08.12.1971
Neðri deild: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

119. mál, verðlagsmál

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Þær umr., sem nú hafa farið fram, eru vissulega aðeins smjörþefur af þeim umr., sem eftir eiga að fara fram á Alþ., áður en því lýkur, um efnahagsmálin. En ég get ekki stillt mig um það nú strax að vekja athygli á því, að það er svolítið annar limatilburður á stjórnarherrunum núna, hæstv. viðskrh. og hv. 8. þm. Reykv. í sambandi við hugsanlegar verðhækkanir og verðlagsmál en voru hér á þingi í fyrra, þegar þeir voru í stjórnarandstöðunni. Þeir voru þá ekkert að velta vöngum yfir því, þessir herrar, að það þyrfti eitthvað að hækka og vítaskuld þyrfti eitthvað að hækka áslíkum tímum. Nei, þeir sögðu blákalt þá hér, að það ætti ekkert vöruverð að hækka. Atvinnureksturinn ætti að bera kauphækkanirnar, sem gerðar voru þá.

Þeir fluttu þá till. um það að skipa rannsóknarnefnd til þess að leiða mig sem forsrh. fyrir landsdóm fyrir það, að eitthvað hefði hækkað vöruverðið í landinu. (Gripið fram í.) Það var ekkert allt annað tilefni, en úr því að hv. þm. grípur fram í, að þessi till. var ekki afgr. á þinginu, vil ég benda á, að núv. ríkisstj. hefur haft aðstöðu til þess frá því í júlímánuði að láta þessa rannsókn fara fram og standa þannig við stóru orðin í fyrra, um að ég hafi gert mig stórlega sekan í minni embættisfærslu, þannig að það ætti að draga mig fyrir landsdóm. En það getur vel verið að tillögugerðin á sínum tíma hafi stafað af allt öðru tilefni en þá var látið í veðri vaka.

Það var mikill misskilningur hjá hæstv. viðskrh., að sjálfstæðismenn hefðu nú einhverja aðra stefnu í verðlagsmálum í landinu í heild en áður var. Það er kunnugt, að ágreiningur var um það innan ríkisstj. og innan stjórnarflokkanna, þannig að meiti hl. á Alþ. var ekki fyrir þeirri tillögugerð, sem undirbúin hafði verið af þáv. hæstv. viðskrh. Og ég sagði hér áðan, að mér væri alveg ljóst, að við hefðum ekki aðstöðu til þess að koma miklu áleiðis í þessum efnum, eins og að valdaskiptingin væri í Alþ. nú, en gerði grein fyrir því, að við sjálfstæðismenn hefðum þegar unnið að því og værum að vinna að því, eftir því sem að tækifærin byðust, að koma okkar till. á framfæri og þoka málunum áfram til betri vegar, og ég sagði, að það mundi sennilega síðar á þinginu koma fram álitsgerð eða till. frá okkur um einhverja áfanga í því efni, hvernig sem þeim verður svo tekið í þinginu, eins og það nú er skipað.

Ég vil svo aðeins að lokum vekja athygli á því, hvernig stendur á því, að þessir hv. talsmenn ríkisstj., ráðh. og hv. 8. þm. Reykv., eru að síendurtaka það, að á slíkum tímum eins og nú hljóti að verða verðhækkanir, sem leiði af þeim kjarasamningum, sem gerðir hafa verið. Ef við hefðum fengið hér á þessu þingi einhverjar ljósar hugmyndir frá hæstv. ríkisstj. um það, hvað hún ætlaðist fyrir í efnahagsmálunum, gætum við náttúrlega rætt þessi mál betur, og það gefst auðvitað tækifæri til þess síðar, og þess vegna talaði ég um það, að þetta væri sjálfsagt aðeins byrjun á miklum umr. um efnahagsmálin.

En hvað er það, sem einkennir þessa tíma nú, árið, sem er að líða? Þetta hefur verið eitt bezta ár, sem við höfum haft til lands og sjávar og í viðskiptum okkar við önnur lönd. Er það vitnisburður eða einkenni þess, að á slíkum tímum þurfi allt að keyrast í hnút í verðlagsmálum vegna verðhækkana eða vegna þess, að það sé eitthvað sérstaklega erfitt að eiga við málin á þeim tímum? Vöruverð hefur verið hagstætt á erlendum markaði og hækkanir miklu minni en sumir gerðu ráð fyrir á fyrri hluta ársins. Verðlag á útfluttri vöru hefur sífellt farið hækkandi. Allur atvinnurekstur hefur yfirleitt verið rekinn með góðri afkomu á s.l. ári. Hvað kemur til, að stjórnarherrarnir eru að tala um þetta tímabil, þar sem árferði er hvað bezt hjá okkur og alls staðar til þess virkilega að mæta efnahagsmálunum á þann hátt, að við getum haldið stöðugu verðlagi, eins og við gerðum á s.l. ári og í tíð fráfarandi ríkisstj.? Frá því í maí–júnímánuði 1970 og þar til núv. ríkisstj. tók við völdum, óx kaupmáttur launanna í landinu um 20% á einu ári. Hæstv. ríkisstj. hefur nú lofað 20% kaupmáttaraukningu á 2 árum, ég kalla það gott, en hún á bara eftir að standa við það.