01.02.1972
Sameinað þing: 32. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í D-deild Alþingistíðinda. (3949)

84. mál, landgræðsla og gróðurvernd

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Þar eð þingheimur allur er einhuga um það að efla sem frekast má verða landgræðslu og gróðurvernd, og með því að ríkisstj. hefur þegar skipað nefnd til þess að taka þessi mál föstum tökum, þá er engin ástæða til þess að orðlengja öllu meira um þessa þáltill. Þó er eitt eða tvö atriði, sem ég vil þó sem flm. drepa á að lokum, og hið fyrra varðar afstöðu fyrrv. landbrh., sem kom nokkuð á óvart, og hitt atriðið er það, sem ég vil kalla samvinnu þm. við ráðh.

Fyrra atriðið lýtur að því, að fyrrv. landbrh. dró mjög í efa gildi till., taldi fullyrðingar margar í grg. út í bláinn, taldi, að um enga ofbeit væri að ræða o.s.frv. og lét svo allra náðarsamlegast þau orð falla, að hin nýja nefndarskipan væri líklega ekki til skaða. Þessi afstaða ráðh. fyrrv. mótast ekki af því, að hann hafi ekki áhuga á landgræðslumálum. Um það efast ég ekki og vafalaust enginn þm. Hins vegar mun ástæðan líklega vera sú, að hann telji, að hér sé vegið að honum sem fyrrv. landbrh., að hann hafi ekki sinnt þessum málum sem skyldi. Ekki er það þannig frá mínum bæjardyrum séð. Í þessari þáltill. felst enginn áfellisdómur um vanrækslu fyrrv. landbrh. í þessum málum, alls ekki. Aðalástæðan er auðvitað sú, að viðhorf manna til þessara mála hafa tekið miklum stakkaskiptum á síðustu árum. Umhverfismál og ég tel að landgræðsla sé þáttur í þeim málaflokki, hafa nú komizt mjög á dagskrá hvarvetna um heim og er það meginmál, sem um er fjallað sem lið í því viðhorfi manna, að jarðarbúar megi ekki sjálfir éta sig út á gaddinn í margvíslegum skilningi. Þannig er ástæðan einmitt sú, að umhverfismálin hafa einmitt á þessum s.l. 3–4 árum komið mjög upp og það er alls ekki við ráðh. að sakast, þó að ný vakningaralda hafi komið í þessum málum. Hins vegar er alveg ástæðulaust fyrir fyrrv. landbrh. að haga sér eins og Don Quixote og ríða í turniment við myllur og telja, að þekking sé blekking o.s.frv.

Varðandi umhverfismálin vil ég aðeins segja það, að það væri mjög athugandi fyrir ríkisstj. að koma upp einhverri stofnun eða fá aðila, t.d. þá í forsrn., til þess að takast á hendur umhverfismál almennt. Bæði er haldin ráðstefna nú í Stokkhólmi í sumar um umhverfismál, alþjóðleg ráðstefna, og til umhverfismála teljast fjölmargir málaþættir og ég hygg, að Íslendingar geti ekki sinnt þessum málum rækilega nema einhver ákveðinn aðili fáist við þessi mál. Gæti þá væntanlega sá aðili verið til liðsinnis við þá nefnd, sem er að athuga einmitt ofbeit og gróðureyðingu.

Síðara atriðið, sem ég vil minnast á, er samvinna þm. og ráðh. Ég vil í allri vinsemd rekja það, að þessi till. okkar hv. 4. þm. Austf. kom fram hér töluvert fyrir jól og lá hér í þskj. um mánaðarskeið, áður en hún kom til umr., en svo brá við, þegar till. kom fram, að Tíminn fór mjög að ókyrrast, sá ég var og birti miklar greinar um landgræðslu, enda hvarflar nú að mér, að Framsfl. teldi sín mál, þegar sleppti malbikinu. En það, sem ég ætla nú einkum að tala um, er að ég tel ekki æskileg vinnubrögð, að ráðh. skipi nefndir án þess að ræða við þá menn, sem flytja sama mál í þinginu, og það skiptir engu máli, hvort það er stjórnarandstaða eða stjórnarþm. Það segir sig sjálft, að þegar landbrh. skipaði þessa nefnd, hefði hann auðvitað átt að tala við þá þm., sem höfðu flutt sams konar mál í þinginu, ekki aðeins til þess að skýra þeim frá því, að það væri verið að skipa nefnd í málinu, heldur líka til þess að kanna þeirra óskir þar að lútandi, hvort það væru ákveðin viðhorf, sem þm. hefðu. Mér er sagt af reyndari þm., að þetta hafi tíðkazt töluvert á dögum viðreisnarstjórnarinnar, að þm. kæmu með mál, sem svo ráðh. hefði tekið upp og gengið í að koma til framkvæmda, en ég kalla það að hunza sjálfa flm. Og ég tel, að þetta sé ekki heppilegt, og óska eftir því, að þau vinnubrögð séu almennt viðhöfð, að ráðh. ræði við flm. mála, þegar eitthvað er gert í þeim.

En ekki skal ég nú fjölyrða um þetta. Málið er komið í góðan farveg, og sú nefnd, sem fjallar um það, virðist í alla staði hin ágætasta og allur þingheimur hlýtur að fagna því, að nú verði þessi mál tekin fastari tökum en áður var og við hljótum að vænta góðs árangurs.