16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í D-deild Alþingistíðinda. (3969)

32. mál, námskostnaður og styrkir til að jafna námsaðstöðu æskufólks í strjálbýli

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. hefur nú gert hér grein fyrir ýmsu í sambandi við þetta mál. Ég skal því ekki fara svo mikið ofan í þetta. Auðvitað er ekki hægt að neita því, að þetta er mikið málefni, sem þessi till. fjallar um. Það er mjög mikilvægt málefni, og ég skal verða síðastur manna til þess að letja þess, að Alþ. ræði þetta mál. Ég minnist þess, og ég held, að ég fari þar rétt með, að ég átti nokkuð mikinn þátt í því fyrir 6—7 árum ásamt fleiri góðum samflokksmönnum mínum, að þetta málefni var tekið hér til umr. á Alþ. í fyrsta skipti, og á þremur þingum var þáltill. flutt um þetta efni, áður en hún fengi nokkurn hljómgrunn hjá þáverandi ráðamönnum í landinu, sem voru sjálfstæðismenn og Alþfl.–menn. Hins vegar vakti þessi tillöguflutningur okkar þeim mun meiri athygli úti um byggðir landsins, sem hann var lítils metinn hér í þinginu ár eftir ár af þáverandi valdamönnum., Ég held, að óhætt sé að segja það, að almenningur í landinu og þá alveg sérstaklega í sveitum og sjávarþorpum fagnaði þessu máli, og eftir að við fluttum þetta mál hér, 1965 minnir mig, að það hafi verið, komu ýmsar samþykktir þá þegar og á næstu árum um þetta til stuðnings þessari hugmynd og þessu baráttumáli okkar framsóknarmanna að jafna námsaðstöðu í landinu með beinum fjárframlögum af opinberu fé. Þetta var jafnréttis— og réttlætismál, sem höfðaði til réttlætiskenndar almennings og snerti hagsmuni og afkomu þúsunda manna. Enda fór svo að lokum. að jafnvel ráðamenn í landinu fengust til þess að ljá málinu eyra, þó að það væri í litlu. Það tókst a.m.k. að fá þá til þess að leiða hugann að þessu mikilsverða máli, þó að mjög litið yrði úr framkvæmdum lengi vel, og það, sem gert var, var gert með eftirgangsmunum, sem ég ætla þó ekki að fara að rifja upp sérstaklega hér.

Mér þykir rétt að geta þess og minnast þess alveg sérstaklega í þessu sambandi, að núna tvö undanfarin ár, — raunar hefur það komið fram hér í ræðum manna,—þá hefur verið fjárveiting á fjárlögum, sem er ætluð til þess að jafna námsaðstöðu nemenda úr dreifbýli. Eins og menn hafa greint frá hér, var þessi fjárveiting 10 millj. kr. í fyrra og nú á þessu ári 15 millj. Og það vita allir, að þessar upphæðir eru og hafa alltaf verið of lágar, þær eru ófullnægjandi. En hins vegar er engin ástæða til þess að vanmeta það, sem gert var í þessu, því að þetta er þó fyrsta sporið til þess að koma þessu máli áfram. Og nú á fjárlagafrv., eins og hæstv. menntmrh. var að segja frá, er gert ráð fyrir 25 millj. kr. framlagi, og það er óneitanlega mjög veruleg hækkun frá því, sem er á gildandi fjárlögum, en þó má reikna með, að þessi fjárhæð sé allt of lág. Ég vil geta þess, vegna þess að þetta mál er komið hér til umr., að í málefnasamningi hæstv. ríkisstj. er kveðið svo að orði, að aðstöðumunur til náms skuli jafnaður. Það er þannig alveg skýrt stefnuskráratriði hæstv. ríkisstj. að vinna að því, að aðstaða til náms verði gerð sem jöfnust, og um þetta eru allir stjórnarflokkarnir sammála, og af því að ég er hér að tala fyrir einn stjórnarflokkinn, fyrir Framsfl., þá er óhætt að segja það, að þetta er eitt af þeim atriðum, sem við framsóknarmenn leggjum mesta áherzlu á í sambandi við stjórnarsáttmálann og í sambandi við fræðslu— og menntamálin.

Nú hefur hæstv. menntmrh. skýrt frá því, að hann hafi skipað nefnd manna, sem hefur það verkefni að semja frv. að lögum um aðstoð við skólanemendur til þess að jafna aðstöðu þeirra til skólagöngu. Þessi nefnd er að störfum, og þess er fullkomlega að vænta, að hún geti lokið störfum svo tímanlega, að hægt verði að leggja frv. um þetta efni fyrir það þing, sem nú situr. Ég efa það auðvitað ekki, að þessi till. sé flutt af góðum hug, og því ber a.m.k. að fagna, að þessir ungu þm., sem að till. standa, hafa komið auga á mikilvægi þessa máls. Mér finnst þeir a.m.k. taka þar fram ýmsum flokksbræðrum sínum eins og við þekktum þá fyrir 1—2 árum eða kannske lengri tíma, ef lengra er farið aftur í tímann. Hitt er svo annað mál, hversu til þessa tillöguflutnings er stofnað nú og hversu tímabær þessi till. er. Sannleikurinn er sá, að þessi till. er ákaflega síðborin, og það væri a.m.k. synd að segja, að till. væri ýkja frumleg eða tímabær. Nefnd, sem í eiga sæti fulltrúar allra þingflokka og búið er fyrir nokkru að tilkynna, að sé komin á laggirnar, er að vinna að þessu máli samkv. ákvörðun hæstv. menntmrh. og í samræmi við ákvarðanir Alþ. frá í fyrra. Þess vegna hefur þessi tillöguflutningur hér í rauninni ekkert raunhæft gildi. Það skiptir næsta litlu máli, hvað um þessa till. verður. Ég held, að allir hljóti að verða sammála um það, að ekkert vit sé í því að hrófla frekar við þessu máli hér á hv. Alþ., á meðan námskostnaðarnefnd er að störfum.

Þess verður að vænta, að nefndin geti lokið störfum, áður en þessu þingi lýkur, og tími gefizt til þess að afgreiða væntanlegt frv. um þetta efni sem lög á þessu þingi. Ég held, að það eitt sé við hæfi nú, að Alþ. sýni biðlund, á meðan námskostnaðarnefnd vinnur að þessu máli. En hins vegar skal ég ekkert hafa á móti því, að hv. alþm. ræði um þetta efni sín á milli, og það er a.m.k. gleðilegt að verða vitni að því, að þessir ungu og nýju þm. Sjálfstfl. virðast taka hinum eldri fram í áhuga sínum og skilningi á þessu mikilvæga máli.

Þó að mér finnist þessi till. síðborin og fjarri því að vera tímabær, þá get ég ekki haft á móti því, að hún komist til nefndar og verði skoðuð hér í þingnefnd, en ég legg áherzlu á það, að ég held, að Alþ. verði að sýna biðlund í þessu máli. Það er verið að vinna að þessu máli í þeim anda, sem þessi till. gerir ráð fyrir, og þess vegna hefur þessi tillöguflutningur sáralítið gildi.