08.12.1971
Neðri deild: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

119. mál, verðlagsmál

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég ætla ekki að láta hæstv. viðskrh. komast upp með það að koma hér í ræðustólinn á eftir mér og rangtúlka algjörlega mín orð. Hann þarf ekki að gera því skóna, að hann geti flaggað með skoðun minni í þessum málum núna. Hann verður að byggja á sjálfum sér, sá góði herra, en ég var að vekja athygli á því, hver munúr væri á framkomu hans nú og tilburðum hans hér í umr. í fyrra, þegar því var sífellt haldið fram, að bókstaflega mætti ekki nokkurn skapaðan hlut hækka.

Hitt er svo annað mál, og það er ósköp ánægjulegt að hlusta á það, þegar hæstv. viðskrh. kemur hér í stólinn og rifjar það núna upp, að menn verði að muna, að það séu lög í þessu landi, sem segi það, að taka eigi tillit til tilkostnaðarins við atvinnureksturinn, þegar verðlag er ákveðið. Hann mundi nefnilega ekki alveg þessi ákvæði í fyrra, en mér þykir vænt um, að hæstv. ráðh. man þau núna og leggur mikla áherzlu á að minna hv. þm. á þetta atriði. Ég vil hins vegar ljúka máli mínu með því að segja það við hæstv. ráðh., að hann þarf ekki að berja fótastokkinn á flóttanum frá sinni eigin fyrri afstöðu í þessum málum.