16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í D-deild Alþingistíðinda. (3967)

32. mál, námskostnaður og styrkir til að jafna námsaðstöðu æskufólks í strjálbýli

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Sú till. til þál., sem við hv. 9. landsk. þm., Ellert B. Schram, flytjum hér á þskj. 32, skýrir sig að mestu leyti sjálf. Með henni er og grg., sem getur tilgangs okkar með þessum tillöguflutningi. Engu að síður þykir mér hlýða að fylgja henni úr hlaði með nokkrum orðum. Till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fram fara í samráði við landshlutasamtök sveitarfélaga eða einstakar sveitarstjórnir athugun á kostnaði og fjárhagslegri getu æskufólks í strjálbýli til framhaldsnáms og jafnframt, að settar verði nýjar reglur um heildarupphæð og úthlutun námsstyrkja í samræmi við niðurstöður athugunarinnar, þannig að tryggð verði sem jöfnust aðstaða nemenda til framhaldsnáms, hvar sem þeir búa á landinu. Athugunin skal m.a. ná til líklegs fjölda nemenda, sem stunda munu framhaldsnám fjarri heimabyggð sinni næstu ár, ferðakostnaðar nemenda, dvalar— og uppihaldskostnaðar í heimavist eða í leiguhúsnæði, þar sem framhaldsskólar eru reknir, svo og til þess, hvernig einstakar sveitarstjórnir greiða fyrir nemendum til framhaldsnáms. Niðurstöður athugunarinnar skulu lagðar fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Svo sem hv. alþm. er kunnugt, hafa umr. um mismunandi aðstöðu æskufólks til framhaldsnáms eftir búsetu verið ofarlega á baugi alllengi. Sá aðstöðumunur er öllum kunnur og öllum augljós, svo að hér skal ekki fjölyrt um það atriði. Á s.l. tveimur árum hafa fyrstu skrefin verið stigin af Alþ. og ríkisstj. í þá átt að koma til móts við þá nemendur, sem þurfa að sækja framhaldsskóla fjarri heimabyggð sinni og hafa því þurft að kosta miklu meira til menntunar sinnar en þeir nemendur, sem í þéttbýli búa. Þessi nýbreytni er fólgin í því, að veitt hefur verið sérstök upphæð á fjárlögum á árunum 1970 og 1971, sem var ætluð til styrkúthlutunar til þeirra nemenda, sem svo er ástatt um. að sækja þurftu framhaldsnám fjarri heimahögum. Þessar fjárveitingar námu árið 1970 10 millj. kr., en árið 1971 15 millj. kr.

Á þeim árum, sem þessi skipan hefur staðið, hefur áþreifanlega sannazt, hversu mikil þörf er á slíkri starfsemi og jafnframt á því að auka hana og endurbæta í ljósi fenginnar reynslu. Milli áranna 1970, þegar þessi háttur var upp tekinn, og yfirstandandi árs hefur fjöldi styrkhæfra umsókna aukizt um 60–70%, eftir því sem ég hef aflað mér upplýsinga um hjá menntmrn., en umsóknir í ár voru milli 2.100 og 2.200. Þetta sýnir tvennt að mati þeirra, sem gerst þekkja til. Í fyrsta lagi mikla og vaxandi þörf á því að sinna því jafnréttismáli að greiða sérstaklega fyrir æskufólki úr strjálbýli, sem sækir framhaldsnám, og í öðru lagi, sem auðvitað er mergurinn málsins, að með þessu er fleira ungu fólki í landinu beinlínis gert kleift að njóta framhaldsmenntunar. Samkv. upplýsingum menntmrn. hafa undanfarin tvö ár aðallega verið veittir tvenns konar styrkir til framhaldsnáms æskufólki í strjálbýli, þ.e. ferðastyrkir og dvalarstyrkir. Stuðzt hefur verið við þá meginreglu á skilgreiningu nemenda úr strjálbýli, að þeir, sem urðu að dvelja við nám fjarri heimilum sínum vegna þess að þeir áttu ekki kost á sambærilegu námi heima fyrir, væru taldir styrkhæfir. Ferðastyrkirnir voru ákvarðaðir þannig, að áætlað var svo nefnt meðaltalsfargjald milli þeirrar sýslu, sem nemandi bjó í, og þess staðar, sem hann sótti skóla. Styrkupphæð nam á yfirstandandi ári sem svaraði fjórum slíkum meðaltalsfargjöldum; þ.e. ferð haust og vor og í og úr jólaleyfi. Hér virðist því vera um skynsamlega meginreglu að ræða, þótt æskilegt væri að gera nákvæmari könnun, en gerð hefur verið á því, hver raunverulegur ferðakostnaður einstakra nemenda er, þannig að ferðastyrkurinn sé hverju sinni sem næst raunveruleikanum.

Meginhluta þessarar fjárveitingar, sem varið hefur verið í framangreindu skyni undanfarin ár, var úthlutað í formi dvalarstyrkja. Dvalarstyrkirnir voru þannig ákvarðaðir bæði árin, 1970 og 1971, að þeir nemendur, sem ekki dvöldust í heimavist, fengu 1.200 kr. á mánuði í dvalarstyrk. Þessi styrkupphæð er ekki byggð á neinni athugun um, hversu miklu meira það kostar nemendur í raun að leigja herbergi og kaupa fæði á skólastað fram yfir þá nemendur, sem geta sótt framhaldsskóla frá eigin heimilum. Enn fremur hefur ekki verið kannað, hvort eðlilegt getur talizt, að nemendur í heimavistum ættu að fá hluta úr dvalarstyrk, en einsýnt virðist, að slíkir nemendur hafi nokkurn kostnað af veru sinni þar, sem nemendur í foreldrahúsum þurfa ekki að greiða.

Meginatriði þessarar till., sem hér liggur fyrir er, að þetta tvennt, dvalar— og ferðakostnaðarstyrkir, sé nánar kannað, svo að raunverulegur umframkostnaður nemenda komi í ljós, sem sækja framhaldsnám fjarri heimabyggð, og unnt reynist að jafna þennan umframkostnað með beinum styrkveitingum eða á annan hátt. Flestum mun ljóst, að þessi umframkostnaður vegna dvalar hlýtur að vera all miklu hærri en 1.200 kr. á mánuði, ekki sízt nú vegna ört hækkandi húsaleigu. Einnig má búast við verulega vaxandi fjölda nemenda, sem koma til með að þurfa að njóta framangreindrar fyrirgreiðslu, ef megintilgangi hennar verður náð, þ.e. ef fleira æskufólk getur eftir en áður sótt framhaldsnám úr strjálbýli.

Hér er komið að kjarna þessa máls og höfuðtilgangi þeirrar þáltill., sem við flytjum um þetta efni. Eini kostur þess að horfast raunsætt í augu við þetta vandamál í heild er að afla sem gleggstra upplýsinga um eðlilegan ferðakostnað nemenda, sem sækja framhaldsnám fjarri heimabyggð, og dvalarkostnað umfram þann, sem hlýzt af námi þeirra nemenda, sem heimili eiga á skólastað, svo og líklegan fjölda nemenda, sem bæta þarf upp þennan aðstöðumun. Svo fremi sem Alþ. og ríkisstj. hafi hug á því að bæta æskufólki upp fjárhagslegan aðstöðumun til framhaldsnáms eftir búsetu, eru framangreindar athuganir, sem hér er gert að till., að gerðar verði, brýn nauðsyn og jafnframt fjáröflun á fjárlögum hverju sinni í samræmi við þær niðurstöður, sem athuganir leiða í ljós. E.t.v. efast menn um, að unnt sé að finna líklegan fjölda þeirra, sem um næstu framtíð þurfi að gera ráð fyrir að bæta framangreindan aðstöðu mun. Því er til að svara, að með hliðsjón af nemendaskrám skyldunámsins og fyrri reynslu umsókn nemenda í hina ýmsu framhaldsskóla ætti að vera auðvelt að gera trú verðuga spá um þetta fram í tímann. Heimavistarrými og mötuneytisrými eru einnig tiltölulega fyrirsjáanlegar stærðir í dæminu, þannig að það á að vera hægt að komast nærri því, hversu margir ættu hverju sinni að þurfa að kaupa sér fæði og húsnæði á eigin vegum og hve margir mundu að líkindum komast að í heimavist. Óneitanlega eru margar hliðar á því máli, sem hér er hreyft. Ýmsar sveitarstjórnir hafa styrkt nemendur úr sínu umdæmi til framhaldsnáms. Ástæða er til að kanna, hversu mikið er af þessu gert, þannig að samræmingu sé unnt að koma við á þessu sviði milli ríkisvalds og sveitarstjórna. Þá má og benda á mismunandi fjárhagsgetu nemenda eða foreldra til þess að kosta námsdvöl barna sinna í fjarlægum byggðarlögum. Þannig er auðvitað einnig um fólk, sem sækir framhaldsnám á þeim stað, sem það býr. Æskilegt væri þó að geta gert sér einhverja grein fyrir þeirri hlið málsins, að því er varðar nemendur úr strjálbýli, þótt slíkt sé augljóslega örðugt og einungis til fróðleiks og leiðbeininga um þau tök, sem æskilegt væri að taka þetta mál í heild. Því er að þessu vikið í till. okkar.

Þá er að lokum ekki úr vegi að drepa á einn mikilvægan þátt framangreinds máls, og þá hef ég í huga þá spurningu, í hvaða formi eigi að greiða fyrir framhaldsnemendum úr strjálbýli, sem sækja skóla fjarri heimabyggð sinni, þannig að fyrirgreiðslan verði sem eðlilegust og komi að sem mestu gagni. Ég tel engum vafa undirorpið, að sumpart eigi að halda áfram þeim beinu styrkveitingum. eins og verið hefur, bæði í fyrra og á yfirstandandi ári. Það er t.d. augljóst að því er varðar endurgreiðslur ferðakostnaðar. Um dvalarkostnað gæti þó sumpart gegnt nokkuð öðru máli. Spyrja mætti, hvort ekki væri skynsamlegt að verja nokkru fé úr ríkissjóði til þess að styrkja starfrækslu mötuneyta eða jafnvel heimavista, t.d. hér í Reykjavík, þar sem hundruð nemenda utan af landi sækja framhaldsskóla, í stað þess að veita beina dvalarstyrki nemenda vegna fæðiskaupa og húsaleigu á eigin vegum. Benda mætti á í því sambandi, að mörg hótelanna í Reykjavík eru illa nýtt yfir vetrarmánuðina. Væri ekki hugsanlegt, að hið opinbera gæti samið við einhver þeirra í þessu skyni og jafnframt greitt þeim beint úr ríkissjóði vegna þjónustunnar í stað þess að greiða nemendum hærri dvalarstyrki? Að sjálfsögðu mun þó reynast nauðsynlegt að greiða bæði ferða— og dvalarstyrki beint til nemenda og e.t.v. bæði til þeirra, sem dvelja í heimavistum og utan þeirra. Í því sambandi vaknar þó sú spurning, hvort ekki sé unnt að finna heppilegra greiðsluform en notazt hefur verið við. Benda mætti t.d. á, hvort ekki væri réttara að greiða styrkina með jöfnum greiðslum mánaðarlega inn á bankareikning hvers nemanda og ákveða með reglugerð, að greiðslur megi einungis fara fram til þeirra aðila, sem viðkomandi kaupir af þjónustu sína. Ég tek það fram, að þessu er hér fyrst og fremst varpað fram sem hugmynd til nánari athugunar, þar sem ég hef ekki átt kost á að kanna, hvort eða hvaða erfiðleikar kynnu að vera á framkvæmd þess máls.

Herra forseti. Ég vænti þess, að í máli mínu og í grg. með þáltill. okkar 9. landsk. þm. hafi komið fram, hversu brýn nauðsyn er á að gera úttekt á því máli í heild. Hvernig að skuli staðið af hálfu Alþ. og ríkisstj. að jafna fjárhagslega aðstöðu nemenda úr strjálbýli til framhaldsnáms miðað við þá, sem sótt geta slíka skóla í sínum heimahögum. Ég vænti þess einnig, að gild rök verði færð með framangreindri athugun fyrir því, hversu nauðsynlegt er að afla nægilegs fjármagns, til þess að unnt verði að jafna þennan aðstöðumun að fullu. Ég vil því leggja mjög eindregið að hv. alþm. að samþykkja þá þáltill., sem við höfum hér lagt fram, og að ríkisstj. að láta framkvæma þá athugun sem allra fyrst.

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. um till. verði frestað og henni vísað til hv. allshn.