07.12.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í D-deild Alþingistíðinda. (4036)

107. mál, sjómælingar

Flm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Á þskj. 128 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um sjómælingar ásamt þrem öðrum hv. þm. Sjálfstfl.

Till. hljóðar svo: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að sjómælingum við Ísland verði hraðað svo sem unnt er. Jafnframt verði stefnt að því að afla sem gleggstrar alhliða vitneskju um landgrunnið allt, svo sem víðáttu þess, dýpistakmörk, botnlag og hvers konar notagildi.

Kostnaður sá, er af ályktun þessari leiðir, greiðist úr ríkissjóði.“

Till. þessari fylgir all ítarleg grg., svo að ekki er þörf á langri framsögu. Ég vil aðeins geta þess, að aðalmarkmið sjómælinga er gagnasöfnun á hafinu umhverfis landið. Allt þetta starf miðar að því m.a. að auka öryggi sjómanna bæði á fiskiskipum og farskipum, við sjóróðra og siglingar við strendur landsins og á hafi úti. Það er, eins og bent er á í grg., skylda hverrar sjálfstæðrar þjóðar að þekkja land sitt sem bezt, en hún verður einnig að leggja áherzlu á að kanna umhverfi þess og þekkja það. Þess vegna eru sjómælingar og þær rannsóknir, sem á þeim byggjast, unnar í þágu alþjóðar, ekki síður en t.d. landmælingar.

Þegar á það er litið, að aðeins litill hluti af hafsvæðinu kringum Ísland hefur verið nákvæmlega mældur, má gera sér í hugarlund, hve stórt verkefni er hér fyrir höndum. Ég ætla ekki að rekja sögu íslenzkra sjómælinga hér í þessum orðum. Að þeim er fyrst unnið af dönsku sjómælingastofnuninni, en síðan koma til skjalanna Íslendingar og ber þar hæst nöfn þeirra Friðriks V. Ólafssonar skipherra og síðar skólastjóra og Péturs Sigurðssonar forstjóra Landhelgisgæzlunnar. En eins og menn vita, eru Sjómælingar Íslands nú sjálfstæð stofnun, sem lýtur dómsmrn., og er forstöðumaður þeirra Gunnar Bergsteinsson. Geta má þess, að Ísland er aðili að Alþjóðasjómælingastofnuninni, en um þetta efni eru ekki til nein lög eða reglugerðir hér á landi. Einu lagaákvæðin, sem að þeim lúta, eru ákvæði fjárlaga frá ári til árs, þar sem fé hefur tíðast verið veitt í mjög litlum mæli.

Aðalmarkmið sjómælinga er að sjálfsögðu að kanna dýpi sjávarins, en á því byggist svo fjöldamargt annað, eða eins og núverandi forstöðumaður hefur sagt, með leyfi hæstv. forseta:

„Eitt af brýnustu verkefnunum í náinni framtíð er gagnger nýmæling á öllu landgrunninu, ekki aðeins með tilliti til siglinga og fiskveiða, heldur einnig athugun á botni landgrunnsins til þess að kanna möguleika á hagnýtingu þess, sem þar kann að finnast.“

Ég hygg, að það sé almennt viðurkennt, að sjómælingar séu nauðsynlegar, og hirði því ekki að telja upp öll þau rök, sem þar að lúta. Þó get ég aðeins nefnt í viðbót við það, sem segir í grg., að það er heldur óviðkunnanlegt, þegar útlendingar fara fram á að mæla sjódýpi og rannsaka hafið allt upp í landsteina, að þeir geti skírskotað til þess, að það verk sé svo illa unnið af landsmönnum sjálfum.

Verkefni Sjómælinga Íslands eru mörg og mikilvæg. Fiskimenn þurfa góð fiskikort og sjófarendur góð hafnarkort til þess að auka öryggi þeirra við siglingar inn á hafnir landsins. Það eru ýmis tæki, sem Sjómælingar Íslands vanhagar um. Ég vil minnast á jafn sjálfsagðan hlut og nýjan dýptarmæli, en erindi um það mun nú liggja fyrir fjvn.

Sjómælingar Íslands hafa notið góðs af samvinnu við starfsmenn vita— og hafnarmála og landhelgisgæzlu og hafa getað notað skip þessara aðila við mælingarnar. En á árunum 1946—1961 áttu Sjómælingar eigið skip. Það var um 30 smálestir að stærð og var notað í þágu mælinganna árlega. Nú er það löngu ónothæft og úr sögunni. Þess vegna vil ég leggja ríka áherzlu á það, að eitt af því brýnasta, sem Sjómælingar þurfa á að halda nú, er lítið skip til að geta stundað mælingar með ströndum fram með öryggi strandsiglinga og sjómanna í strandsiglingum í huga.

Það er svo rétt að minnast á það, að við erum búnir að samþykkja lög um yfirráðarétt íslenzka ríkisins yfir öllu landgrunninu og útfærsla fiskveiðimarkanna liggur í loftinu. Bætast þá enn stórverkefni á herðar Sjómælinga, þ.e. staðsetning fiskiskipa í stækkaðri fiskveiðilandhelgi.

Af því, sem hér hefur verið drepið á og nánar er rakið í grg., má ljóst vera, að ríka nauðsyn ber til þess að hraða sjómælingum hér við strendur landsins svo og á gervöllu landgrunninu. Að sönnu er svo með þetta viðfangsefni, eins og svo mörg önnur, að það krefst fjár til framkvæmda. Þá staðreynd verður að horfast í augu við. Þess vegna er lagt til, að þessari till. verði vísað til hv. fjvn. Ég leyfi mér að vænta þess, að hún hljóti þar gaumgæfilega athugun og góða afgreiðslu.