16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í D-deild Alþingistíðinda. (3976)

32. mál, námskostnaður og styrkir til að jafna námsaðstöðu æskufólks í strjálbýli

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. frekar en orðið er, vildi rétt aðeins koma fram með örstutta aths. Hv. 3. þm. Norðurl. e. kom hér enn í ræðustól og taldi, að þessi till. væri síðbúin og óþörf, vegna þess að málin væru í athugun í nefnd. Þegar þessi till. kom hér fram á Alþ. fyrir alllöngu síðan. — hún hefur ekki fengizt rædd um nokkurt skeið, vegna þess að ýmislegt hefur komið inn í það, menn hafa verið fjarverandi ýmsir, sem hafa viljað vera hér við, þegar till. átti að koma hér fram, o.s.frv., en hún er búin að liggja hér nokkuð lengi fyrir Alþ., — þá var þessi nefnd ekki fullskipuð, sem ráðh. hefur nú sagt hér, að væri starfandi. Auk þess sagði hæstv. ráðh. í ræðu sinni: Það má gera ráð fyrir, að þessi nefnd kanni þá hluti, sem fram koma í till. Ég fæ ekki skilið, að Alþ. geti ekki ályktað í slíku máli, sem þannig er um háttað, og ég fæ ekki séð annað en að það sé stuðningur við málið í heild, stuðningur við starf þessarar umræddu nefndar, stuðningur við hæstv. ríkisstj., ef hún vill vinna að þessu máli, að þessi till. verði samþ. hér á Alþingi.