30.11.1971
Sameinað þing: 18. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í D-deild Alþingistíðinda. (4027)

53. mál, íslenskt sendiráð í Kanada

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Mér heyrðist vera svo lítill urgur í hv. 1. flm. þessarar till. yfir því, að ég skyldi leyfa mér að gera hana að umtalsefni hér á þriðjudaginn var, að gefnu tilefni. En hér var á þriðjudaginn, eins og hv. þm. er kunnugt, flutt skýrsla um utanríkismál og þar á meðal um staðsetningu sendiráða, sem til stendur að endurskipuleggja, og í tilefni af þeim kafla ræðunnar mun hv. 8. landsk. þm., að mig minnir, hafa rætt um það, að til greina kæmu ýmsar breytingar, sem hann gat um, t.d. stofnun sendiráðs í fjarlægari Austurlöndum eða stofnun sendiráðs í Kanada. Þetta var ástæðan til þess, að ég gerði þetta mál að umtalsefni með örfáum orðum.

Ég vil ekki kannast við, að það sé neitt óeðlilegt, að utanrrh. hverju sinni hafi skoðun á þeim till., sem fram koma um breytingar á utanríkisþjónustunni, og ég vil nú segja það, að sú framsöguræða, sem hv. 5. landsk. þm. flutti. kom ekki með nein ný rök fyrir því að stofna sendiráð í Kanada. Þau rök, sem hann flutti, sem vissulega eru til athugunar, eru öll í grg. með frv., og ég leyfði mér að minnast á þau nokkrum orðum um daginn og sagði sem svo, að það væri vissulega allt rétt, sem í grg. segir um gott samband við Kanada og mikinn fjölda íslenzk ættaðra manna í því landi og þess vegna væri Kanadaþjóðin alls góðs makleg frá okkar hálfu. En ég leyfði mér að bæta því við, og við það mun ég standa fyrir mitt leyti, að ég tel, að fyrir hagsmunum okkar í Kanada sé vel séð, bæði vegna þess að við höfum nú þegar tvö sendiráð í Norður-Ameríku, hjá Sameinuðu þjóðunum í New York og í Washington og svo líka vegna hins, að við höfum mjög mikið af duglegum konsúlum í Kanada, sem flestir eru af íslenzkum ættum og eins og ég leyfði mér að segja hér á þriðjudaginn var, spara hvorki fé né fyrirhöfn til þess að halda uppi merki Íslands. Auk þess er Kanadaþjóðin okkur mjög vilhöll í alla staði.

Það er vissulega vel hugsað, og ég er ekki að bera á móti því, að það geti verið heppilegt að sýna vinveittum þjóðum, sem standa með okkar málstað, þann sóma að opna þar sendiráð, og ef sú verður niðurstaða hv. alþm., að verja beri meira fjármagni til utanríkisþjónustu en verið hefur um skeið, þá er það sjónarmið, sem vissulega kemur til athugunar. En meðan svo er farið, að fjárveitingar til utanríkismála eru skornar svo við nögl sem raun ber vitni, þá finnst mér, að það sé ríkari ástæða til þess að stofna sendiráð annars staðar en í Kanada. Ég hef ekkert á móti því, að einstakir þm. reyni að hafa áhrif á það, hvernig utanríkisþjónustunni er breytt, það tel ég sjálfsagt. Þess vegna hef ég síður en svo neitt á móti þessari till., að hún komi fram og þeirri hugsun, sem hún býr yfir, sé lýst hér og hún verði athuguð í utanrmn. Það finnst mér sjálfsagt. En það er náttúrlega ekki nægilegt að mínum dómi til þess að gera grein fyrir því, að svona till. auki ekki útgjöld til utanríkisþjónustu, að segja bara það, að hún eigi ekki að auka útgjöld til utanríkisþjónustu og það eigi bara að leggja niður eitthvert sendiráð í staðinn. Ég vil mjög mælast til þess, að flm. geri það upp við sig og geri þm. grein fyrir því þá, hvaða sendiráð það er, sem á að leggja niður í staðinn fyrir það, sem opnað verður í Kanada, því að það skiptir vissulega verulegu máli. Ég hef að vísu bent á það hér við umr. fyrr, að vegna hugsanlegra breytinga á Fríverzlunarsamtökum Evrópu geti komið til þess, að sendiráð okkar eða skrifstofa okkar í Genf verði óþörf og henni verði lokað. Það má vel vera, að það sé þessi skrifstofa eða það fjármagn, sem fer til þessarar skrifstofu, sem hv. flm. till. um sendiráð Íslands í Kanada ætla að greiða kostnaðinn af sendiráðinu með, en þá held ég, að væri mjög nauðsynlegt, að þeir í fyrsta lagi gerðu grein fyrir því, að það væri það fjármagn, og í öðru lagi tjáðu sig þá um það ákveðið, að það sé fyrst og fremst sendiráð í Kanada, sem Ísland þurfi á að halda til viðbótar sinni utanríkisþjónustu. Það er sjónarmið út af fyrir sig, eins og ég sagði hér áðan, og ég hef síður en svo á móti því, að utanrmn. og Alþ. geri það upp. Kannske er það skoðun Alþingis, en það er ekki mín skoðun, eins og sakir standa, að það, sem íslenzkum utanríkismálum liggi allra mest á í svipinn, sé sendiráð í Kanada, og ég verð að biðja þm. að virða mér það til vorkunnar og hv. 1. flm. þá líka, þó að ég láti þessa skoðun í ljós við 1. umr.