04.11.1971
Sameinað þing: 10. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í D-deild Alþingistíðinda. (3908)

27. mál, fóstureyðingar

Flm. (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Á þskj. 27 hef ég flutt þáltill. þá, sem hér liggur nú fyrir hinu háa Alþingi og er á þá leið, að Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta endurskoða núgildandi lög um fóstureyðingar og leggja fram frv. þess efnis á næsta þingi. Það fer ekki á milli mála. að núverandi löggjöf um fóstureyðingar er gölluð og úrelt, enda er hún gömul, frá 1935. Í grg. með till. er vikið að nokkrum ágöllum hennar og vísast til grg., en helzt sker í augu réttindaleysi þeirra kvenna, sem í hlut eiga. En hér er sem betur fer rökstuðningur óþarfur, og get ég verið fáorður, þar eð hæstv. heilbrmrh.. Magnús Kjartansson, hefur tjáð mér, að forveri hans í embætti, hv. 1. landsk. þm., Eggert G. Þorsteinsson, hafi 5. marz 1970 skipað að tilhlutan landlæknis þriggja manna nefnd til að endurskoða fóstureyðingarlög svo og gildandi löggjöf nr. I5 frá 1938, um afkynjanir og vananir. Er það að sjálfsögðu mjög mikið fagnaðarefni, að þessi mál í heild skuli þegar hafa verið tekin til endurskoðunar. Í ofangreinda nefnd voru upphaflega skipaðir þeir prófessorarnir Pétur Jakobsson. Sigurður Samúelsson og Tómas Helgason, en sú breyting hefur á orðið, að prófessor Sigurður hefur horfið úr nefndinni sökum annríkis, en Guðrún Erlendsdóttir lögfræðingur tekið sæti hans. Ég vil beina því til núv. heilbrmrh., hvort ekki væri rétt að fjölga um einn eða tvo í nefndinni, þannig að leikmenn úr hópi kvenna gætu látið að sér kveða. Sérfræðingar eru að sjálfsögðu nauðsynlegir, en fóstureyðingar, afkynjanir og vananir, eru ekki eingöngu læknisfræðilegs eðlis, heldur og varða þau almennan rétt þegnanna í þjóðfélaginu og réttindi kvenna og karla til sjálfsákvörðunar í þessum efnum.

Mér hefur skilizt, að störf nefndarinnar séu fremur skammt á veg komin. Að vísu er rétt að kasta ekki höndum til svo veigamikillar lagasetningar sem hér um ræðir, en engu að síður vænti ég þess, að heilbrmrh. muni búa svo um hnútana, að nefndinni reynist unnt að ljúka störfum eins fljótt og kostur er.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til, að till. þessari verði vísað til allshn. og sýni hið háa Alþingi þannig áhuga sinn á málinu og vilja, enda er gert ráð fyrir því í till., að endurskoðun fóstureyðingarlaganna verði hraðað, svo að frv. geti legið fyrir næsta þingi.