17.12.1971
Neðri deild: 29. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

119. mál, verðlagsmál

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Hv. 4. landsk. þm. nefndi það hér í ræðu sinni, að ég hefði misskilið, á hvern hátt væri ætlazt til, að konur létu til sín taka í þessu þjóðfélagi. Mér er spurn: Á hvern hátt er ætlazt til þess? (Gripið fram í.) Ég vil tjá hv. 4. landsk. þm., að ég var kjörin til þingstarfa 26 ára að aldri og sat hér á Alþ. í 7 ár. Allan þann tíma lét ég til mín taka með fullum þingmannsrétti, eftir því sem ég frekast taldi ástæðu til. Með því teldi ég, að ég væri að leggja mitt litla persónulega lóð á þá vogarskál, að konur létu til sin taka, eins og þær hefðu rétt til og hefðu fengið fylgi til.

Ég vil leiðrétta mikinn misskilning, sem kom fram í máli hv. þm. Hún hélt því fram, að starf Kvenfélagasambands Íslands miðaði í afturhaldsátt. Ég vildi satt að segja óska, að hún hefði ekki látið þessi ummæli falla hér á opinberum vettvangi, að það starf miðaði nokkuð í afturhaldsátt, og það miðaði að því að festa konur við heimilin. (SvJ: Þetta er ekki rétt.) Er þetta ekki rétt? (SvJ: Ég sagði, að till. miðaði í þá átt.) Till. mín? Það var nú enn þá fjær lagi, að till. um, að fulltrúi Kvenfélagasambands Íslands sæti í verðlagsnefnd, gæti á nokkurn hátt miðað að því að festa konur á heimilum sínum. Þetta er jafn fjarri lagi og það, að formaður verðlagsnefndar sé embættismaður eða eitthvað álíka, festi konur á heimilum sínum. Þessi till. kemur alls ekki neitt nálægt því máli, hvar starfsvettvangur konunnar er.

Hins vegar vil ég láta þess getið, að starf Kvenfélagasambands Íslands hefur vissulega miðað að fræðslu húsmæðra í landinu. En fræðsla húsmæðra í landinu miðar ekki að því að skipa þeim einhvern ákveðinn starfsvettvang. Hvar sem ein húsmóðir vinnur, utan heimilis eða innan, þá er hún ásamt bónda sínum þó alltaf stjórnandi heimilisins, og það er full nauðsyn á því og það er hagur þessarar þjóðar, að fólk sé sem bezt upplýst um það, hvernig á að reka heimili, svo að í lagi sé. Það varðar miklu um meðferð á fjármunum þjóðarinnar.

Ég veit raunar ekki, hvort hv. stjórnarsinnum finnst það yfir höfuð skipta máli, hvernig farið er með fjármuni þessarar þjóðar, en mér finnst það skipta máli, og ég veit, að þeim, sem ég starfa mest með í stjórnmálum, finnst það skipta miklu máli.

Enn fremur vil ég benda á það, að fræðsla um rekstur heimila, hagkvæmni í störfum og hagkvæmni í innkaupum dregur á engan hátt úr því, að fólk velji sér starfsvettvang. Hún verður miklu fremur til þess, að fólk hafi möguleika á að velja sér starfsvettvang. Kona, t.d. sem veit ekki, hvernig hún á að haga störfum sínum, eða ver fjármunum sínum í óráðsíu, hefur engan tíma til þess að sinna sínum mörgu störfum, svo að í lagi sé. Hún þarf að geta skipulagt stjórn á sínu heimill, þó svo að hún vinni einhvers staðar annars staðar. Þó svo að einhver annar sinni þar ýmsum störfum, þá þarf hún alltaf að stjórna því ásamt manni sínum.

Kvenfélagasamband Íslands hefur einmitt í seinni tíð lagt áherzlu á nauðsyn þess, að konur sem karlar séu frædd um þessi atriði og leggur áherzlu á nauðsyn þess, að karlar og konur standi sameiginlega að hagsmunamálum heimilanna, jafnt í störfum sem í ýmsu öðru efnalegu tilliti og að öllu leyti öðru. Það er hrein nauðsyn, til þess að heimilið geti verið sá vettvangur friðar og öryggis, sem við nú einu sinni byggjum á og viljum, að þau séu. Ég viðurkenni það fyllilega, að það er mín stefna, að svo sé, og ég tel það á engan hátt spilla þeirri stefnu eða framgangi þeirrar hugsunar, að fólk sé sem bezt frætt um ýmis neytendamál heimilanna, störf á heimilum eða rekstur þeirra yfirleitt. Þetta vil ég láta koma hér fram, til þess að öruggt sé, að enginn misskilningur sé varðandi hlutverk Kvenfélagasambandsins. Ég veit raunar, að það eru fjölmargir þm. og ekki sízt þm. utan af landi, sem eru því mun kunnugri en hv. síðasti ræðumaður, hve mikið gagn þetta samband hefur gert í landinu áratugum saman.

Hitt er svo annað mál, að það skiptir vitanlega ekki nokkru máli um það, hvort kona vinnur aðallega á heimili sínu eða einhvers staðar annars staðar, eða hálfan dag á heimili sínu og hálfan daginn einhvers staðar annars staðar, hvort Kvenfélagasamband Íslands á fulltrúa í verðlagsnefnd. Það er gjörsamlega óskylt mál. Samt vildi ég nú láta þetta koma fram að gefnu tilefni frá síðasta ræðumanni.