27.01.1972
Sameinað þing: 31. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í D-deild Alþingistíðinda. (3939)

84. mál, landgræðsla og gróðurvernd

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég álít, að þessi þáltill., sem hér liggur fyrir, sé góðra gjalda verð, eins og allt, sem styður þau mál, sem hún fjallar um, landvernd og gróðurvernd. Ég tel, að margt, sem í grg. þáltill. segir, sé skörulegt innlegg í þetta mál, og sömuleiðis tek ég undir flest af því, sem frsm. till. sögðu. En ég tel rétt að segja nokkur orð almennt um þetta mál af ástæðum, sem ég greini síðar í mínu máli, og þá til íhugunar fyrir þá hv. n., sem mál þetta fær til meðferðar.

Það þarf ekki að draga það í efa, að landið hefur goldið mikið afhroð í skiptum sínum við landsmenn þau tæplega 1.100 ár, sem það hefur verið byggt. Þetta mætti t.d. orða þannig, að landið hafi goldið líf þjóðarinnar dýru verði. En ekki hygg ég skynsamlegt að ásaka neinn, því að hér var um líf eða dauða að tefla oftast nær, og víst ekki annarra kosta völ en þeirra, sem til var gripið til þess að bjarga því, sem bjargað varð. Mun okkur hæfa hógværðin bezt, þegar við minnumst þess, sem orðið hefur í þessu efni, og mundi víst hafa vafizt fyrir okkur að finna önnur ráð en þau, sem notuð voru, þótt þau gengju stundum nærri landinu.

Æðimargir áratugir eru nú liðnir síðan verulegur áhugi vaknaði fyrir því að snúa við á þeirri braut, sem fyrri tíðar menn neyddust til að ganga í sambúð sinni við landið, og ekki er um að efast, að stórvirki hafa verið unnin, og hafa bændur landsins verið fremstir í flokki með stórfellda ræktun og ræktunarbúskap í vaxandi mæli, og fyrst og fremst er það breyttum búskaparháttum þeirra að þakka, að betur horfir nú þrátt fyrir allt í þessum efnum en löngum áður, og það þrátt fyrir stórauknar landsnytjar. Þá hafa sandgræðslumenn og skógræktar komið til, bæði áhugalið og sveitir ríkisins. Loks hafa og mest síðustu árin flykkzt að flokkar áhugamanna úr öllum áttum til þátttöku í landgræðslustarfi og gróðurvernd með margvíslegum hætti. Fjölmenn samtök hafa verið mynduð, sem teygja sig um gjörvallt landið og beita sér að landvernd og náttúruvernd, og ungmennafélögin hafa gengið í verkið af mikilli atorku.

Fyrri tíðar menn höfðu mjög óhæga stöðu í þessu tilliti, því að ofan á knýjandi lífsnauðsyn, sem þröngvaði þeim til þess að ganga freklega á landið, bættust erfiðleikarnir á því að gera sér grein fyrir, hvernig raunverulega var ástatt, hvað raunverulega var að gerast, og satt að segja hefur það vafizt fyrir mönnum fram undir þetta að komast eftir því, hvar þjóðin var á vegi stödd í sambúð sinni við landið. Nú vitum við á hinn bóginn, að þrátt fyrir stórsókn síðustu áratuga í rétta stefnu eyðist gróður enn á stórum svæðum, jafnvel sumum, sem við köllum gróin. Vísindamenn okkar vita, að þjóðin hefur mjög miklu af gróðurlendinu tapað á þeim nálega 1.100 árum, sem hún hefur búið í landinu. En það, sem mestu skiptir, er þó sú vitneskja, að þetta land, sem tapazt hefur, er hægt að græða og halda því, sem eftir er, og bæta það, og menn vita nú í aðalatriðum, hvernig á að fara að því. En þar er að sjálfsögðu ekki um neina eina aðferð að ræða, heldur mörg úrræði, sem verða að fara saman.

Þó er hér í raun og veru einungis um eitt mál að fjalla, ef rétt er skoðað, þótt margþætt sé, því að landgræðsla og hagnýting landsins verða hér sem sé að einu máli, ef vel á að farnast. Það er undirstaða alls, að okkur skiljist öllum þau grundvallarsannindi, að landgræðsla og skynsamleg og hófleg nýting gróðursins verða að fara saman og þetta verður ekki slitið í sundur.

Enginn ágreiningur er um það, að stórefla verður sóknina í landgræðslu— og gróðurverndarmálum, og er áhugi svo almennur um þau efni, að þjóðarvakningu má nálega kalla. Mest veltur hér á bændastéttinni sem fyrr, og kemur til aukinn ræktunarbúskapur og skynsamleg hagnýting þeirrar vitneskju, sem menn hafa aflað sér og eru að afla sér um hyggilega notkun gróðurlandsins, m.a. og ekki sízt til beitar. En bændur munu ekki standa einir í þessum landgræðslumálum. því að til liðs koma heilir herskarar áhugafólks úr öllum stéttum þjóðfélagsins, sem með margvíslegu móti leggja nú þegar hönd á plóginn og vilja gera meira. Nefna mætti falleg dæmi í þessu efni, hvernig þessi áhugi kemur fram í verki nú, en hér læt ég eitt nægja. Það er þetta, að flugmenn bjóðast nú til að fljúga landgræðsluflugvélum í sjálfboðavinnu. Kannske er það þeim hvatning, flugmönnunum, að þeir sjá manna bezt úr loftinu, hvar skórinn kreppir. Eskilegt væri að nota sér þetta drengilega boð flugmannanna.

Í þessu efni verður tvímælalaust að sækja fram á mörgum vígstöðvum. Það er almenn ræktun, ræktun beitilanda sérstaklega, sandgræðsla, skógrækt, friðun ýmiss konar á mörgum stigum, fyrirhleðslur vatna, svo að nokkuð sé nefnt, og samstarf um skynsamlega notkun beitilandanna. Verkefnið er þá m.a. að búa vaxandi bústofni góð beitilönd og hlífa þeim, sem vægðar þurfa við.

Í þessu sambandi þykir mér rétt að skýra frá því, þó að það hafi verið gert áður utan þings, og rifja það upp, að í málefnasamningi stjórnarflokkanna er m.a. eitt ákvæði um, að ríkisstj. vilji beita sér fyrir því, að gerð verði heildaráætlun um alhliða landgræðslu og skipulega nýtingu landsgæða. Og ekkert er á móti því að festa það í þingtíðindunum, að í samræmi við þetta hefur hæstv. landbrh. skipað sjö manna nefnd til þess að gera till. um, á hvern hátt heppilegast muni vera að vinna að gerð slíkrar áætlunar.

Ég tók að mér samkv. beiðni að verða formaður í þessari nefnd, og má vel vera, að ég hafi látið áhugann bera skynsemina ofurliði að gefa kost á slíku. En hvað um það, með mér eru í nefndinni sex úrvalsmenn, sem þessum hnútum öllum eru býsna kunnugir, og úr ýmsum áttum komnir, eins og skynsamlegt er, þegar um slíkt verkefni er að ræða. En .þeir eru Jónas Jónsson deildarstjóri í landbrn., Ingvi Þorsteinsson náttúrufræðingur, Haukur Ragnarsson tilraunastjóri, Pálmi Jónsson alþm., Sigurður Blöndal skógarvörður og Þorvaldur G. Jónsson fóðureftirlitsmaður.

Nefndin hefur byrjað starf sitt, byrjaði nokkuð fyrir jólin og hefur haldið nokkra fundi í janúarmánuði. Hér er um ákaflega víðtækt og vandasamt verkefni að ræða, og mun verða lögð megináherzla á náið samstarf við þá, sem í fylkingarbrjósti hafa staðið í ræktunarmálum alls konar, landgræðslu og gróðurvernd og bezt þekkja til þeirra mála. Höfuð áherzla verður lögð á að reyna að samstilla krafta þeirra mörgu einstaklinga, félagssamtaka og stofnana, sem hér koma til, leggja svo niður fyrir sér, hvað að hafast þarf af þjóðfélagsins hálfu, svo að veruleg stefnuhvörf megi verða. Aldrei má missa sjónar á því, að mestu skiptir, þegar til kemur, að sem flestir leggi hér hönd á plóginn, hver eftir sinni aðstöðu og getu, og einnig verða menn að hafa auga á því, að hér er það fyrst og fremst bændastéttin, sem hefur þýðingarmesta hlutverkinu að gegna, og samstarf við bændur og samtök þeirra verður þess vegna að vera sterkasti þátturinn .í öllum undirbúningi þessa máls á öllum stigum þess.

Það mundi vafalaust reynast mjög farsælt, ef menn tækju sig til í öllum héruðum landsins og gerðu sér grein fyrir því með ráði beztu manna heima fyrir og hjálp þeirrar vitneskju, sem vísindamenn okkar hafa aflað og menn eiga aðgang að, hvernig menn eru á vegi staddir í þessum efnum í sínu eigin héraði og hvað þeir teldu vænlegast til úrbóta í því héraði, sem bezt þekkja til málanna þar. Gæti slík úttekt á ástandinu heima fyrir, gerð af heimamönnum í samráði við sérfræðinga, orðið með öllu ómetanlegur leiðarvísir í því starfi, sem fram undan er.

Ég held, að ég megi fullyrða, að þetta sé meginhugsun nefndarinnar, að einmitt á þessa lund sé skynsamlegt að taka upp þessi mál, og nefndin hefur í því skyni ákveðið að fara fram á það við búnaðarsambönd og gróðurverndarnefndir í hverju héraði, að búnaðarsamböndin og gróðurverndarnefndirnar sameiginlega, einmitt sameiginlega, geri úttekt á þessum málum. Með þessu vilja menn leggja höfuðáherzluna á, að hér sé í raun og veru um eitt mál að ræða, landgræðsluna og hagnýtingu gróðurlendisins. Að því leyti, sem nefndin þekkir undirtektir búnaðarsambanda og gróðurverndarnefndanna um þetta, þá hafa þær verið með alveg sérstökum ágætum. Þótt ekki sé komið langt í því að hafa samband við þessa aðila, þá hefur það þegar komið í ljós, að á vegum sumra búnaðarsambanda er nú þegar byrjað að koma í framkvæmd alhliða athugun á þessum málum í þá stefnu, sem ég greindi áðan, og það áður en okkar nefnd hafði nokkurt samband við þau. Þetta sýnir, hvernig menn líta á þessi mál heima fyrir víða og á vegum bændasamtakanna.

Þá hefur nefndin einnig haft nú þegar samband við æðimarga forustumenn þeirra félagssamtaka, sem hér koma mest við sögu, félagssamtaka bændanna og forráðamenn þeirra stofnana, sem mest hafa unnið að þessum málum, og þá náttúrlega fyrst og fremst landgræðslustjóra, sem haft hefur forustu fyrir sjálfu landgræðslustarfinu, sem unnið hefur verið á vegum ríkisins, og svo skógræktarstjóra og aðra, sem vinna í þessum greinum.

Höfuðáherzlu leggur nefndin á að fá þessa vinnu unna heima fyrir á þá lund, sem ég greindi, og hefur farið fram á, að eins konar bráðabirgðaúttekt yrði gerð víðs vegar um landið núna í vetur, sem gæti komið til skoðunar í aprílmánuði eða svo, og vonar nefndin, að þá mundi verða mun auðveldara að átta sig á þessu verkefni með vorinu, þegar þessar bráðabirgðaskýrslur lægju fyrir. Þá hefur nefndin gert ráð fyrir því, að nánari athuganir færu fram heima fyrir og niðurstöður þeirra gætu ekki legið fyrir fyrr en næsta haust. Einnig hefur nefndin farið fram á, að stofnanir þær, sem mest vinna að þessum málum, létu einnig í té álit fyrir vorið, en bættu síðar við eftir því, sem ástæða þætti til.

Mér þótti rétt, að þessar upplýsingar kæmu fram til íhugunar fyrir þá þingnefnd, sem fær þetta mál til meðferðar og skoðunar hér á hv. Alþ.

Fyrst ég er nú farinn að ræða þetta mál hér á annað borð, vil ég einnig minnast á annan þátt þess, sem vafalaust kemur einnig inn í þetta á síðara stigi. Ég tel rétt í framhaldi af því, sem ég hef sagt um landvernd og gróðurvernd og hagnýtingu gróðurlendisins sjálfs, að vekja athygli á þessum öðrum þætti þessara mála, sem ég geri ráð fyrir, að hin stjórnskipaða nefnd telji sér skylt að íhuga. Þar á ég við afnot þjóðarinnar af landinu öllu í víðtækasta skilningi og að hverju stefna beri í því sambandi.

Við Íslendingar lítum vafalaust á okkur sem fátt fólk í stóru landi. Þetta er nú víst rétt, og þó er landið kannske ekki jafnstórt og við höfum haldið miðað við allt, sem við viljum. að fari fram á því.

Til hvers viljum við nota landið? Við viljum nota landið í mörgu skyni. Fyrst og fremst til búskapar. Það kemur auðvitað efst í hugann, því að löngum mun það verða svo, að mestur hluti landsins, hins gróna lands, verður notaður til búskapar. En við viljum einnig nota landið til þess að skemmta okkur á því, til þess að umgangast það, til þess að stunda á því íþróttir og ferðalög, svo að nokkuð sé nefnt. Til þess að reisa á því kauptún, kaupstaði og borgir. Og loks mætti nefna, að menn vilja einnig varðveita ósnortið land.

Nú er spurningin: Er auðvelt verk að koma þessu öllu haganlega fyrir og árekstralítið, búskap, þéttbýli, þeirri umgengni við landið, sem lífsnauðsynleg er almenningi vaxandi þéttbýlisþjóðar og varðveizlu ósnortinna úrvalssvæða? Líklega er tímabært að spyrja sjálfan sig þessarar spurningar, hvort þetta sé auðvelt, jafnauðvelt og við fram að þessu höfum álitið. Líklega er þetta ekki auðvelt, en kleift samt, ef góð ráð eru tekin í tíma.

Reynslan sýnir vaxandi vandamál varðandi skynsamlega tilhögun landsnytjanna í víðtækustu merkingu þess orðs. Þessi vandamál snerta bæði dreifbýlisfólkið og íbúa þéttbýlisins. Jarðir eru lagðar skipulagslaust til annarra nytja en búskapar, svo að til vandræða horfir í sumum byggðarlögum. Sumarbústaðamálið þróast mjög á ringulreið, svo að miklum vandkvæðum veldur víða. Látlaust verður erfiðara og erfiðara fyrir þéttbýlisfólk að lifa eðlilegu ferða— og útilífi og umgangast landið frjálslega, án þess að valda átroðningi. Lengi mætti rekja dæmi um þessi efni, þessi vandamál eða viðfangsefni og aðra skylda þætti. Um þessi vandamál er að vísu fjallað í mörgum lagabálkum með ýmsu móti. Við getum nefnt í því sambandi skipulagslöggjöfina, náttúruverndarlöggjöfina, ábúðarlögin og margs konar lög um lífið í sveitunum. Ég nefni aðeins þessa þrjá lagabálka, svo að eitthvað sé nefnt. Ýmsir kraftar vinna góð störf í rétta átt og til umbóta í þessu efni. Samt er ástandið áreiðanlega talsvert alvarlegt og fer versnandi í þessu tilliti. Heildarstefnuna vantar í raun og veru og samræmingu átakanna og samstillingu þeirra krafta, sem þyrftu að vera að verki til þess að koma þessu vel fyrir.

Til þess að skýra ögn betur, hvað ég á við, þegar ég tala um að nýta landið, mætti gera tilraun til þess að flokka landsnytjarnar. Það má gera með margvíslegu móti. Ég vil gera eina tilraun með örfáum orðum, en slíkt er með engu móti tæmandi og mætti gera með allt öðru móti og er aðeins gert til þess að vekja menn til umhugsunar um þetta mál, og e.t.v. tekst að varpa ljósi á það með því að setja það þannig upp. Við getum flokkað landið í nokkra flokka í þessu sambandi. Við skulum segja t.d. sex flokka. Við setjum auðvitað efst búskaparlandið. Það er fullræktað land og hálfræktaðir og óræktaðir hagar og afréttir, — búskaparlandið í einum flokki. Síðan gætum við sett land kauptúna, bæja og borga. Í þriðja flokk setjum við þá það land, sem við hugsum okkur, að ætti að vera til skógræktar, bæði nytjaskóga og annarra skóga. Í fjórða flokki höfum við þá útivistarlönd og friðlönd og þjóðgarða, þ.á.m. lönd fyrir íþróttir og útilíf með margvíslegu móti að meðtalinni hestamennsku og öllu því, sem er í kringum hestamennsku þéttbýlisins. Í fimmta flokki mætti hafa sumarbústaðalönd. Sumarbústaðir eru ágætir og þurfa að vera til, en skynsamlegt er og aðkallandi að ætla þeim sérstök svæði. Í sjötta lagi mætti hafa sér í flokki það land, sem kalla mætti land í hjúkrun. Það verður alltaf mjög mikið land, sem þarf að vera í hjúkrun. Það eru uppgræðslusvæði og svæði, sem þarf sérstaklega að hlífa til þess að bæta þau og leyfa þeim að gróa.

Ég nefni aðeins þessa sex flokka til þess að reyna að skýra, hvað fyrir mér vakir með því að segja, að þetta málefni, hvernig nýta beri landið í allra víðtækustu merkingu þess orðs, sé orðið að aðkallandi vandamáli, sem þarf að taka skynsamlegum tökum, — mál, sem ekki er einfalt í meðförum, og það efni þarf að ræða meira en gert hefur verið. Ef menn gátu fundið leiðir til þess að gera í stórum dráttum áætlun á einhverjum grundvelli, t.d. líkum þeim, sem ég nefndi, eða einhverjum öðrum, um skynsamlega notkun landsins alls, væri það mikill ávinningur. Þetta verkefni þarf að kryfja til mergjar í samráði við þá, sem mest eiga hér hlut að máli, fyrst og fremst bændastéttina og sveitarfélögin og svo þær stofnanir, sem einstaka þætti hafa með höndum, félagssamtök almennings, sem þessi mál snerta, o. s. frv.

Þá kæmi framkvæmdin, hver hún ætti að verða, ef menn næðu að draga upp höfuðlínurnar í því formi, sem við köllum á nútímamáli áætlun. Tækist mönnum að koma upp slíkri áætlun, þótt í stórum dráttum væri, að sumu leyti mjög stórum, gæti orðið léttara að stýra þessum málum skipulegar framvegis en tekizt hefur til þessa. Kæmi þá til að gera sér grein fyrir, hvers konar lagabætur þurfi að koma til, svo að tökum verði náð á þessum vandasömu viðfangsefnum, og hvaða ráðstafanir til framkvæmda væru síðar nauðsynlegar af hálfu almannavaldsins í framhaldi af slíkum lagabótum.