06.12.1971
Neðri deild: 22. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í D-deild Alþingistíðinda. (3992)

109. mál, leigugjald fyrir íbúðir

Flm. (Sigurður E. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 131 ályktunartillögu þess efnis, að ríkisstj. verði falið að láta fram fara könnun á því, með hverjum hætti tryggja megi, að leigugjaldi fyrir íbúðir verði í hóf stillt og komið í veg fyrir húsaleiguokur. Um þörfina fyrir þessa könnun o.fl. vil ég því leyfa mér að fara nokkrum orðum.

Ekki liggur ljóst fyrir, svo að óyggjandi sé, hve margar íbúðir eru nú fyrir hendi í landinu. Er könnun á því jafnan gerð á 10 ára fresti, og er hin síðasta, sem miðuð er við skattframtal. fyrir árið 1970, ekki enn tilbúin. Fróðustu menn um þessi mál hafa þó tjáð mér, að gera megi eindregið ráð fyrir því, að íbúðafjöldinn í landinu sé nú samtals u.þ.b. 53—54 þús. Þeir sömu vísu menn telja, að þar af séu því sem næst 80% eignaríbúðir eða 43 þús. talsins, en 20% leiguíbúðir eða u.þ.b. 10—11 þús. talsins. Ekki er vitað, hve stór hluti leiguíbúðanna er í opinberri eða félagslegri eigu, en ólíklegt þykir mér, að þær séu öllu fleiri en 1.000 samtals. Á þar langstærstan hlut að máli borgarsjóður Reykjavíkurborgar, sem átti um s.l. áramót 536 íbúðir. Virðist mér, að við þá tölu þurfi að bæta a.m.k. 140 íbúðum. er fullgerðar hafa orðið á árinu við göturnar Yztafell og Norðurbrún í Reykjavík. En sjálfsagt er einnig nokkuð um það, að önnur sveitarfélög eigi íbúðir, sem leigðar eru, þótt eigi muni vera mikil brögð að því. Þá mun ríkið einnig, eiga leiguíbúðir, einkum embættisbústaði, og loks eiga ýmsar stofnanir og félagasamtök íbúðir, sem leigðar eru. Meðal þeirra eru elliheimilin og Öryrkjabandalag Íslands, svo að dæmi séu tekin. Síðast en ekki sízt eru leiguíbúðir í eigu einstaklinga, og er það sýnilega langstærsti hluti þeirra. Fáir einstaklingar munu þó eiga margar íbúðir, sem eru leigðar með samfelldum hætti, þótt dæmi séu þess. Reglan er sú, að mikill fjöldi manna á íbúðir, sem þeir þurfa ekki að nota í eigin þágu og eru því leigðar öðrum. Ekki veit ég, hvort það kemur mönnum á óvart, hve fjöldi almennra leiguíbúða virðist vera mikill þ.e. um 10—11 þús. íbúðir, fimmtungur allra íbúða í landinu. Hins vegar kemur það á óvart, hvernig samfélagið hefur langtum of lengi látið næstum sem það sæi ekki vanda þeirra, sem þarna eiga hlut að máli. Mikið vanta á, að hann hafi verið tíðræddur í sölum Alþingis á umliðnum árum, og er svo enn. Það er því fyllsta ástæða til þess að gefa því máli nokkurn gaum nú og verja nokkrum mínútum af dýrmætum tíma hv. Alþingis í því skyni.

Vafalaust munu allir samsinna þeirri skoðun, að yfirleitt geri menn vel við eigin íbúðir, haldi þeim vel við og láti fram fara nauðsynlegar viðgerðir svo fljótt sem við verður komið. Þetta kemur vissulega fram í því, að eftir því sem bezt er vitað, eru eignaríbúðir yfirleitt í góðu ásigkomulagi. Á hinn bóginn get ég ekki neitað því, að með mér býr grunur um, að eigi sé á það lögð jafnmikil áherzla af hálfu eigenda leiguíbúða að halda þeim í betra ásigkomulagi en nauðsyn krefur, oft og tíðum a.m.k. Væri málið skoðað niður í kjölinn, er ég sannfærður um, að leiguíbúðir eru upp til hópa í lakara ástandi, en eignaríbúðir eru almennt. Ég er líka sannfærður um, að í hópi leiguíbúðanna eru hlutfallslega mun fleiri íbúðir, sem hvorki hafa verið byggðar með samþykki hlutaðeigandi byggingaryfirvalda né heilbrigðisyfirvalda. Og í framhaldi af þessu þykist ég einnig fullviss þess, að lélegar og heilsuspillandi íbúðir séu mun fleiri meðal leiguíbúða en meðal eignaríbúða. Á hinn bóginn tel ég svo fullvíst, að menn muni verða sammála því, að þeir, sem eiga fleiri en eina íbúð, búi sjálfir í þeirri beztu, en leigi hinar lakari. Lélegar íbúðir taka hins vegar ekki þeir á leigu, sem hafa efni á öðru betra. Á þessu sviði sem svo mörgum öðrum verður því reyndin sú, að þeir, sem eru verst efnum búnir, neyðast til að lúta því, sem lakast er. Í flestum tilfellum er þar um að ræða láglaunafólk, oft með stórar fjölskyldur, aldrað fólk með lágar tekjur, ungt fólk við nám eða með stórar fjölskyldur, sjúkt fólk og fleira. Fæst þessa fólks á þess kost að fá leigðar íbúðir, sem ætlaðar eru sérstaklega handa því. Þvert á móti verður flest að sæta því að leita á náðir hinna, sem eiga fleiri en eina íbúð og leigja út í ábataskyni, þ.e. á hinn almenna markað. Þar er barizt hart á báða bóga og í fæstum tilfellum miskunn sýnd. Að vísu gildir þar ekki lögmálið um peningana eða lífið, þótt stundum sé að vísu mjótt á þeim munum, heldur lögmál einkaframtaksins í allri sinni dýrð, lögmálið um peningana eða húsnæðið. Sá, sem ekki getur boðið nógu hátt leigugjald, skal ekkert húsnæði fá, sama hvað fjölskyldan er stór. Þess í stað skal hinn fá íbúðina leigða, sem bezt býður, sama hvort hans fjölskylda er lítil eða stór.

Öll þessi mál hafa verið óvenju mikið í sviðsljósinu í haust, einkum hér á Reykjavikursvæðinu. Stafar það af því, að er hausta tók, komu í ljós mikil dulin húsnæðisvandræði, er menn höfðu ekki vitað af. Síðan hefur margt komið fram, er sýnir, hvílíkt ófremdarástand ríkir í þessum efnum. Hefur það einkum verið í Reykjavik og næsta nágrenni, en raunar er einnig vitað um mikil húsnæðisvandræði í mörgum kaupstöðum og öðrum sveitarfélögum annars staðar í landinu.

Engin almenn eða opinber skýrslugerð er til um þetta ástand, svo að mér sé kunnugt, þegar undan er talin skýrslugerð Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar. Samkv. upplýsingum, sem ég hef aflað mér, hafa enn á þessu ári, þ.e. frá síðustu áramótum fram til 1. des., borizt 409 umsóknir um leiguíbúðir. Mjög margar þeirra hafa fengið afgreiðslu með ýmsum hætti. Enginn vafi er þó á því, að húsnæðisvandræðin í Reykjavík og byggðarlögunum í nágrenninu hafa verið miklum mun meiri í haust en þessi tala segir til um, því að eflaust hafa ekki aðrir látið skrá sig eða leitað til Félagsmálastofnunarinnar en þeir, sem við mestu vandræðin hafa búið. Er því ljóst, að vandinn hefur verið gífurlegur og er enn að þó nokkru leyti fyrir hendi. Ég skal ekki fara út í að skýra orsakir hans, þótt ljóst sé, að meðal hans er mikil fjölgun ungs fólks á giftingaraldri, svo og óvenjugóð efni alls almennings. En ég vil ekki láta hjá líða að rekja nokkur dæmi þess, hvílíkum kostum menn hafa mátt sæta, því að einmitt þau sýna betur og sanna, en flest rök, hve mikil þörf er á að hafa uppi nokkrar aðgerðir á þessu sviði, svo að verði og öðru sé í hóf stillt og forðað okurleigu.

Fyrsta dæmið og hið skaplegasta segir frá fimm manna fjölskyldu, sem leigir fjögurra herbergja íbúð í Fellsmúla í Reykjavík. Leigugjaldið er 9 þús. kr. á mánuði, og voru 50 þús. kr. greiddar fyrir fram. Ekki er mér kunnugt um, hvort einhver hluti leigugjaldsins er svikinn undan skatti eður ei.

Næsta dæmi segir frá fimm manna fjölskyldu, sem leigir þriggja herbergja íbúð í Breiðholti í Reykjavík. Hún greiðir 8.500 kr. á mánuði í leigugjald, gerir það mánaðarlega og þurfti ekki að greiða neitt fyrir fram. Samið var um, að leigutaki gefi upp til skatts, að hann greiði aðeins 4 þús. kr. á mánuði í húsaleigu.

Þriðja dæmið og hið versta segir frá einstæðri móður með barn, sem leigir tveggja herbergja íbúð í miðborg Reykjavikur. Fyrir hana greiðir hún 10 þús. kr. á mánuði, 70 þús. kr. mátti hún greiða fyrir fram, en jafnframt að undirgangast að gefa ekki upp til skatts einn eyri af þessu leigugjaldi, að því er heimildarmaður minn sagði mér.

Auðvitað eru til fjöldamörg dæmi þessu lík. Þetta er ekki skemmtilegt til frásagnar, en er samt nauðsynlegt að rekja, slíkt ófremdarástand sem þetta á fullt erindi inn í hina virðulegu sali Alþingis.

Í framhaldi af þessu vil ég ekki láta hjá líða að rekja með nokkrum orðum könnun, er fram fór fyrir u.þ.b. 3 vikum á vegum áreiðanlegs, opinbers aðila í Reykjavík á leigugjaldi því, er 86 láglaunafjölskyldur í Reykjavik greiða nú í ár fyrir leiguíbúðir. Könnunin leiddi það í ljós, er nú skal greina. Fyrir eitt herbergi og eldhús greiddu fjölskyldur að meðaltali 36 þús. kr. á ári auk rafmagns og hita. Fyrir tvö herbergi og eldhús voru greiddar að meðaltali 59.788 kr. á ári auk rafmagns og hita. Fyrir þriggja herbergja íbúð og eldhús voru greiddar að meðaltali 73.004 kr. á ári auk rafmagns og hita. Fyrir fjögur herbergi og eldhús voru greiddar að meðaltali 87.680 kr. á ári auk rafmagns og hita. Og fyrir fimm herbergja íbúð og eldhús voru greiddar að meðaltali 117 þús. kr. á ári auk rafmagns og hita. Verðið reyndist svo nokkru lægra, þegar í hlut áttu íbúðir, sem ekki voru á hæð, þ.e. í kjallara, í rishæð eða í öðrum slíkum stöðum. Í slíkum tilfellum var ársleigugjald fyrir tveggja herbergja íbúð 41.300 kr. að meðaltali, fyrir þriggja herbergja íbúð 55.333 kr. að meðaltali og fyrir fjögurra herbergja íbúðir reyndist ársleiga 54 þús. kr. Í síðasta tilfellinu náði könnunin aðeins til tveggja íbúða og niðurstaðan því ekki byggð á nógu víðum grundvelli.

Nú er skemmst frá því að segja, að áður greindar meðaltalstölur bera sem slíkar ekki keim af húsaleiguokri, þótt sumum kunni jafnvel að þykja þær fullháar. En þá er á það að líta, að hér er aðeins um meðaltalstölur að ræða. Sýnilega eru fjöldamargar íbúðir leigðar á mjög skaplegu og hóflegu verði og er sannarlega gott til þess að vita. En sýnilega eru líka mjög margar íbúðir leigðar allt of dýru verði. Í umræddri könnun reyndist t.d. leigugjaldið fyrir þriggja herbergja íbúðirnar vera á bilinu 42 þús. kr. til 100 þús. kr. á ári, en meðaltalið fyrir þá íbúðarstærð reyndist, eins og áður sagði, kr. 73.004 kr. Í könnun þessari kom einnig fram, að sáralitill munur er á leigugjaldi í Kópavogi og Reykjavik. Það kom líka fram, að leigugjald hefur sterka tilhneigingu til að fara hlutfallslega lækkandi, því lengur sem leigutakinn leigir íbúðina. Aðrar athuganir ásamt þessari benda til þess, að söluverð íbúða hafi á tímabilinu frá 1970 hækkað að meðaltali um 20%, en á sama tíma hafi leiguverð samkv. nýjum leigusamningum hækkað um 8—10%. Og talið er, að leigugjald sé nú almennt séð u.þ.b. 6% af samningsbundnu söluverði íbúða. Þessi könnun, er ég hef nú greint hv. Alþ. frá, er mjög svo ný af nálinni og gerð af traustum aðila eftir eins áreiðanlegum heimildum og fáanlegar voru. Í framhaldi af því vil ég nú leyfa mér að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. félmrh., ef hann hefur tök á að svara því svona snarhendis, hvort verðstöðvunarlögin hafi ekki átt að ná til íbúðaverðs og leigugjalds fyrir íbúðarhúsnæði og hvort því hafi þá verið framfylgt af þessari hæstv. ríkisstj. eða hinni fyrri.

Þeir, sem um húsnæðismál hafa fjallað á undangengnum áratugum, hljóta að viðurkenna, að þar hefur verið lögð yfirgnæfandi áherzla á sjálfseignarstefnuna í húsnæðismálunum, og það svo rækilega, að leiguíbúðirnar og íbúðarleigjendur hafa orðið nær alger hornreka, gleymd börn, tröllum gefin. Samt sem áður er hér um mjög fjölmennan hóp að ræða. Áður hefur komið fram, að telja má víst, að leiguíbúðirnar séu u.þ.b. 10—11 þús. talsins. Búi nú 3–4 í hverri þeirra, eiga hér hlut að máli u.þ.b. 30—40 þús. manns. Þetta er ekki lítill fjöldi. Samt nýtur hann engrar verndar og engra lögverndaðra réttinda gagnvart leigusölum, sem í flestum tilfellum eru eignamenn, sem leitast við að varðveita gildi fjármuna sinna með því að hafa þá fólgna í íbúðarhúsnæði. Þeim er veittur allur réttur gagnvart hinum, sem eftir leiguíbúðum leita. Þar gildir réttur hins sterka gagnvart hinum veika. En það er ekki aðeins, að eigendur leiguíbúða eigi þar verðtryggða fjármuni, heldur selja þeir afnotaréttinn einnig að jafnaði hæstbjóðanda, sem jafnframt verður að skuldbinda sig til að veita leigusalanum umtalsverð skattfríðindi, ef almannarómur segir satt. Er það eitt alvörumál út af fyrir sig, ef satt er, að almenn skattsvik þróist í skjóli 10—11 þús. leiguíbúða í landinu. En upp á þetta er þeim boðið, sem minnsta hafa burðina, lágtekjufólkinu, barnmörgu fjölskyldunum, sjúklingum, öldruðu fólki og ungu. Ég álít, að hér sé um svo mikið félagslegt vandamál að ræða, að með öllu sé óhjákvæmilegt, að hið opinbera komi til skjalanna til tryggingar því, að hinn réttindalausi skari 30—40 þús. Íslendinga, sem í leiguíbúðum búa, verði ekki að sæta hverjum þeim kjörum eða afarkostum, sem gróðaöflum þóknast að bjóða þeim. Eigi þeir að geta notið þess frumskilyrðis fyrir heilbrigðu fjölskyldulífi, sem sómasamlegt íbúðarhúsnæði á skaplegu verði og með skaplegum kjörum er. Því er þáltill. flutt.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, víkja nokkrum orðum að öðrum atriðum þessara mála. Einkum langar mig að ræða nokkrum orðum það viðhorf eignamanna, að leigugjald fyrir íbúðarhúsnæði skuli og eigi að öllu eðlilegu að svara til vaxta af þeirri fjárhæð, sem fengist fyrir íbúðina á frjálsum markaði, eða a.m.k. duga til þess að borga vexti og afborgun af þeim lánum, er á henni hvíla. Þessa kröfu setur íbúðareigandinn gjarnan fram til viðbótar því, að hann nýtur í raun verðtryggingar á fjármunum sínum í viðkomandi íbúð, og krefst svo gjarnan í ofanálag skattfríðinda. Í mínum augum er þetta viðhorf beinlínis fáránlegt. Það getur e.t.v. gilt um skrifstofur og verzlunarhúsnæði, vöruskemmur og fleira þess háttar, en það getur ekki gilt um íbúðarhúsnæði. Það er svo sérstaks eðlis, að lögmál peningamarkaðarins geta engan veginn gilt um það í einu og öllu. Þvert á móti. Húsnæðismál eru fyrst og fremst félagsmál og verða því í öllum meginatriðum að meðhöndlast sem slík. Íbúðarhúsnæði á því að lúta félagslegum lögmálum, svo sem framast er unnt, að því er varðar kerfisbyggingu, fjármögnun og notkun. Íbúðarhúsnæði, sem lýtur peningalegum lögmálum í öllum meginatriðum, eins og of stór hluti alls leiguhúsnæðis sýnilega gerir, er íbúðarhúsnæði á villigötum, angi af því auðvaldsþjóðfélagi, sem tekur fjármagnið fram yfir manninn í stað þess að láta fjármagnið lúta þörfum og hamingju mannsins og fjölskyldunnar, eins og gert er, þar sem félagshyggjan ræður ríkjum í húsnæðismálunum. Það er líka meira en tími til kominn, að menn átti sig á því, að íbúðir eru ekki hlutir til að braska með, og auðvitað eiga menn ekki að þurfa að braska til þess að komast yfir svo sjálfsagðan hlut sem íbúðarhúsnæði fjölskyldunnar er. Fjármagn, sem á að skapa eigendum sínum gróða, á ekki erindi og á ekki að vera fyrir hendi í íbúðarhúsnæði. Fjölskylduíbúðir eru ekki hlutur fyrir menn til að græða peninga á, en þannig virðast fullmargir hafa hugsað fulllengi, og því hefur slíkt svo sannarlega viðgengizt of lengi í því þjóðfélagi gróðahyggjunnar, sem við búum í.

Herra forseti. Mér er ljóst, að hér er um að ræða mikið vandamál, sem erfitt er að leysa. Ég get ekki með neinu móti fallizt á þá skoðun, að vandann eigi að sniðganga, láta sem menn sjái hann ekki og þá muni hann gleymast. Mér er ljóst, að á honum eru margar hliðar og engan veginn verður hann leystur á einni nóttu. Auðvitað hefur margur miklu meiri vandi verið leystur, og meira að segja þessi verður ekki stór hjá mörgum þeim, sem hv. Alþ. mun fást við á þessu kjörtímabili. Aðalatriðið er að kanna hann til fulls og ráðast síðan til atlögu við hann eftir ýmsum leiðum. Einmitt það er efni minnar till., sem ég leyfi mér að vona, að hv. þm. taki vel.

umr. loknum geri ég till. um, að henni verði vísað til hv. heilbr.— og félmn.