16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í D-deild Alþingistíðinda. (3970)

32. mál, námskostnaður og styrkir til að jafna námsaðstöðu æskufólks í strjálbýli

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. Ingvar Gíslason hefur farið hér orðum um þessa till. okkar og taldi hana ekki tímabæra og ekki frumlega og ekkert gildi hafa og Alþ. yrði að sýna biðlund í þessu máli, því að það stæði eitthvað í málefnasamningnum um það, að það ætti að laga námsaðstöðu æskufólks í strjálbýli. Ég held nú, eins og hér hefur komið fram stundum áður, að hv. Alþ. hefði lítið að gera, ef það gæti treyst því, að umræddur málefnasamningur væri í einu og öllu framkvæmdur. Ég held, að þá gætu hv. þm. bara tekið sér frí og látið ríkisstj. um þessi mál. Hv. þm. benti á það, að framsóknarmenn legðu á þetta einna þyngsta áherzlu, höfuðáherzlu, að þetta atriði í málefnasamningnum yrði framkvæmt. Á þessum fjárlögum, sem nú liggja fyrir Alþ., eru ætlaðar til þessa máls 25 millj. kr. Það er að vísu veruleg hækkun, eins og hér hefur réttilega komið fram, frá því sem áður var, en hv. þm. hafði á síðasta þingi flutt till., hann hafði flutt frv. til l. um námskostnaðarsjóð, og þar er gert ráð fyrir, að sá sjóður hafi eftirgreindar tekjur, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Leggja skal gjald á allar vörur frá Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, svo og á hvers konar öl og gosdrykki. Skal gjaldið nema 5% af söluverði nefndra vara. Ráðh. setur nánari reglur um álagningu gjaldsins og innheimtu þess.

2. Framlag ríkissjóðs skal nema 150 kr. á hvern íbúa landsins, samkv. síðasta manntali.“

Þetta var mat hv. þm., þegar hann var í stjórnarandstöðu, um það, hvernig þyrfti að búa að nemendum úr strjálbýli. Ég skal svo ekki karpa um það við hann frekar hér, hvort okkar tilgangur með þessum tillöguflutningi sé sá að spenna hér bogann of hátt fyrir ríkisvaldið. Ég held, að þessi till. sé afar hógvær. Hún gerir ráð fyrir því, að mál þetta sé kannað ofan í kjölinn og síðan teknar ákvarðanir, sem leiða af þeirri könnun, þannig að reynt sé að finna það út, hvað í raun og veru þarf mikið fé til þess að jafna þennan mun að verulegu eða öllu leyti.

Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir þær undirtektir, sem komu hér fram hjá honum í ræðu hans um þetta mál, þó að það virtist vera svo, að hann teldi, að þessi till. væri nánast óþörf, vegna þess að málið væri í athugun. Það kann að vera, að þetta sé að sumu leyti rétt, en að öðru leyti ekki. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið frá menntmrn., hafa ekki farið fram athuganir á því, hver sé raunverulegur ferðakostnaður nemenda. Það hafa ekki heldur farið fram athuganir á því, hver sé raunverulegur dvalarkostnaður nemenda, sem þurfa að sækja skóla utan síns heimahéraðs, og það getur hver sagt sér það sjálfur, að sá kostnaður hlýtur að vera miklu meiri en 1.200 kr. á mánuði. Ég tel, að sá kostnaður liggi einhvers staðar á milli 5 og 10 þús. kr. á mánuði.

Það er alveg hárrétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að það er ekki bundið við strjálbýlið, þetta vandamál. Það er auðvitað til, að foreldrar eiga erfitt með að koma börnum sínum til framhaldsnáms, þó að þeir búi í þéttbýli og þar séu framhaldsskólar. Hitt er svo annað mál, að dvalarkostnaður nemenda úr strjálbýli og ferðakostnaður þeirra er alveg sér á parti fyrir þá foreldra, sem kosta þurfa börn sín til náms úr strjálbýli, og sá kostnaður er orðinn hrikalega hár. Ég held, að enginn geti neitað því.

Að lokum vil ég segja það, að ég fæ ekki séð, þó að þessu máli hafi verið áður hreyft á allt annan hátt en nú með þeirri þáltill., sem hæstv. ráðh. vísaði til og þeirri nefnd, sem nú hefur verið skipuð, að það hafi ekkert gildi, að Alþ. álykti í þessu máli. Ég fæ ekki annað séð, en að það sé einungis stuðningur við það starf, sem verið er að vinna í þessum efnum, og ég lít svo á, að í slíkum málum sem þessum eigi að vera sem mest samvinna milli Alþ. og ríkisstj., allra alþm. helzt, um framgang slíkra mála, þannig að ég fæ ekki annað séð en þessi till., sem hér er fram borin, sé stuðningur við þetta starf, sem ráðh. minntist á, hún sé tímabær og hún eigi fyllsta rétt á sér, og ég vil vænta þess, að hún fái hér eðlilega afgreiðslu.