08.12.1971
Neðri deild: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

119. mál, verðlagsmál

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. Mér datt að sjálfsögðu aldrei í hug, að hæstv. ráðh. gæti veitt þess konar svör við spurningum mínum, að í þeim fælust upplýsingar um, hversu mikið verðlag á einstökum vörum mundi breytast, hversu mikið álagning mundi hækka eða hversu mikið verð á landbúnaðarvörum mundi hækka. Það datt mér auðvitað aldrei í hug. En ég gerði mér von um, að hæstv. ráðh. gæti gefið almenna stefnuyfirlýsingu af hálfu ríkisstj. um það, hvers konar fyrirmæli hann mundi gefa fulltrúa sínum, oddamanni í verðlagsnefnd. Svör hæstv. ráðh. voru þannig, að ég get ekki skilið þau, og enginn, hygg ég, með sanngirni getur skilið þau öðruvísi en þannig, að búast megi við verulegum verðhækkunum í kjölfar þeirra samninga, sem gerðir hafa verið. Og þetta er svar út af fyrir sig, þótt ég hefði búizt við því, að það gæti orðið skýrara en það var í raun og veru.