27.01.1972
Sameinað þing: 31. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í D-deild Alþingistíðinda. (3940)

84. mál, landgræðsla og gróðurvernd

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs, þegar þetta mál var til umr. fyrir jólin, og ég get tekið undir það með hv. 1. þm. Austf., sem talaði hér áðan, að þetta mál er þannig vaxið, að það er gott og nauðsynlegt, að um það sé rætt. Till. sú, sem hér er flutt, er vitanlega flutt í bezta tilgangi, til þess að gera þessu máli eitthvað til góðs. Það er svo annað mál, hvort till. út af fyrir sig er í því formi, sem æskilegast væri. Það út af fyrir sig skiptir ekki öllu máli. Hún veldur því, að það verða umr. hér í hv. Alþ. um þetta mál. Till. fer til n. og nánari athugunar og enginn vafi er á því, að þær umr., sem oft hafa verið um landgræðslu og gróðurvernd, eiga sinn stóra þátt í því, að hér er, eins og áðan var sagt, næstum að tala um þjóðarvakningu. Og það er vel.

Við Íslendingar erum það heppnir að búa í stóru landi, og ég vil nú segja það, að við erum fáir í stóru landi, sem betur fer. Þjóðinni fjölgar, og þá er gott að hafa landrými nóg. Þá erum við betur settir en þær þjóðir, sem hafa áhyggjur af því, ef fólkinu fjölgar og það er ekkert pláss fyrir það. En því er ekki til að dreifa um Íslendinga. Við höfum nóg landrými, og það, sem bezt er, er það, að við höfum möguleika til þess að gera það land, sem við búum í, miklu betra en það er. Og það er vissulega gott að hafa nóg verkefni fram undan til þess að vinna að.

En ég get ekki að því gert, að þegar rætt er um þessi mál þá finnst mér það stundum gleymast, hvernig löggjöf landgræðslan og gróðurverndin býr við. Það voru sett lög 1965 um þessi mál, sem ég held, að allir hv. alþm. hafi verið sammála um. Mig minnir það. Og þessi löggjöf var sett að mjög góðri athugun lokinni. Og í þessari löggjöf voru mörg nýmæli, sem áreiðanlega voru til bóta frá eldri lögum og ég vil, með leyfi hæstv. forseta, minna á helztu nýmælin, sem voru í lög tekin 1965.

„1. Tekin verði upp skipuleg gróðurvernd til að koma í veg fyrir skemmdir á gróðurlendi sakir ofnotkunar samhliða heftingu uppblásturs og sandgræðslu.

2. Gróðurverndin og sandgræðslan myndi eina stofnun, sem nefnist Landgræðsla ríkisins. Forstjóri hennar verður landgræðslustjóri, en fulltrúi hans annist annað hvort starfssviðið.

3. Skipaðar verði gróðurverndarnefndir í þeim héruðum, sem landgræðslustjóri telur þeirra þörf.

4. Fleiri leiðir verða en áður til samstarfs við hið opinbera um að græða lönd.

5. Styrkur til græðslu er ekki bundinn ákveðnu marki fyrir fram, heldur getur hann orðið samningsatriði.

6. Gert er ráð fyrir, að uppgrædd lönd í eigu ríkisins verði nytjuð af bændum strax og kostur er. Enn fremur að fyrri eigendur og notendur uppgræddra landa geti fengið þau aftur í hendur. Bæjar- og sveitarfélög má skylda til að taka við þeim aftur.

7. Landgræðslustjóra er heimilt að fela Búnaðardeild Atvinnudeildar Háskólans að rannsaka beitarþol og krefjast ítölu í lönd, sem eru í hættu.

Þess má geta, eins og öllum er kunnugt, að í staðinn fyrir Búnaðardeild Atvinnudeildar Háskólans er nú Rannsóknastofnun landbúnaðarins.

8. Ákvæði eru um stofnun félaga til landgræðslu.

9. Gert er ráð fyrir, að leitað verði eftir nýjum plöntutegundum til landgræðslu og að setja megi upp gróðrarstöð til að fjölga þeim, sem nothæfar reynast.

10. Þá er ákvæði um, að innan fimm ára skuli gert yfirlit um landskemmdir og áætlun gerð um framkvæmd landgræðslu, þannig að unnt verði að vinna skipulega að henni.“

En þessum 10. lið var nú breytt, og þetta var ekki lögfest, heldur var það orðað þannig, að „áður en fimm ár eru liðin frá gildistöku þessara laga, skal landgræðslustjóri hafa látið gera yfirlit um landskemmdir og samið áætlun um, hvernig helzt megi bæta þær, svo og í hverri röð skuli unnið að landbótum.“

Ég held, að það sé enginn vafi á því, að í öllum aðalatriðum hefur verið unnið eftir þessum nýmælum, sem voru sett í lögin 1965. Hitt er svo annað mál, að Landgræðslan hefði þurft á meira fjármagni að halda en hún hefur haft undanfarið og allt frá því að lög um sandgræðslu voru sett 1907. Þó verður því ekki neitað, að fjármagn til landgræðslu hefur farið vaxandi með ári hverju, enda þótt allir þm. séu sammála um, að það þyrfti að vera meira. Og ég er alveg viss um það, að allir hv: alþm. eru sammála um það, að það hefði þurft að veita meira fé til Landgræðslunnar árið 1972 en gert er, m.a. vegna þess, að það er í rauninni ekki meira að notagildi en það, sem var á árinu 1971. Og það kemur alltaf að þessu sama, þegar fjárlög eru afgreidd, að það er ekki nægilegt fjármagn fyrir hendi til þess að láta í þær framkvæmdir eins og æskilegt væri að gera.

Unnið hefur verið að kortlagningu samkv. áætlun á öræfum og afréttarlöndum og í byggð einnig, og mun vera lokið við að kortleggja allt að 2/3 af landinu. Þegar kortlagningunni er lokið, er vitanlega fengið yfirlit yfir gróðurlendið og hvernig það er. Í öðru lagi hefur að tilstuðlan Rannsóknastofnunar landbúnaðarins undir forustu dr. Sturlu Friðrikssonar verið að því unnið að gera gróðurtilraunir víðs vegar um landið, m.a. á öræfum allt upp í 700 metra hæð. Þessum tilraunum er vitanlega ekki lokið, þótt það sé orðið nokkuð ljóst, í hvaða hæð gróður er hægt að festa, og nokkuð ljóst, hvar hæðartakmörkin eru, þar sem ekki er um að ræða að koma á samgrónu graslendi. Gróðurverndarnefndir hafa verið skipaðar í sýslunum, og hafa þær unnið samkv. ákvæðum laganna og gert sér grein fyrir hinum veiku blettum, sem eru til staðar víðast hvar, gert sér grein fyrir því, hvort um ofbeit væri að ræða, og gert till. til landgræðslustjóra um aðgerðir. Það má því segja, að eftir að lögin voru sett 1965 hafi verið um nánast samvirkar aðgerðir að ræða og meiri samvinnu en áður á milli almennings og Landgræðslunnar.

Það er vissulega rétt, sem oft hefur verið minnt á, að landið hefur goldið mikið afhroð í samskiptum við íbúa sína í nær 1.100 ár. Þó er það vitað, að enginn hefur hugmynd um það, hversu graslendið var stórt á landnámsöld. Það veit enginn nákvæmlega um það. Landnáma segir, að landið hafi verið skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Við vitum, að sá skógur var náttúrlega ekki stór, en við vitum einnig, að graslendið var miklu meira en það er núna, og vitanlega hefur mikið eyðzt vegna samskipta við þjóðina og einnig og ekki síður vegna eldgosa og flóða. Og það eru ekki fá býlin, sem hafa farið undir hraun á eldgosasvæðunum.

Þegar kortlagningunni er lokið og rannsóknum á gróðurlendinu og hægt er að fullyrða, hver gróðurtakmörkin eru, er fengin aðstaða til þess að gera heildaryfirlit og heildarráðstafanir um nýtingu landsins. Segja má, að það hafi ekkert verið of fljótt að skipa þessa nefnd, sem hér var lýst áðan, og ætla ég ekki að segja það, að hún geti ekki þegar hafizt handa til þess að vinna, þótt þessum rannsóknum hafi ekki verið lokið, sem ætlazt var til, áður en þessi heildaráætlun væri gerð. Ég býst við því, að sú vinna verði það umfangsmikil, að það sé a.m.k. enginn skaði skeður, þótt nefndin hafi nú þegar tekið til starfa, enda þótt það hafi verið ætlunin samkv. lögunum að ljúka fyrst þessum rannsóknum, sem ég hef nefnt.

Það er oft talað um ofnotkun landsins og ofbeit. En menn eru nú ekki alveg sammála um, hvort um það sé að ræða. Í grg. með þessari till. er það alveg fullyrt, að það sé hættulega mikil ofbeit í landinu. Við skulum ekki gera grín að því, og þessar fullyrðingar eru vitanlega fram bornar af góðum hug, og menn, sem fullyrða slíkt, halda, að þeir séu að gera málefninu gagn. Ég tel hins vegar, að eðlilegt sé að mynda sér raunhæfa skoðun um þetta, því að það vinnur ekki málinu gagn til lengdar að vera með fullyrðingar, sem ekki standast. Við vitum, að ræktunin hefur verið mikil á síðustu árum, og þess vegna ætti ofbeitin að vera síður fyrir hendi nú en var fyrir við skulum segja 12—15 árum. Árið 1959 var túnastærðin 61.800 hektarar. Í árslok 1971 hefur hún verið um 1l5 þús. hektarar. Vélgrafnir skurðir á síðustu 12 árum voru 50 þús. km, en framræslan gegnir miklu hlutverki í ræktuninni, enda þótt landið sé ekki fullræktað, gerir beitilandið miklu notadrýgra. Gróðurinn breytist, og mýrarnar, sem engin skepna vildi áður nýta, eru nú bitnar af góðri lyst, bæði af sauðfé, hrossum og nautgripum. Og nú er heyskapur tekinn nær eingöngu á ræktuðu landi og engjarnar, landið, sem áður var slegið á sumrin, er nú notað eingöngu til beitar. Það er og kunnugt, að margir bændur bera þó nokkuð mikið af erlendum áburði á heimahaga og afréttarlönd til þess að fá betra beitarþol.

Áburðarnotkunin hefur aukizt í samræmi við ræktunina. Þannig voru árið 1960 keypt 34.500 tonn af erlendum áburði, en 1971 65.500 tonn. Þetta segir sína sögu um það að auka beitarþolið. En þegar við tölum um það, hversu ræktunin hefur aukizt mikið og beitarþolið aukizt, bæði í heimahögum og afréttum, þá mundi kannske einhver segja: Ofbeitin getur verið fyrir hendi eigi að síður nú, vegna þess að búfénaðinum hefur fjölgað eins mikið og ræktunin hefur aukizt. En til fróðleiks þykir mér rétt að lesa hér upp, hver búfénaður landsmanna var 1959, og eins hver hann var 1970.

Árið 1959 voru í landinu 49.865 nautgripir, 794.933 sauðkindur og 30.132 hross. Árið 1970 voru hér 53.294 nautgripir, 735.543 sauðkindur og 33.472 hross.

Þegar litið er á þessar tölur, þá er það alveg ljóst, að aukning bústofnsins er tiltölulega lítil miðað við hina auknu ræktun og aukið beitarþol. Því er það út í hött að tala um ofbeit, eins og nú er, hvar sem er á landinu. Minnzt var á það, að ofbeitin væri helzt á Suðurlandi. Það þyrfti að fækka búfénaði landsmanna sem svarar 280 þús. ærgildum. Þetta var ekki allt á Suðurlandi, en mest, var sagt, og nokkuð á Vesturlandi, Miðvesturlandi. En þetta getur ekki staðizt heldur hvað Suðurland snertir, vegna þess að ræktunin hefur verið tiltölulega mest þar. Og afurðaaukningin hjá sunnlenzkum bændum hefur verið mjög mikil í seinni tíð, sem byggist á því, að fénaðurinn er ekki í svelti og hefur nóg að bíta. Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta. Ég tel, að þess gerist ekki þörf. Ég veit, að allir vilja kynna sér staðreyndirnar og fara eftir þeim, og það er hægðarleikur í þessu efni. Og það er hægt að tala máli landgræðslu og gróðurverndar, án þess að vera með fullyrðingar eins og þessar.

Í gömlu landafræðinni var alltaf sagt, að landið væri rúmlega 100 þús. km2 og það hefur víst ekkert breytzt. Talið er, að nú séu 20 þús. km2 gróið land, eða 2 millj. hektara. Og þetta land er allt undir 400 m hæðarlínu. Þetta land er að mestu nothæft til túnræktar. Þá eru 22 þús. km2 auðnir yfir 400 m hæðarlínu, 2.500 km2 af þessu svæði eru hraun og jöklar, sem ekkert verður gert við, en 19.500 km2 grjót og sandar. Talið er, að 10.000 km2 séu ræktanlegir af þessu svæði, eða 1 millj. hektara. Þegar sagt er ræktanlegir, þá er átt við, að hægt sé að klæða það grasi og gera það að beitilandi, þótt það sé tæpast til þess fallið að verða tún.

En þá er spurningin: Hvað er ræktanlegt af þeim svæðum. sem eru ofan við 400 m hæðarlínuna? Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur undir forustu Sturlu Friðrikssonar, eins og ég sagði áðan, gert allmiklar tilraunir í hæðinni milli 400 og 700 m. Það er talið, að innan þessara hæðarmarka megi fá allgott gras, sérstaklega ef túnvingull er notaður. En þegar kemur upp fyrir þessi mörk, þá er tæpast um það að ræða, að unnt sé að klæða það land grasi. Með þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið, bendir margt til, að unnt sé að gera þetta svæði milli 400 og 700 m að graslendi. Það er a.m.k.10 þús. km2, eða 1 millj. hektara, og hafa athuganirnar þá leitt í ljós, að af auðnunum mætti gera 2 millj. hektara að graslendi, án þess að það væri skoðað sem tún, og á láglendinu mætti gera tún sem nemur 2 millj. hektara, eða 4 millj. hektara, sem væri unnt að gera að góðu graslendi, og er það vissulega mikið, þegar við vitum, að nú er aðeins um 115 þús. hektara túnstærð að ræða í landinu. Það er enginn vafi á því, að hér er um mikinn fjársjóð að ræða í gróðurmoldinni, sem núlifandi kynslóð endist vitanlega ekki aldur til að nýta, og ég vil segja, sem betur fer. Það er vitanlega sjálfsagt, að við gerum það, sem í okkar valdi stendur til þess að halda áfram að rækta, bæði til túna og til haglendis. Það eigum við að gera. En það er einnig og ekki síður mikið verkefni og það mikilvægasta að koma í veg fyrir áframhaldandi uppblástur og eyðingu, og gerir minna til, þótt mikið sé eftir að græða upp, ef sandfokið og jarðvegseyðingin verður heft.

Í landinu hafa verið á undanförnum árum um 750—800 þús. fjár. Sauðfénu hefur fækkað nokkuð vegna harðinda síðustu ára, en fer nú sennilega fjölgandi aftur, ef við erum laus við harðindin. En þegar við sjáum möguleikana á hinni miklu ræktun og því mikla landssvæði, sem við eigum, horfum við björtum augum til framtíðarinnar með aukningu búpeningsins í landinu. Kúastofninn vex vitanlega í samræmi við fólksfjöldann, og verði landsmenn um næstu aldamót 350 þús., eins og einu sinni var spáð, þá þyrfti 170 millj. lítra af mjólk til þess að fullnægja mjólkurþörfinni eða 57 þús. kýr í staðinn fyrir 36 þús. til þess að fullnægja mjólkurþörfinni í dag. En ekki sízt ættum við að auka fjárstofninn, og ef haldið verður áfram að rækta í mun stærra mæli en gert hefur verið undanfarin ár, ef meira fjármagni verður varið í þessu skyni, þá gætum við alveg hugsað okkur að hafa 2 millj. sauðfjár um næstu aldamót. Og 2 millj. sauðfjár mundu gefa mikið af sér í þjóðarbúið, og það mundu margar þúsundir Íslendinga fá atvinnu við það að vinna úr búfjárafurðunum, eftir að bústofninn hefur aukizt sem þessu nemur. Það eru mörg þúsund manns í dag, sem hafa atvinnu við það að vinna úr búsafurðunum. Það má segja, að öll ullin sé unnin í landinu í dag, og skinnaiðnaðurinn fer batnandi og mikið af skinnunum unnið í landinu, og þess vegna er það mikils virði, bæði atvinnulega séð og gjaldeyrislega séð, að þróunin verði í þá átt að auka bústofninn í samræmi við aukið beitarþol og aukna ræktun. Og það hefur stundum verið sagt, að jörðin eða gróðurmoldin væri sú verksmiðja, sem þjóðin þyrfti að nýta ekki síður en aðrar verksmiðjur, sem ganga fyrir vélarorku, sem er knúin af rafmagni eða olíu.

Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til að fjölyrða öllu meira um þessa till. Ég vil benda á, að það hefur áreiðanlega orðið prentvilla hér í grg., þegar talað er um, að undanfarin ár hafi verið ræktaðir aðeins 20—25 km2. Það er miklu meira, eins og allir vita, og hlýtur hér að vera um prentvillu að ræða. (Gripið fram í: Hvað miklu meira?) Hvað miklu meira? Ja, a.m.k. helmingi meiri túnræktin, 40-50. Þegar það eru 5.000 hektarar, eru það a.m.k.50 km2. En það er miklu meiri ræktun en bara túnræktunin. Það er líka ræktun að ræsa fram mýrarnar, þótt mýrarnar séu ekki gerðar að túnum. að gera mýrarnar hæfar til fullra nota, sem þær eru ekki, á meðan þær eru óræstar, og það er líka ræktun, sem Landgræðslan gerir á afréttum og á heiðum uppi. Og ef þetta er ekki prentvilla, þá er það náttúrlega miklu verra en það, sem ég hélt, því að þá er það bara vegna vanþekkingar. Og fleira í þessari till., í grg., eru fullyrðingar, sem ekki fá staðizt, en það er algert aukaatriði. Það skiptir ekki neinu verulegu máli. En það, sem náttúrlega skiptir mestu máli í sambandi við þessa till., er 3. mgr., sem er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Jafnframt ályktar Alþingi að skora á ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir til að afla nægilegs fjármagns, svo að fært verði að hefjast handa um nýja, stórtæka landgræðslu þegar á næsta ári.“

Það má náttúrlega alltaf deila um það, hvað sé stórtæk landgræðsla. Ég vil jafnvel halda því fram, að það hafi verið stórtæk landgræðsla á undanförnum árum. En ég er innilega samþykkur því, að veitt verði meira fé, ef það þykir fært, og gert enn stærra og fljótara átak í þessum málum en gert hefur verið hingað til. En jafnframt því, að við berum þá ósk fram og undirstrikum það, skulum við gera okkur ljóst, að þeirri kynslóð, sem nú lifir, er ekki ætlað að gera allt fyrir alla framtíð. Verkefni þessarar kynslóðar verður að vera að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir og búa þannig um, að núverandi kynslóð geti lifað við sem bezt lífskjör. En þegar við erum að búa í haginn fyrir komandi kynslóð, þá gerum við landið betra. Við ræktum það og gerum það betra. En fyrir alla muni og það, sem kannske skiptir mestu máli, er að koma í veg fyrir, að eyðingaröflin haldi áfram að spilla landinu. Menn greinir á um það, hvernig reikningur þjóðarinnar stendur við landið, hvort þjóðin hefur nú á árinu 1972 komizt það langt í landgræðslu og gróðurvernd, að við vinnum meira á en það, sem eyðist. Þetta er ákaflega erfitt að sanna, býst ég við. Og vísindamennirnir, sem við berum stundum fyrir okkur, eru ekki sammála um þetta. En okkur, sem ferðumst um landið, bæði byggðir og óbyggðir, og reynum að gera okkur grein fyrir, hvernig þetta stendur, finnst mörgum, að reikningurinn standi nokkuð vel, að við græðum miklu meira upp nú í seinni tíð en það, sem fer forgörðum. Og það er sannfæring mín, að þetta sé þannig. En þótt ég hafi þá sannfæringu, þá dregur það ekkert úr þeirri skoðun minni, að brýna nauðsyn beri til að halda áfram og hefta eyðingaröflin að öllu leyti.