07.12.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í D-deild Alþingistíðinda. (3935)

84. mál, landgræðsla og gróðurvernd

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Aðallega til þess að hv. 2. flm. fái dálitla bið, vil ég segja fáein orð um þessa till.

Ég fagna því, að þessu mjög mikilvæga máli er hreyft hér á Alþ., og ég get fyrir mitt leyti tekið undir allan þann rökstuðning, sem kemur fram í grg. með till., rökstuðning fyrir aukinni landgræðslu og gróðurvernd. Það hygg ég, að sé allt rétt og vel fram sett.

Ég get hins vegar ekki varizt þeirri hugsun, að þarna sé verið að setja eina silkihúfuna ofan á aðra. Staðreyndin er nú sú, að þær stofnanir, sem að landgræðslu og gróðurvernd vinna, eru að vísu nokkuð margar, en þær hafa, hygg ég, flestar unnið mjög gott starf. Þar má fyrst nefna Landgræðslu ríkisins, sem hefur aukizt mjög upp á síðkastið og gert margt gott. Þar má nefna starfsemi Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, sem vissulega mætti vera meiri og einkum fjallar um undirstöðurannsóknir á gróðurfari landsins. Engu að síður er það staðreynd, að starfsemi þar hefur aukizt verulega upp á síðkastið. Að vísu hefur ekki fengizt eins mikið opinbert fjármagn og æskilegt væri. Að sumu leyti hefur verið unnið og raunar að verulegu leyti fyrir erlenda styrki. Einnig mætti nefna Skógrækt ríkisins, sem vinnur að mikilvægum þáttum þessa máls, og raunar fleiri.

Ég get fallizt á það, að meiri samræmingu þurfi. Sérstaklega þarf þá að auka þessa starfsemi verulega, og ég hygg, að sú fimm manna landgræðslunefnd, sem lagt er til að sett verði á fót, gerði meira gagn með því að endurskoða skipulag þessara mála og leggja fram till. um bætt skipulag, vitanlega fyrst og fremst með það í huga, að þessar stofnanir vinni sem bezt saman og átakið á þessu mikilvæga sviði verði meira.

Þetta vildi ég láta koma fram. Ég fagna því fyrir mitt leyti, eins og ég sagði í upphafi, að þessu mikilvæga máli er hreyft, en ég efast um, að það fyrirkomulag, sem hér er lagt til, að á verði haft, sé til bóta.