16.11.1971
Sameinað þing: 14. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í D-deild Alþingistíðinda. (4049)

36. mál, rekstraraðstaða félagsheimila

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Till. sú til þál., sem ég hef leyft mér að flytja um bætta rekstraraðstöðu félagsheimila, þarfnast ekki langrar skýringar umfram það, sem segir í grg. Það er staðreynd, að rekstrarafkoma margra félagsheimila er afar bágborin, þó að til komi oft verulegur stuðningur af hálfu viðkomandi sveitarfélaga. Félagsheimili þau, er ég þekki til, berjast mörg hver í bökkum og m.a. vegna erfiðleika þeirra er þessi till. flutt. Þetta eru glæsilegar byggingar, stolt sinna byggðarlaga og það er í senn metnaðarmál og sanngirnismál, að þau geti starfað við sem eðlilegastar aðstæður. Félagsheimilin byggja rekstur sinn öðru fremur á almennu skemmtanahaldi. Ber þar hæst dansleiki og kvikmyndasýningar og skal síður en svo út á það sett, þó að gjarnan mættu þær samkomur nú sumar hverjar vera með örlítið meiri menningarblæ. En það er önnur saga. Allt skemmtanahald er hins vegar orðið kostnaðarsamt, svo kostnaðarsamt, ef taka á góða skemmtikrafta héðan úr borginni, að með ólíkindum má telja. Þó virðist hér vera um að ræða nauðsyn, ef nokkur ábatavon á að vera. Unga fólkið, sem t.d. yfir sumartímann ber uppi aðsókn að þeim félagsheimilum. sem ég þekki til, vill einfaldlega ekki una öðru en því bezta, þ.e. því bezta að þeirra dómi. Þetta vita svo hljómsveitar meðlimir og aðrir skemmtikraftar og spenna bogann óspart hærra, enda er eftirspurn og samkeppni mikil. Ágóðinn af slíkum samkomum er svo að vísu oftast nokkur, en þó hverfandi hluti af t.d. heildarsölu á fjölsóttum dansleik. Sá þáttur, sem lýtur að kvikmyndasýningum. er vissulega mikill í rekstri húsanna, en eftir tilkomu sjónvarpsins er orðin þar mikil breyting til hins verra. Fólk sækir ekki kvikmyndasýningar í nándar nærri jafn ríku mæli og áður, og þessi tekjulind hefur því skerzt stórlega, að vísu mjög misjafnlega eftir stöðum, að ég hygg. Við þessa þætti starfseminnar, skemmtanahaldið, einskorða félagsheimilin sig svo af þeirri einföldu ástæðu, að þar er þó helzt um ábata að ræða.

Eftir að farið er að reka félagsheimili sem sjálfstæðar stofnanir, eins og víðast er gert nú, a.m.k. á þéttbýlisstöðum, þá fer ekki hjá því, að til þeirra verði einnig að gera kröfur um beint frumkvæði á hinu menningarlega sviði, en þá verður líka að vera tryggt, að rekstrarafkoman leyfi slíka starfsemi, sem í flestum tilfellum hlýtur að vera kostnaðarsöm, en gefa lítinn arð. Félagsheimilin hafa líka oft í viðleitni sinni til fjáröflunar orðið að víkja til hliðar ýmiss konar annarri starfsemi, beinlínis neyðzt til þess. Þess eru t.d. dæmi, að leikstarfsemi, sem hiklaust telst til meiri háttar menningarviðburða í hverju byggðarlagi, hefur orðið út undan vegna kvikmyndasýninga og annarrar fjármunastarfsemi. Þetta er ekki sagt viðkomandi aðilum til hnjóðs, því að hér hefur sú eina ástæða legið til, að tekjuþörfin, eðlileg og sjálfsögð tekjuþörf, hefur þar knúið á. Það segir sig nefnilega sjálft, að því betri rekstraraðstaða og rekstrarafkoma sem reynist hjá félagsheimilunum. þeim mun betur geta þau sinnt sínum félagslegu verkefnum og hlúð beinlínis að hinum menningarlega þætti starfseminnar.

Nú er ég síður en svo að leggja til, að félagsheimili taki einvörðungu að sér menningarlegt framtak eða það sé þeirra hlutverk einna. Hér hljóta félagasamtök á viðkomandi stað að koma til, en þeim verður varla gert það kleift að neinu gagni, ef fjárhagsleg afkoma félagsheimilanna leyfir ekki nauðsynlega og réttláta fyrirgreiðslu í þessu efni. Ekki efa ég það, að ýmislegt þarfnist lagfæringar hvað rekstur hinna ýmsu félagsheimila snertir, en því mætti þá kippa í lag eða reyna að kippa í lag um leið og athugun sú fer fram, sem till. gerir ráð fyrir.

Það getur eflaust verið, að aðstaða hinna ýmsu félagsheimila og afkoma þeirra sé mjög misjöfn, og það kann meira að segja að vera, að sums staðar séu þau rekin sem hrein gróðafyrirtæki, þó að ég þekki ekki til slíks. Þetta breytir hins vegar engu um þá staðreynd, að til eru allt of mörg félagsheimili sem í þessum efnum búa við mjög þröng kjör, og þeim þarf og á að liðsinna, svo að þau megi halda uppi sem þróttmestum og fjölbreyttustum rekstri. Að því má ekki koma, að rekstur húsanna dragist saman að verulegu leyti, svo nauðsynlegur sem hann er hverju byggðarlagi, bæði hvað snertir almennt skemmtanahald og beina menningarlega starfsemi. Það væri líka ömurlegt, ef fjárhagsgeta húsanna yrði svo bágborin, að allt viðhald og endurbætur á þeim drægjust saman, ef þeim yrði kannske lítið sem ekkert sinnt. Það er ekki nóg að byggja glæsileg hús, þau þarf að reka sem allra bezt og þau þurfa sitt eðlilega viðhald, til þess að þau drabbist ekki niður.

Hjá því verður ekki komizt að minna hér á eitt veigamikið atriði, sem mjög fléttast inn í rekstur húsanna. Þar á ég við hlut Félagsheimilasjóðs, sem rekja mætti í löngu máli og ítarlegu, þ.e. hversu vanmegnugur hann hefur reynzt til þess að standa við skuldbindingar sínar, félagsheimilum, félagasamtökum og sveitarfélögum til hinna stórfelldustu erfiðleika. Það skal ekki tíundað hér, enda hefur þetta víst oft komið til umr. hér á hinu háa Alþingi. Hins vegar skal ekki úr því dregið, að þar er að leita veigamikilla orsaka fyrir erfiðleikum húsanna með rekstur sinn, og það ber að hafa í huga, að úr því verði bætt hið fyrsta og öll skil og skuldbindingar sjóðsins tekin til rækilegrar athugunar, þó að ugglaust þurfi þar til mjög aukið fjármagn.

En varðandi þau félagsheimili, sem ég hef haft kynni af, vil ég aðeins segja þetta: Framkvæmdastjórar þeirra félagsheimila, sem ég þekki til, félagsheimila á Austurlandi, hafa rætt ýmsar leiðir til að bæta reksturinn, m.a. með aukinni samvinnu um allt skemmtanahald og með bættu skipulagi. Ég veit, að þeir hafa fullan vilja á að gera það, sem í þeirra valdi stendur, til að bæta ástandið, en því ber ekki að neita, að hjá þeim ríkir töluverð svartsýni varðandi allan rekstur, að ekki sé nú minnzt á lítt ábatasama menningarstarfsemi. Þessir aðilar hafa óskað eftir því, að tekið sé til gaumgæfilegrar athugunar, á hvern hátt hið opinbera gæti komið til móts við þá og hafa einna helzt haft í huga, að félagsheimili fengju söluskattinn endurgreiddan að mestu eða öllu leyti. Hvort þessi hugmynd er raunhæf eða á fullan rétt á sér, skal ósagt látið, en vissulega er hér um hugsanlega leið að ræða, sem allrar athygli er verð. Það eru býsna drjúgar upphæðir, sem félagsheimilin þurfa að greiða á þennan hátt, og eflaust væri endurgreiðsla eða niðurfelling söluskattsins í einhverju formi mikil hjálp, þó að jafnframt yrði sjálfsagt, að hún yrði einhverjum skilyrðum háð. En fyrst og fremst vil ég óska þess, að þessi mál verði öll grandskoðuð, og af þeim ástæðum er till. flutt.

Félagsheimilin eiga að vera menningarmiðstöð hvers staðar. Slíkt hef ég ætíð talið þeirra meginhlutverk, og ekki skal dregið úr þýðingu þeirra á undanförnum árum á hinu félagslega og menningarlega sviði. Ég vil hins vegar fullyrða, að víða mætti enn betur gera og ég held, að það væri fyllilega tímabært, að ýmsar menningarstofnanir hér syðra, sem ríkið stendur undir að meira eða minna leyti, styddu félagsheimilin til þessa hlutverks. Eystra hefur a.m.k. lítt orðið vart við þessa starfsemi. Meira að segja Þjóðleikhúsið hefur dregið stórlega úr leikferðum sínum þangað, sú stofnun, sem ætti þó að hafa þarna eðlilega forgöngu.

Varðandi athugun þá, sem hér er lagt til að gera, væri það fyllilega íhugunarvert, hvort stjórn Félagsheimilasjóðs gæti ekki að einhverju leyti annazt hana, a.m.k. eru þeir málunum kunnugri, en ýmsir aðrir. En framar öllu vona ég, að í þessum málum verði eitthvað að hafzt, svo að séð verði til þess, að rekstrarafkoma húsanna verði að öllu eðlilegu tryggð, og ef till. þessi mætti þar einhverju fá áorkað, þá er það vissulega vel.

Ég vil svo, herra forseti, að lokum leggja til, að málinu verði frestað að lokinni umr. og því vísað til hv. allshn.