16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í D-deild Alþingistíðinda. (3971)

32. mál, námskostnaður og styrkir til að jafna námsaðstöðu æskufólks í strjálbýli

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég held, að það sé ekkert ofmælt, þó að ég segi, að þar sem ég þekki til í dreifbýli landsins, þá sé ekkert mál til, sem á undanförnum árum hafi brunnið heitar á fólkinu í dreifbýlinu en aðstaða unga fólksins á þessum slóðum til náms, jafnvel ekki einu sinni rafmagnsleysið í þeim sveitum og byggðarlögum, sem enn þá eru utan við rafmagnsveitusvæðin. Það er þess vegna vissulega mjög mikil ástæða til þess að fagna þessari till., sem nú er fram komin hér og flutt er af tveimur hv. þm. úr Sjálfstfl. Við erum ekki búnir að gleyma því, að það kostaði heilt kjörtímabil að fá samþykkta á Alþ. till. um athugun á þessu máli, sem síðan leiddi fljótlega af sér byrjunarfjárveitingu. Og þótt lág væri upphæðin í fyrstu, var þetta út af fyrir sig mikill sigur í málinu. Brúarsporðinum var náð, og síðan hefur verið auðveldara að bæta við.

Nú eru þessar fjárveitingar hækkaðar verulega, eins og hér hefur komið fram, en það er þó sjálfsagt enginn vafi á því, að hér þarf betur að, að vinna, áður en fullt jafnvægi næst. Þess vegna er mikil ástæða til þess að fagna nýjum stuðningi við þetta mál, svo afdráttarlausum sem fram kemur í þessari till. Hitt er svo annað mál, að þessi stuðningur hefði auðvitað komið sér betur á þeim árum, meðan þyngst horfði í málinu, en nú, þegar það liggur fyrir allt í senn, að byrjað er að sinna málinu með fjárveitingum, að Alþ. hefur gert ályktun um skylda rannsókn og þá, sem hér er farið fram á, og menntmrn. hefur í framkvæmd gert þá rannsókn víðtækari og myndarlegri, vil ég segja, en ályktun Alþ. gaf tilefni til. Og svo í þriðja lagi, þó að hv. 1. flm. geri lítið úr því, þá er það yfirlýst í stjórnarsáttmála, að ríkisstj. vilji vinna sérstaklega að úrbótum á þessu sviði. Það má því kannske með nokkrum rétti segja, að till. út af fyrir sig sé ekki ýkja þörf, en eigi að síður er fullkomin ástæða til þess að fagna flutningi hennar og af þeim ástæðum. sem ég greindi.

Þessi till. er um framhaldsnám, og þær athuganir, sem settar hafa verið í gang, miðast við framhaldsnámið, aðstöðu fólks í dreifbýli til þess að kosta börn sín til framhaldsnáms, aðstöðu þess fólks, sem þarf að senda börnin að heiman á meðan þau eru í skóla. En ég kvaddi mér nú alveg sérstaklega hljóðs til þess að vekja athygli á öðru vandamáli, en þó mjög skyldu þessu. Heimansendingar barna, ef svo mætti segja, byrja nefnilega áður en kemur til framhaldsnáms. Þær byrja strax á skyldunámsstiginu. Og þótt á því stigi sé veittur alveg sérstakur viðbótarstuðningur með greiðslu hluta af heimavistarkostnaði við skyldunámsskólana, meiri en við aðra skóla, þá er það þó staðreynd, sem kannske engan þarf að undra, ef hann hugsar málið ofurlítið nánar, að efnalausu fólki — og kannske stundum úrræðalitlu — getur líka orðið það algerlega um megn að kosta 2—3 börn í heimavistarskóla samtímis. Því getur orðið það algerlega um megn.

Stjórnarskrá íslenzka lýðveldisins gerir ráð fyrir þessum möguleika. Í 71. gr. stjórnarskrárinnar segir svo:

„Hafi foreldrar eigi efni á að fræða sjálf börn sín, eða séu börnin munaðarlaus og öreigar, er skylt að sjá þeim fyrir uppfræðingu og framfæri af almannafé.“

Þetta stendur í stjórnarskránni og vitanlega er þetta ákvæði stjórnarskrárinnar einnig útfært í lögum. En þar er það útfært á þann hátt, að ef til kemur, að slíkrar hjálpar þurfi að leita, skuli sveitarfélögin veita hana. Í framkvæmd og í huga fólks er hjálp af þessu tagi hjá mörgu fólki metin hliðstæð sveitarstyrk. Þess vegna munu þess dæmi, að börn bókstaflega sitji heima hluta af sínum skyldunámstíma, vegna þess að foreldrarnir veigra sér við því að leita eftir þessari hjálp. Þetta er kannske ekkert óeðlilegt, þessi hugsun. Jafnvel sjálf stjórnarskrárgreinin, sem ég vitna í hér, gefur tilefni til þess, því að hér stendur hlið við hlið „er skylt að sjá þeim fyrir uppfræðingu og framfæri af almannafé.“

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég vek athygli á þessu vandamáli, og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. menntmrh., hvort nokkur athugun hafi farið fram á því, hversu þetta ákvæði stjórnarskrárinnar sé í raun og veru haldið, hvort það hafi ekki komið fram við rn. neinar beinar óskir um það, að þetta verði athugað. Ég skal geta þess, að ég spyr alveg að gefnu tilefni frá skólamönnum úti í dreifbýlinu, sem hafa innt eftir þessu við mig oftar en einu sinni. Ég skal taka það fram, að ég hef ekki ástæðu til að halda, að þetta sé mjög almennt, að börn fái ekki notið skyldunámsins sökum fátæktar framfærenda. Og það má þess vegna kannske segja, að þetta sé ekki stórmál að fyrirferð. En það er að kjarna mjög alvarlegt mál, ef þetta ákvæði stjórnarskrárinnar er ekki framkvæmt í reynd. Á það verður að líta mjög alvarlegum augum að mínum dómi.