig gæði þess, viðbrögð okkar hér á hinu háa Alþingi hljóta að verða í samræmi við þá skoðun og við gerum ráðstafanir til þess að verða við frumþörfum byggðarlaganna í þessu efni. Það eru að vísu fleiri frumþarfir en vegakerfið, en sé það skoðun meiri hl. hv. alþm., að vegakerfið sé lífæð byggðanna, þá hljóta þeir hinir sömu að vilja gera ráðstafanir til þess að koma þessum vegum í viðunanlegt horf.

Sú stefna, sem sumir virðast hafa tileinkað sér á undanförnum árum, að láta mælistikuna ráða í þessu efni, þ.e. að þar sem umferðin er mest, þar eigi fyrst og fremst eða einvörðungu að byggja upp vegakerfið, sú stefna hefur leitt til þess, að vegakerfið utan aðalveganna hér í næsta nágrenni höfuðstaðarins hefur verið smám saman að drabbast niður. Ef eftir þessari stefnu verður farið áfram, þá verður það til þess, að hinum ýmsu byggðum verður hætt. Við verðum að gera það upp við okkur, hvort við viljum stuðla að því, að allt landið haldist í byggð, og viðbrögð okkar við viðhald, lagfæringar og uppbyggingu á vegakerfinu verða að miðast við það, en ekki, hvar umferðin er mest. Á næstu árum verður að leggja höfuðáherzluna á það að lagfæra vegi og byggja upp þar sem þess er þörf úti á landsbyggðinni, en ekki láta stórframkvæmdirnar í kringum þéttbýliskjarnana ganga einvörðungu fyrir.

Þeir, sem þekkja á annað borð vegakerfið eins og það er víðast hvar í landinu, hljóta að viðurkenna, að því hafi hrakað á undanförnum árum. Viðhaldið hafi ekki verið nægjanlegt miðað við þá umferð og þá þungu bíla, sem nú verða að fara um vegina. Þegar votviðri er, þá eru þessir vegir í aur og holum, en í sumarveðri er rykský yfir þeim. Það var sérstaklega þurrviðrasamt á Norðurlandi í fyrrasumar og á aðalleiðinni til Akureyrar, t.d. í Kræklingahlíðinni, lá rykský yfir þessum vegi langtímum saman, þannig að stundum sást ekki nema örfáa metra fram fyrir bílinn, þegar maður ók um þennan veg, enda voru vegirnir á Norðurlandi eftir þetta sumar þannig, að allt það fíngerða var farið úr þeim út í veður og vind og ekkert nema það grófasta eftir. Ég er sannfærður um, að það voru margar millj., ef ekki milljónatugir, sem hafa rokið þannig út af vegunum á þessu eina sumri.

Hefur það verið rannsakað, hve mikið fjármagn fer á þennan hátt í súginn á hverju ári af öllum okkar vegum? Er mönnum ljós sú staðreynd, að mjög víða er ekkert nothæft efni að verða til í ofaníburð í vegina, nema aka því þá mjög langan veg, og stöðugt gengur á það, sem nothæft er í ýmsum héruðum? Það er að vísu hægt að mylja grjót, en hvað kostar það? Og þá vantar bindiefnið. Það getur því verið spurning, hvort það sé fjárhagslega hagkvæmt að mylja grjót eða aka ofaníburði mjög langan veg, sem lengist ár frá ári, láta það svo spýtast út af vegunum eða rjúka út í geiminn. Mér þykir líklegt, að það muni reynast hagkvæmara að binda þennan ofaníburð, t.d. með olíumöl og e.t.v. er það eina leiðin, er til lengdar lætur, til þess að halda vegakerfinu sæmilega við. Vegirnir eru nú víðast hvar það malarlitlir, eins og hefur komið fram hér á hv. Alþ., að þeir valda ekki þeirri umferð, sem um þá þarf að fara, og þarf ekki að lýsa því hér fyrir hv. alþm.

þáltill., sem hér er til umr., er að vísu ekki um uppbyggingu vegakerfisins, heldur um það að breyta til í vinnubrögðum eða gera tilraunir með nýjar aðferðir í sambandi við efsta lag veganna, slitlagið. Á undanförnum árum hefur töluvert magn olíumalar verið lagt á akvegi, bæði þjóðvegi og vegi í kaupstöðum. Sum byggðarlög, t.d. Garðahreppur og Kópavogskaupstaður, hafa notað olíumalarslitlag í mjög ríkum mæli og gefizt vel. Mér er sagt, að það hafi verið byrjað á þessu fyrir 9—10 árum, og ég held, að það hafi verið árið 1965, sem Kópavogskaupstaður lét leggja olíumöl ofan á sínar götur og án verulegrar undirbúningsvinnu. Má því segja, að þessi möl, sem ég veit ekki betur en hafi gefizt vel, gefi okkur vonir um, að þessi aðferð, að setja olíumöl á okkar gamla vegakerfi, ætti að sýna jákvæða niðurstöðu. Vegagerð ríkisins lét leggja olíumöl á 11 km vegarkafla árið 1970 í Svínahrauni, og í sumar var lagt á veginn í Ölfusi, í Kömbum. Ekki verður annað séð en að olíumölin ætli að standa sig vel á báðum þessum vegarköflum. en þess ber að geta, að undirbygging var gerð á fullkominn hátt. Undirbygging vega er mjög kostnaðarsöm, a.m.k. eins og framkvæmdin hefur verið hjá okkur. Það þarf ekki annað en að kynna sér kostnaðinn við þær hraðbrautaframkvæmdir, sem unnar hafa verið s.l. ár, til þess að sannfærast um það. Eflaust er æskilegasta leiðin að láta undirbyggja alla vegi undir varanlegt slitlag, en þegar athugað er, hvað það fjármagn er takmarkað, sem við getum ráðstafað til vegakerfisins, og hins vegar það, hvað þörfin er mikil á skjótu átaki í þessum efnum, er ljóst, að við verðum að leita annarra úrræða, ef við eigum ekki að búa við svipað ástand í vegamálum um langa framtíð eins og verið hefur, nema aðeins í næsta nágrenni við stærstu þéttbýlisstaðina.

Sagt er, að Norðmenn, Svíar og Finnar noti í ríkum mæli olíumöl á sína gömlu vegi, hafi lítillega lagfært þá áður. Hér á landi er olíublöndunarstöð mjög fullkomin, að því er mér er sagt. Getur hún blandað um 90 tonn á klukkutíma, sem eru um 53 rúmmetrar, en það svarar til 6.000 fermetra á 8 klst. vinnudegi miðað við þá venjulegu þykkt, sem höfð er, þ.e. um 5—6 cm þykkt lag. Væri vegurinn 6 metra breiður, eins og flestir vegir okkar eru, þá mundi vera hægt að leggja á um það bil einn km á hverjum vinnudegi. Veðurfar skiptir ekki miklu máli við þessa vinnu, því að stöðin er búin þurrkara, sem skilar efninu hæfilega þurru til blöndunarstöðvarinnar. Stöðin er hreyfanleg og mjög auðvelt að fara með hana milli landshluta. Reikna má með því, að framleiðsluverð olíumalar sé um 40% olíuverðið. Það er því mikilvægt, að olíuinnkaup séu sem hagkvæmust. Verði mikil aukning á notkun olíu til þessarar starfsemi, er sennilegt, að hægt væri að lækka einingarverð hennar til muna með hagkvæmari innkaupum.

Á s.l. ári var kostnaður við olíumöl hjá blöndunarstöðinni um 1.000 kr. hver rúmmetri, en áætlað er, að hver rúmmetri sé á um það bil 15—18 fermetra vegar. Gera má ráð fyrir því, að gömlu vegirnir okkar séu misjafnlega vel fallnir til þess að leggja á þá slitlag. En þar sem þeir hafa verið endurbyggðir á s.l. árum, þá má gera ráð fyrir, að á þá kafla mætti leggja olíumöl með tiltölulega litlum undirbúningskostnaði. Hins vegar þarf að fá úr því skorið, hvernig olíumöl reynist á gömlu vegunum okkar, og því telja flm. þessarar þáltill., að ekki megi dragast lengur, að slíkar tilraunir séu gerðar og það á sem breytilegustu landi og jarðvegi og í öllum landsfjórðungum. Ef þessi aðferð gefst sæmilega, þarf að fullnýta þær vélar, sem til eru í landinu til þess að setja slitlag á vegina, og við það mundi einingarverð lækka frá því, sem nú er. Mikilvægt er talið að fá sem bezt efni í blöndunina, og er því nauðsynlegt að láta rannsaka efni sem víðast á landinu til þessarar starfsemi, því að talsverður aukakostnaður mundi verða því samfara, ef flytja þyrfti möl langar leiðir. Ryklausir og holulausir vegir eru það, sem við hljótum að stefna að. Það er líka kannske eitt það nauðsynlegasta, ef við ætlum að stefna að því að fá hingað til landsins aukinn ferðamannastraum. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að eitt af því þýðingarmesta, sem við verðum að gera í því sambandi, er að gera vegina ryk— og holulausa. Það verða margir áratugir, þangað til það verður, nema okkur takist að setja slitlag á gömlu vegina okkar, slitlag, sem hefur sæmilega endingu. Því er þessi þáltill. fram borin.

Ég tel það mjög mikilvægt, að þessi tilraun verði gerð á næsta sumri og það helzt í öllum landsfjórðungum. Ég fyrir mitt leyti hef mikinn áhuga á því, að vegurinn í Kræklingahlíð verði einn af þeim vegum, sem fyrst verður lagt á. Hann liggur um mýrarjarðveg, og eins og ég sagði áðan, er í þurrkatíð mjög mikið ryk á þessum vegi, og hann er oft í mjög slæmu ástandi að öðru leyti. Á þessum vegi er mjög mikil umferð og ef olíumöl mundi standa sig þar vel, einmitt á svona vegi, þá held ég, að það mundi gefa okkur vonir um, að þarna sé fundin hin rétta aðferð í sambandi við slitlag á okkar vegakerfi yfirleitt. Ég held, að tækni nútímans hafi fleygt það mikið fram, að ekki sé eins nauðsynlegt og áður var að byggja vegina mjög mikið upp, nema þá helzt í þeim héruðum; þar sem snjóalög eru mest. Nú eru komnir snjóblásarar, og þó að við höfum ekki mjög mikla reynslu af þeim enn, þá höfum við þó haft not af a.m.k. einum snjóblásara síðustu árin, sem gefur vonir um, að þarna muni vera hin rétta aðferð til þess að losa okkur við snjó af okkar vegum. Þessi blásari er að vísu of lítill að margra dómi til nota í þeim byggðarlögum. sem snjóþyngst eru, en það er hægt að fá miklu öflugri snjóblásara og sjálfsagt að fá meiri reynslu af þessari merkilegu tækni. Það örðugasta, sem verður í sambandi við að setja olíumöl á gömlu vegina, er það að losna við vatnið frá þeim og úr þeim. En það er verkefni, sem þarf að framkvæma, hvort sem á vegina verður sett olíumöl eða ekki.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu. Ég legg til, að umr. verði frestað og þáltill. verði vísað til hv. allshn.