08.12.1971
Neðri deild: 23. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

119. mál, verðlagsmál

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. um of, en ég get ekki stillt mig um að gera hér örstutta aths. við það, sem hér hefur komið fram.

Á sínum tíma spurði ég forsrh. að því, hvort ríkisstj. hæstv. hefði gert sér grein fyrir því, áður en hún gekk frá hinum margfræga samningi, stjórnarsamningi sínum, hvort þjóðarbúið og atvinnuvegirnir þyldu þá 20% rauntekjuhækkun, sem hún ætlaði, að hægt væri að koma í kring, og styttingu vinnutíma og lengingu orlofs, eins og stendur í þeim samningi. Hæstv. ráðh. sagði það þá hér á Alþ.,ríkisstj. hefði gert á þessu athugun, hún hefði safnað um þetta upplýsingum, og það væri mat hennar að vel athuguðu máli, að þetta væri hægt. Ég vil vekja athygli á því, að hér er talað um rauntekjur, og þá er átt við það, að kaupmáttur launa hækki um 20% á þessum tíma.

Nú kemur hins vegar fram, að ríkisstj. gerir sér grein fyrir því, eftir að kauphækkanir hafa orðið, sem eru innan ramma þess, sem í stjórnarsáttmálanum segir, að það muni verða um einhverjar verðhækkanir að ræða. Kauphækkunin, sem nú er samið um, er, að því er mér skilst, innan við það, sem gert er ráð fyrir, eins og ég sagði áðan, innan við 20% á tveimur árum, en samt sem áður eiga að verða verðlagshækkanir, og þess vegna er spurningin þessi: Ætlar ríkisstj. með einhverjum öðrum hætti þá að koma því í kring, að 20% rauntekjuhækkun verði? Í annan stað vekur það líka spurningar, vegna þess að ríkisstj. hefur gert sér svona nákvæma grein fyrir þessu, þegar hún var mynduð, hvernig stendur á því, að hún veit ekki einu sinni nokkurn veginn, hvert hún stefnir núna, eftir að kjarasamningar hafa verið gerðir. Þetta eru sem sagt heldur mótsagnakenndar yfirlýsíngar hjá þessum hæstv. ráðh., sem ég hér hef vitnað til, bæði hæstv. forsrh. og viðskrh., um grundvallaratriði efnahagsstefnu ríkisstj. Það er eins og fyrri daginn, að það er svolítið erfitt að átta sig á því, hvaða stefna verður ofan á hjá ríkisstj., eftir því, hvaða ráðh. talar á hverjum tíma.