02.11.1971
Sameinað þing: 9. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í D-deild Alþingistíðinda. (4058)

30. mál, stóriðja

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson): Herra forseti. Núv. ríkisstj. hefur verið legið á hálsi fyrir það, að hún hafi verið nokkuð mikilvirk við að skipa nýjar nefndir, og um það hefur verið farið allmörgum háðulegum orðum í sumum blöðum stjórnarandstæðinga. Þó er svo að sjá sem Sjálfstfl. finnist ekki nóg að gert. Nú þegar liggja hér fyrir till. um nýjar nefndarskipanir á vegum Alþingis. Fyrri till., sem kom fram, hafði þann tilgang að taka tiltekin verkefni af hæstv. utanrrh., og sú till., sem hér liggur fyrir, á að hafa sama verkefni að því er snertir iðnrh. Þarna er lagt til. að kosin sé sérstök nefnd á Alþ., sem hafi það hlutverk að kanna möguleika til aukinnar stóriðju í landinu í tengslum við stórvirkjanir og hafa samráð við aðila eins og Orkustofnun, Landsvirkjun, Iðnþróunarsjóð, Iðnþróunarstofnun Íslands og Rafmagnsveitur ríkisins, gefa Alþ. skýrslur um málin o.s.frv. Þetta eru þau verkefni, sem Alþ. felur ríkisstj. hverju sinni. Ríkisstjórnin er framkvæmdastofnun Alþingis, og það er verkefni ráðherra að gegna þeim störfum, sem þarna eru tilgreind. Báðar þessar till. frá Sjálfstfl. eru í rauninni mjög dulbúnar vantrauststillögur á ríkisstj. og ég á svolítið erfitt með að skilja það, hvers vegna Sjálfstfl. fer þessar krókaleiðir, hvers vegna hann flytur ekki vantraust hreinlega. Mér fyndist það vera miklu mannalegar að verki staðið.

Í þessum aths. er það engan veginn fólgið, að ég telji, að Alþ. eigi ekki að fylgjast mjög gaumgæfilega með öllum þessum málum. Það tel ég, að Alþ. eigi að gera. Hér á þingi eru samkv. þingsköpum starfandi iðnaðarnefndir í báðum deildum og þær hafa það verkefni að fjalla sérstaklega um öll þau vandamál, sem snerta iðnað og þessar nefndir hafa oft orðið að fjalla um mjög mikilvæg mál. Ég tel það einnig sjálfsagt, að ef upp koma sérstök vandamál af stóru tagi, þá séu settar í það sérstakar nefndir af hálfu Alþingis eða af hálfu þingflokkanna, til þess að hægt sé að fylgjast sem gaumgæfilegast með þeim. Þannig tel ég, að verði að vera samskipti ríkisstjórnar og Alþingis og ég mun, meðan ég er ráðh., vinna að því að hafa sem bezt samskipti við Alþ. á þessum sviðum.

En meginhlutinn af ræðu hv. þm: Jóhanns Hafstein var nú raunar ekki rökstuðningur fyrir þessari till., heldur enn ein varnarræða fyrir samningi þeim, sem var gerður á sínum tíma við Swiss Aluminium. Ég skil það ákaflega vel, að hv. þm. finnist nauðsyn á því að halda varnarræður fyrir þann samning, því að ég hygg, að það sé flestra manna mál á Íslandi, að slíkur samningur verði aldrei framar gerður. Ég efast um, að nokkur stjórnmálaflokkur mundi leggja til að gera slíkan samning aftur eða taka upp mál á slíkum forsendum við erlenda eignaraðila. Við höfum núna á þessu hausti fengið ákaflega skýrt dæmi um það, hversu óhagstæður þessi samningur var. Nýlega er Landsvirkjun búin að hanna nýjar virkjanir eða gera áætlanir um nýjar virkjanir í Tungnaá við Sigöldu og Hrauneyjafoss. Þetta eru ákaflega hagkvæmar virkjanir á okkar mælikvarða. En engu að síður er framleiðslukostnaður af raforku um 35 aurar á kwst. Í samningi þeim, sem við gerðum við svissneska álfélagið og gildir óbreyttur í 25 ár, felst 22 aura verð á kwst. Og fyrir þetta verð fær auðhringurinn raforkuna í 25 ár. En við verðum núna aðeins örfáum árum seinna að sætta okkur við virkjanir, þar sem það kostar 35 aura á kwst. að framleiða raforkuna. Þetta eru ákaflega glöggar og skýrar staðreyndir.

Það hefur oft verið á það minnzt, að þessi raforkusala til álbræðslunnar færði okkur miklar gjaldeyristekjur á löngum tíma og það er alveg rétt. Ég held, að sú tala, sem nefnd hefur verið, sé 6.500 millj. á 25 árum. En ef samið hefði verið um það, sem nú kostar að framleiða raforku á Íslandi, þá hefði þessi summa komizt yfir 10 milljarða. Það vantar eina 4 milljarða upp á, og það er engin smáupphæð, vegna þess að hún mundi nægja til að greiða allan kostnað af nýrri virkjun við Sigöldu. Og það eru engar skýjaborgir, þegar ég segi, að þetta verð, 35 aurar á kwst. eða 4 mill væri raunsætt verð. Hingað hafa komið að undanförnu fjölmargir erlendir aðilar og verið að spyrjast fyrir um verð okkar á orku og ýmsar aðstæður til orkufreks iðnaðar á Íslandi. Þeim hefur verið frá því sagt, að lágmarksverð á raforku, framleiðslukostnaðarverð, væri 35 aurar á kwst. eða 4 mill og þeim hefur öllum fundizt þetta eðlilegt verð. Þetta er gangverð núna. En samt erum við bundnir við það í 25 ár að selja erlendum aðila raforku á 22 aura. Þetta eru svo óhagkvæmir samningar, að ég staðhæfi aftur, að slíka samninga mun engin ríkisstj. gera og ég er sannfærður um það, að hv. þm. Jóhanni Hafstein mundi ekki detta í hug að leggja til slíka samninga, þó að hann fengi aðstöðu til einhvern tíman síðar.

Mér þótti það allfurðulegt að heyra hv. þm. margsinnis bera saman orkufrekan iðnað og sjávarútveg og tala ævinlega í þeim dúr, að sjávarútvegur væri nú ómerkileg atvinnugrein í samanburði við orkufrekan iðnað. Ég á þess ekki kost að fara ofan í þær tölur, sem hv. þm. birti hér. En hitt hygg ég, að sé staðreynd, sem öllum birtist, sem kanna málin, að það er ekki til nein stóriðja í viðri veröld, sem er eins arðsöm fyrir þjóðarbúið og sjávarútvegur okkar hefur verið. Það er hvergi um eins mikla framleiðni að ræða og í íslenzkum sjávarútvegi. Og það er einmitt ástæðan til þess, hvað íslenzkt þjóðfélag hefur lyfzt á þessari öld. En því miður var það svo, þegar Sjálfstfl. var uppfullur af draumórum í sambandi við samninga við erlenda aðila, að einmitt þau árin var sjávarútvegurinn á Íslandi afræktur. Það fór ekki fram eðlileg endurnýjun. Okkur vantaði nútímalega togara m.a. og af þessu tapaði þjóðarbúið stórfelldum upphæðum og ef á að fara að reikna hér ávinning og tap, er ég hræddur um, að þar yrði að reikna æðistórar upphæðir á móti. Ástæðan var m.a. sú, að sérfræðingar ríkisstj. höfðu reiknað það út, að það yrði að sjá fyrir nægilegum mannafla í þágu hinnar erlendu stóriðju og þess vegna þyrfti að draga þann mannafla frá atvinnugreinum Íslendinga sjálfra.

Hv. þm. taldi það samningunum til lofs, að álverið væri skuldbundið til að greiða fyrir raforkuna, jafnvel þó að það hefði ekki notað hana. Þetta er alveg rétt. En þetta er ekkert einsdæmi. Orkusölusamningar erlendis eru víðast hvar á þessum forsendum. Orkukaupendur verða að gera samninga við orkuseljendur fyrir tiltekinn tíma og skuldbinda sig til að greiða alla orkuna, hvort sem þeir nota hana eða nota hana ekki. Þetta er ekkert, sem íslenzk ríkisstj. hefur fundið upp á. Þetta er almenn aðferð í orkusöluviðskiptum í löndunum allt umhverfis okkur.

Hann taldi það einnig fram, að framleiðsla hér á Íslandi héldi áfram, þó að framleiðsla væri takmörkuð annars staðar. Einnig þetta er rétt. En hvernig stendur á þessu? Það stendur þannig á því, að það er hagkvæmara fyrir auðhringinn að starfrækja álbræðsluna hér en í öðrum löndum, vegna þess að hér fæst raforkan á miklu lægra verði. Hún dregur saman seglin, þar sem framleiðslan er óhagkvæmari, vegna þess að raforkan er dýrari m.a. En hér heldur hún áfram framleiðslu af þessum ástæðum.

Ég ætla nú ekki að fara mörgum orðum um þetta eða fara að hefja neinn allsherjar eldhúsdag um þessi efni. Við hv. þm. höfum æði oft rætt þessi mál, og það er kannske ekki ástæða til þess, að maður sé æ ofan í æ að endurtaka sömu röksemdirnar. En á hitt vil ég leggja áherzlu, að með tilkomu núv. ríkisstj. hefur verið tekin upp gerbreytt stefna á þessum sviðum. Það var stefna Sjálfstfl., að Íslendingar gætu ekki ráðizt í nýjar stórvirkjanir af eigin rammleik. Það yrði að tengja slíkar stórvirkjanir við samninga við erlenda aðila. Þegar ríkisstj. tók ákvörðun um að ráðast í Búrfellsvirkjun, þá var sú ákvörðun algerlega bundin við samninga við Swiss Aluminium. Ríkisstj. hefði ekki ráðizt í þessa virkjun án þess að tengja hana við þennan samning við þennan svissneska auðhring. Og umsóknin til Alþjóðabankans var einnig tengd þessari forsendu. Og á sama hátt sagði hv. þm. Jóhann Hafstein, þáv. hæstv. iðnrh., margsinnis í kosningabaráttunni, að það væri ekki hægt að ráðast í virkjanirnar í Tungnaá nema tengja þær á sama hátt við samninga við erlenda aðila. Núv. ríkisstj. er á þveröfugri skoðun. Við teljum, að Íslendingar eigi að taka slíkar ákvarðanir sjálfir og meta sínar eigin forsendur, hvort það er hagkvæmt fyrir þjóðarbúskap Íslendinga eða ekki og þessi ákvörðun hefur þegar verið tekin. Ríkisstj. hefur ákveðið að ráðast í stórvirkjun við Sigöldu. Forsendur þeirrar ákvörðunar eru orkumarkaðurinn innanlands. Landsvirkjun hefur gert áætlanir, sem sýna, að þessi markaður er nægilega stór, ef möguleikarnir á húshitun eru hagnýttir, þannig að þessi ákvörðun um stórvirkjun er ekki tengd erlendum aðila. En þegar erlendir aðilar vita það í samningum við Íslendinga, að það kann að vera undir þeim komið, hvort við dirfumst að ráðast í stórvirkjun eða ekki, þá fá þeir samningsaðstöðu, sem er algerlega óþolandi. Það liggur í hlutaris eðli.

Annað atriði, sem einnig er breytt frá því, sem áður var, er það, að núv. ríkisstj. er algerlega andvíg því, að erlendir aðilar fái að reisa á Íslandi verksmiðjur, sem þeir eiga einir. Við teljum sjálfsagt, að það séu teknar upp viðræður við erlenda aðila, sem hafa áhuga á því að taka þátt í orkufrekum iðnaði á Íslandi. Og eins og hv. þm. tók fram, hef ég beðið fjóra menn að vera iðnrn. til ráðuneytis um viðræður við þessa aðila. Þetta er ekki nein stóriðjunefnd, þetta eru menn, sem hafa tekið að sér að vera mér til ráðuneytis. Og sú stefna, sem mótuð er í viðræðum við erlenda aðila, er sú, að Íslendingar vilji sjálfir hafa yfirráð yfir slíkum fyrirtækjum, þ.e. eiga meiri hluta í þeim eða eignast hann á tilteknu árabili eða hafa einhverja aðra slíka tilhögun, sem tryggi það, að slík fyrirtæki séu hluti af efnahagskerfi okkar sjálfra. Einnig þetta er ákaflega veigamikið atriði, og því fer mjög fjarri, að menn gangi út og skelli hurðum, þegar þeir heyra hugmyndir af þessu tagi. Þannig hafa aðilar allt í kringum okkur samið við erlenda aðila um slíkar verksmiðjur. Það eru fjölmargar slíkar verksmiðjur starfandi í Noregi, Svíþjóð og Danmörku með slíkri eignaraðild, þar sem heimamenn tryggja sér meirihlutaeign. Þannig er yfirleitt samið núna í nýfrjálsu ríkjunum í Afríku t.d. sem mjög þurfa á því að halda að hafa samvinnu við erlenda fjármagnsaðila og erlenda tækniaðila sér til aðstoðar. Og það er sannarlega tími til kominn, að Íslendingar hefji könnun á þessum forsendum sem sjálfstæðir aðilar, sem geri það að skilyrði, að þjóðin hafi sjálf vald á efnahagskerfi sínu og atvinnulífi: Ég tel, að þetta tvennt séu ákaflega veigamikil umskipti, og ég veit, að það á eftir að koma í ljós, að þessi umskipti eiga eftir að verða þjóðinni til ómetanlegs gagns.