30.11.1971
Sameinað þing: 18. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í D-deild Alþingistíðinda. (4028)

53. mál, íslenskt sendiráð í Kanada

Flm. (Stefán Gunnlaugsson):

Herra forseti. Það hefur komið ákaflega skýrt fram af því, sem hæstv. utanrrh. hefur hér sagt, hver afstaða hans er til þeirrar till., sem hér er til umr. Hann hefur sína skoðun á þessu máli og það þjónar ekki neinum góðum tilgangi að fara að pexa við hann hér um þá skoðun hans. En ég er ekki talsmaður þess, eins og raunar kom fram í mínum orðum hér áðan, að það eigi að fara að skera niður utanríkisþjónustu okkar. Ég tel, að það beri miklu fremur að efla hana til stærri átaka á því sviði, þar sem hún á að starfa og helzt að beita sér. Það reyndi ég að taka skýrt fram hér í orðum mínum áðan. Og þegar það kemur fram í grg. með þessari till., að hún sé ekki hugsuð til aukningar á útgjöldum á þessu sviði, þá er það fyrst og fremst vegna þess, að ég hygg, því miður, að hv. þm. geri sér almennt ekki grein fyrir mikilvægi þess starfs, sem utanríkisþjónustan vinnur. Mér hefur fundizt það koma fram hér á undanförnum árum í umr. á Alþ. Þess vegna töldum við kannske vænlegra til árangurs til þess að fá málið fram, eða það sem fyrir vakir með till., að gera ekki ráð fyrir fjölgun sendiráða, heldur hinu að eitthvert þeirra, sem þegar er fyrir hendi, verði fært til.

Ég veit ekki, hvort það er eðlilegt, að ég fari að úttala mig á þessum vettvangi um það sendiráð eða þau, sem ég hef í huga og mætti kannske fella niður eða flytja til Kanada, en hæstv. ráðh. minntist á eitt sendiráð í því sambandi, og það gæti virkilega komið til álita, að einmitt það flytti til Kanada. Ég sé annars ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um það, sem fram hefur komið hér hjá hæstv. ráðh.