16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í D-deild Alþingistíðinda. (3919)

47. mál, málefni barna og unglinga

Flm. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Svo sem fram kemur í upphafi þeirrar þáltill., sem er á þskj. 48 og útbýtt var 28. okt. s.l., og í grg. till., sem hér er flutt, er okkur flm. ályktunarinnar kunnugt um, að um þessar mundir er nefnd, sem skipuð var árið 1967 af heilbr.— og trmrn., sem þá var að vísu í tveimur rn., félags— og heilbrmrn. til þess að gera till. um úrbætur í málefnum aldraðra, um það bil að skila áliti til rn. Þess er að vænta, að till. nefndarinnar birtist í frv. formi frá ríkisstj. innan ekki langs tíma eftir að það hefur hlotið þar verðuga athugun. Með hliðsjón af þessari vitneskju þykir okkur flm. eðlilegt og sjálfsagt, að málefni barna og ungmenna fái hliðstæða athugun, sem væntanlega gæti framkallað nauðsynlegar endurbætur á þeim. Þessi nauðsyn verður enn ljósari, þegar tekið er tillit til þeirra rannsókna, sem fram hafa þegar farið á vegum ýmissa bæjar— og sveitarfélaga að undanförnu á hinum ýmsu tegundum barnaheimila og þeirri þjónustu— og leiðbeiningarstarfsemi, sem nauðsynlegt er að reka í sambandi við þau. Sé í þessu sambandi tekið sérstakt mið af athugun Reykjavíkurborgar, er augljóst, að enn mun langur tími líða, þar til umtalsverðar úrbætur fást um byggingu slíkra heimila án þess að til komi ríkisstyrkur við sjálfan stofnkostnaðinn, þ.e. við byggingu heimilisins og búnað þess. Mun þó Reykjavíkurborg hafa gert stærstu átökin í þessum efnum til þessa. Til þess að slíkur ríkisstyrkur eigi sér stað, mun eðlilegt, að hið opinbera hafi áður forgöngu um athugun á þörf hinna ýmsu bæjarfélaga fyrir þessa nauðsynlegu þjónustu, fyrir foreldra og yngstu kynslóðina í hinum ýmsu bæjar— og sveitarfélögum. Niðurstaða þeirrar könnunar, sem till., sem hér er til umr. gerir ráð fyrir, yrði síðar notuð til hliðsjónar við ákvörðun um, hver hluti ríkisins skuli vera og í hvaða röð bæjarfélögum verði úthlutað stofnstyrkjum til slíkra framkvæmda.

Óþarft er að rekja í löngu máli nauðsyn á skipulögðu framhaldi þessara bygginga, svo samsnúin sem þau eru breyttum þjóðfélagsháttum, þá ekki sízt í atvinnumálum og félagslegum breytingum þeirra eldri, þ.e. foreldranna, á undanförnum áratugum. Í því efni nægir að benda á, að ungu og dugmiklu fólki, sem vill leggja á sig vinnu, sem býðst, eru nánast allar bjargir bannaðar til að notfæra sér þessa vinnu, hafi það eignazt börn, áður en heimili var fjárhagslega upp byggt, þ.e. þak var komið yfir höfuð fjölskyldunnar, að ekki sé talað um að létta á skuldum í því sambandi. Enn þá er þó lakari aðstaða einstæðra foreldra, karls eða konu, sem bundin eru við heimili vegna barns eða barna sinna. Ástæðurnar eru margs konar og óþarft að rekja hér. Það er nauðsynlegt og gott að auka opinberar tryggingar til þessa fólks, og það hafa verið gerðar tilraunir í þá átt, en það dregur ekki úr nauðsyn þess, að þjóðinni er brýn þörf á að nýta allt það vinnuafl, sem kostur er á í hinum mismunandi starfsgreinum þess, og má þá m.a. benda á heilbrigðisþjónustuna. Tilkoma ríkisins eða lagasetning, sem ekki er til í dag, um þátttöku í stofnkostnaði þessara heimila, er því ekki aðeins nauðsynleg til að tryggja, að fleiri byggingar verði byggðar, heldur og einnig til þess, að möguleikar skapist á því að lækka framlag eða hlutdeild aðstandenda barnanna, sem of mörgum reynist ofviða að bera, þótt þeir séu svo lánsamir að eiga kost á rúmi fyrir barn sitt eða börn á þeim heimilum, sem fyrir eru í landinu. Það gefur því auga leið, að hlutdeild ríkisins í sjálfum stofnkostnaðinum, sem enn þá er ekki til, og e.t.v. aukin þátttaka þess í rekstrarkostnaði slíkra heimila á að létta útgjaldabyrði bæjar— og sveitarfélaganna, sem að sjálfsögðu á að koma fram í lækkuðu framlagi forráðamanna þeirra barna, er vistar njóta á umræddu heimili. En þau vistgjöld hafa á undanförnum árum verið um og yfir helmingur kostnaðar eða frá 48—56%. Nágrannar okkar á Norðurlöndum hafa í skipulagningu og rekstri hinna ýmsu greina barnaheimila langa og haldgóða reynslu, sem sjálfsagt má margt gott af læra, og væri af þeim ástæðum lærdómsríkt fyrir þá aðila, sem athugun þessi yrði falin, að kynna sér þá reynslu, a.m.k. þau atriði, sem geta átt við íslenzkar aðstæður. Fyrstu almennu áhugamannafélögin um þessi efni á Norðurlöndum munu hafa verið stofnuð á árunum um og eftir heimsstyrjöldina, og enn þá eldri slík félög eru til þar eða allt frá árinu 1837, er fyrst voru mynduð samtök um að hjálpa börnum, sem höfðu orðið brotleg við hin borgaralegu lög og hlotið refsingu fyrir. Af því, sem að framan er sagt, má öllum ljóst vera, að brýna nauðsyn ber til, að þessi málaflokkur félagslegra framfara fái rækilega og gaumgæfilega athugun, sem síðan mætti reisa á framfarastig okkar í þessum málum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til, nema frekari tilefni gefist, að hafa um þessa till. fleiri orð. Hún skýrir sig að öðru leyti sjálf. En ég óska þess, að, að loknum umr. um till. á þessum fundi, verði málinu frestað og vísað til hv. allshn.