18.05.1972
Sameinað þing: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í D-deild Alþingistíðinda. (3879)

165. mál, efni í olíumöl

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til meðferðar till. til þál. á þskj. 316, um að fullnýta þær vélar, sem til eru í landinu til að leggja olíumöl á þjóðvegi landsins. En í þessari till. felst jafnframt áskorun um það, að gerð verði skipuleg leit að efni og það rannsakað fyrir þessa starfsemi. Allshn. var þeirrar skoðunar, að í rauninni hefði verið réttara að vísa málinu til hv. fjvn. og þess vegna sendi hún málið fjvn. til umsagnar, en aflaði jafnframt umsagnar frá Vegagerð ríkisins. Síðan barst allshn. umsögn frá hv. fjvn., þar sem hún leggur til, að till. verði samþ. með tilteknu orðalagi, og er það orðalag í samræmi við till. Vegagerðar ríkisins um það efni. Hér er í raun og veru um það að ræða að samþykkja síðari hluta till. Það varð samkomulag í n. um að afgreiða málið á þennan hátt og mælir hún með því, að till. verði samþ. með þeirri breytingu, sem orðuð er í nál. á þskj. 889.