03.02.1972
Sameinað þing: 33. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í D-deild Alþingistíðinda. (3952)

84. mál, landgræðsla og gróðurvernd

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Þetta merka mál hefur verið mjög rætt hér og saga sögð. Það voru aðeins nokkur orð varðandi sandinn og hans eyðileggingarmátt, sem mig langaði til þess að bæta við þær miklu umr., sem hér hafa farið fram.

Þannig vill til, að það var eitt af mínum vorverkum í gamla daga, þegar ég var á unga aldri, að aka sandi í hjólbörum af túninu á hverju vori, aka sandsköflum burtu, sem safnazt höfðu fyrir yfir veturinn. Rúðurnar í íbúðarhúsinu okkar varð að skipta um á nokkurra ára fresti, því að þá voru þær ekki lengur gagnsæjar. Þessi eyðileggingar máttur var orðinn slíkur, að fyrst og fremst lagðist þessi jörð í eyði, en heilt þorp var einnig í hættu. Hvað var þá tekið til ráða? Jú, það var girt stór og mikil girðing, sem þótti í þá daga, fyrir 40 árum og þessi girðing, sem forðaði landinu frá bústofninum, olli því, að eftir örfá ár var sandurinn hættur að fjúka. Síðan hefur þessari girðingu verið haldið við, í raun og veru ekkert annað að hafzt, og landið er nú sæmilega gróið, a.m.k. sandfok skaðar ekki og þetta tel ég benda svo eindregið til þess, að mikilvægasta aðgerðin til gróðurverndar sé friðunin. En á síðari árum með aukinni tækni og með þeim miklu umsvifum, sem fram fara nú víða um land, bæði í vegagerð, í alls konar tilflutningum á efni og í rannsóknum Jarðborana ríkisins og fleiri aðila, þá er enn ný hætta sköpuð.

Hér hefur verið minnzt á eyðinguna í sambandi við vegagerðina, og það verður að segjast, að Vegagerðin hefur nú á seinni árum mjög bætt ráð sitt hvað það snertir, að þeir hafa grætt mjög þau sár, sem hafa skapazt við vegagerðina. Hins vegar er það augljóst, að slík sár verða ekki grædd nema haldið sé áfram nokkur ár að bera á slíkar skemmdir. En um rannsóknirnar á landinu og rannsóknir á jarðvarma er það að segja, að þar skapast oft gífurlegar landskemmdir. Og mér er kunnugt um það, að á stað, þar sem menguð gufa kemur úr jörðu, hafa margir ferkílómetrar lands beinlínis orðið sviðin jörð á tiltölulega stuttum tíma. Því langaði mig til að vekja athygli á því, að á sama tíma og starfsfólk ríkisins vinnur að því af mikilli kostgæfni að stöðva gróðureyðinguna og bæta fyrir það, sem skemmt hefur verið, þá er það illa farið, ef aðrir hópar hins sama aðila valda stórfelldum skemmdum, svo að virkilega verulegu landssvæði munar. Þetta á einnig við víða um land, þar sem efni er tekið úr jörðu. Þar er frágangur óskemmtilegur og öllum til skammar og skaða og veldur mjög miklum landspjöllum víða um land. Allt þetta þarf að hafa í huga, þegar áhugi er fyrir hendi og þegar mynda á þjóðareiningu um að bæta landið okkar.

Ég vil svo enda með því að vekja athygli á, að friðun stórra landssvæða er örugglega eitt mikilvægasta tækið, sem við eigum til þess að vernda gróður landsins.